30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

164. mál, hækkanir opinberra stofnana, framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu varðandi þessar fsp. Þær voru ekki fluttar í þeim tilgangi af mér að stofna til ræðuhalda á þessum degi, heldur fyrst og fremst til þess að fá þær upplýsingar sem ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa gefið. Hins vegar er ekki því að leyna, að útlitið er dökkt í baráttunni við verðbólguna, a.m.k. bera allar þessar beiðnir órækan vott um það og allar þær mörgu beiðnir sem á eftir hljóta að koma, því að þó talað sé um Hitaveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun, þá koma auðvitað aðrar rafmagnsveitur í kjölfarið.

Mér finnst á margan hátt vera óeðlilegt að gjaldskrárnefnd, sem fær allmörg mál til meðferðar, skuli liggja á afgreiðslu mála fram yfir 1. febr. og þá alveg sérstaklega á þeim málaflokkum sem einstök rn. hafa farið yfir og mælt með tilteknum hækkunum á, eins og fram kom í svari hæstv. forsrh. Þetta tel ég fyrir mitt leyti óeðlilegt. Mér finnst að það eigi að liggja fyrir hvernig er háttað þessari opinberu þjónustu.

Við skulum taka eina stærstu ríkisstofnun í landinu, sem fer ekki fram á samkv. svari hæstv, forsrh. minna en 25% hækkun, Póst og síma. Hvernig verður þá staða þessarar stofnunar sem og annarra stofnana ríkis og sveitarfélaga, ef langur dráttur verður á því að afgreiða verðhækkunartillögurnar? Hefur ríkisstj. ekki áhyggjur af því, að þessar stofnanir verði þá reknar með stórhalla, eða er von til þess að draga svo saman í útgjöldum þessara stofnana að til frekari hækkana þurfi ekki að koma? Ég nefndi þetta stórfyrirtæki vegna þess að samgrn. mælir með þessum hækkanabeiðnum Pósts og síma, og þá fæ ég ekki annað séð en að rn., sem fer með yfirstjórn þessara mála, telji að þessar hækkanir séu óumflýjanlegar. Með því að draga hækkunina á langinn fram eftir ári verður hún enn þá meiri, ef hún kemur á færri mánuði á árinu, og ekki verður það betra fyrir almenning í landinu.

Það má enginn taka orð mín á þann veg, að ég sé einhver talsmaður hækkana fyrir þessi fyrirtæki, en ég tel að það sé rétt stefna að afgreiða hækkanabeiðnir, hvort sem þær eru afgreiddar jákvætt eða neikvætt, en láta þær ekki hrannast upp. Þá á ég ekki eingöngu við tillögur gjaldskrárnefndar sem koma til ríkisstj., heldur ekki síður við verðlagsnefndina, sem mér sýnist á þeirri upptalningu, sem hæstv. forsrh. las upp, að geti haft allmikið að segja í verðbólgunni. Þess vegna held ég að það sé gagnlegt, ekki síst fyrir ríkisstj. og Alþ., að ákvarðanir séu teknar í þessum efnum, en ekki velt á undan sér lengri eða skemmri tíma einhverri óvissu um hvað tekur við í verðlagsmálum.