30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

52. mál, eignarráð á flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Skömmu eftir að fsp. þessi var lögð fram óskaði ég eftir því, að varnarmáladeild utanrrn. sendi grg. um málið. Það kemur fram í máli fyrirspyrjanda, að hann er mjög vel kunnugur því, í raun og veru er ekki mjög miklu við að bæta af upplýsingum sem byggjandi er á, en ég mun nú lesa stutta grg. varnarmáladeildarinnar:

„Hinn 19, des. 1974 óskaði Njarðvíkurhreppur eftir uppboði á flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli fyrir ógreiddum fasteignaskatti. Málið var rekið fyrir héraðsdómi, sem úrskurðaði að krafa Njarðvíkurhrepps um að flugstöðvarbyggingin yrði seld á nauðungaruppboði skyldi ná fram að ganga. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar, sem vísaði málinu frá og til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar. Nefndin kvað svo upp úrskurð 7. júní 1977 og segir þar svo m.a.:

„Í úrskurði þessum verður aðeins tekið til athugunar, hvort ríkissjóði sé skylt að svara fasteignaskatti af umræddri flugstöðvarbyggingu. Af gögnum málsins kemur fram, að Bandaríkin létu reisa flugstöðvarbygginguna. Hinn 29. maí 1964 var hins vegar gert samkomulag milli varnarliðsins og íslensku ríkisstj. um afhendingu hótel- og flugstöðvarbyggingar varnarliðsins til íslensku ríkisstj., sbr. og breytingu á þessu samkomulagi frá 24. febr. 1966. Samkv. fyrrgreindu samkomulagi tekur íslenska ríkisstj. að sér rekstur og viðhald flugstöðvarbyggingarinnar. Í samkomulaginu eru ríkisstj. fengnar mjög víðtækar heimildir til nýtingar og ráðstöfunar þessa mannvirkis, en ekki þykir þó hafa verið sýnt nægilega fram á að með samkomulagi þessu hafi ríkissjóður orðið eigandi flugstöðvarbyggingarinnar í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga. Hafa heldur ekki verið færð fram gögn fyrir því, að ríkissjóður hafi orðið eigandi byggingarinnar með öðrum hætti.“ — Hér lýkur tilvitnun í úrskurð yfirfasteignamatsnefndar.

Það skal undirstrikað, að þessi úrskurður fjallar aðeins um þá hlið eignarréttarins er varðar skyldu til greiðslu fasteignaskatts. Hins vegar er eignarréttur afstætt hugtak, sem getur verið breytilegt eftir því, í hvaða sambandi um er rætt. Varnarliðið hefur haldið því fram, að það sé enn eigandi byggingarinnar, þótt það hafi látið afnotaréttinn af hendi. Umræddri fsp. mætti því svara á eftirfarandi hátt:

Að því er varðar þann hluta byggingarinnar, sem tilvitnað samkomulag frá 29. maí 1964 með breytingu frá 24. febr. 1966 nær til, er alla vega um afnotarétt að ræða í svo rúmum skilningi að réttarstöðu íslenska ríkisins gagnvart bandaríska ríkinu megi nánast túlka sem eignarrétt. Um aðra hluta byggingarinnar er ljóst að réttarstaða íslenska ríkisins er enn tryggari gagnvart bandaríska ríkinu, þar sem síðari tíma endurbætur og viðaukar hafa að öllu leyti verið kostaðir af Íslendingum.“

Hér lýkur skýrslu þeirri, sem varnarmáladeild gaf. Við þetta hef ég ekki miklu að bæta öðru en því, að það er persónuleg skoðun mín, að sveitarfélögin, sem eru næst Keflavíkurflugvelli, eigi að fá gjöld af öllum þeim mannvirkjum, sem varnarmálasamningurinn undanskilur ekki greinilega, og samkv. úrskurði réttra yfirvalda. Ég vil því vona að eftir venjulegum leiðum verði hægt að finna botn í þetta mál, þannig að allir geti við unað og sveitarfélagið fái það sem því ber.