30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

52. mál, eignarráð á flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans við fsp. mínum. Ég hefði gjarnan viljað að þau svör hefðu verið afdráttarlausari, en mér er ljóst að á þessari eignaraðild leikur nokkur vafi lagalega séð, þar sem kveðið er á um afnotarétt í samningi þeim sem ég minntist á.

Ég minnist þess, að hæstv. forsrh. sagði í sjónvarpsþætti í septembermánuði s.l., að það væri tiltölulega einfalt verk að byggja nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli, við gætum selt okkar hlut í þeirri gömlu, eins og hann orðaði það, og fjármagnað þannig að hluta byggingu hinnar nýju. Af þessum orðum hæstv. forsrh. fannst mér mega ráða, að það væri skoðun hans að íslenska ríkið væri eigandi þessarar byggingar.

Með eldri hluta byggingarinnar er þarna sem sagt um vafamál að ræða. Ég skil svar hæstv. utanrrh. svo, að um síðari tíma endurbætur leiki ekki vafi.

Ég fagna þeim persónulegu skoðunum, sem hæstv. ráðh. lét í ljós, að sveitarfélögin á þessu svæði ættu að fá gjöld af þessum mannvirkjum.