22.12.1978
Neðri deild: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hafði í iðnn. Nd. gert fyrirvara um atkv. mitt um verðjöfnunargjald af raforku. Þessi fyrirvari byggðist á því, að ég óttaðist að á lánsfjáráætlun næsta árs yrði framlag til Bessastaðaárvirkjunar að fjárhæð 800–900 millj. kr. og að þetta framlag mundi auka byrðar á rafmagnsnotendur, þótt ekki kæmu þær fram þegar í stað. Ég hef ástæðu til að ætla, að í þeim miklu efnahagserfiðleikum, sem þjóðin á nú í, verði fjármunum ekki varið á næstunni í jafndýra og kannske vafasama framkvæmd og Bessastaðaárvirkjun og framlögum frestað í a.m.k. eitt ár. Þá liggur fyrir að taxtar RARIK verða endurskoðaðir á næstunni. Þá liggur einnig fyrir, að verði brtt. hæstv. iðnrh. ekki samþ. nú, mun verðjöfnunargjaldið með öllu falla niður um næstu áramót. Slíkt mundi hafa í för með sér gífurlega rekstrarörðugleika fyrir RARIK og ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Af þessum ástæðum greiði ég till. atkv. og segi já.