31.01.1979
Neðri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða það mál, sem hér er til umr., efnislega að sinni, til þess gefst tækifæri síðar. Þetta mál fer til n. og verður ugglaust þar tekin afstaða til ýmissa efnisatriða í frv., sem skiptar skoðanir eru um, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. í þeim fyrirvörum sem hann hafði um örfáa liði vegna fram kominna sjónarmiða eftir að frv. var samið.

Þetta frv. er hluti af þeim svokallaða „pakka“, sem lagður var fram rétt fyrir 1. des. s.l. og á að koma í staðinn fyrir þær launahækkanir sem þá hefðu átt að eiga sér stað, en eins og hv. þm. muna ákvað ríkisstj. að bæta launþegum upp þessi laun með svokölluðum félagslegum umbótum. Nú kemur það á daginn, að þessar félagslegu umbætur eiga atvinnufyrirtækin að greiða — þau fyrirtæki sem 1. des. gátu ekki greitt umsamin laun að áliti ríkisstj., eða a.m.k. verður maður að álíta að ríkisstj. hafi gripið til þessara ráða til þess að koma í veg fyrir að kostnaðurinn af launahækkununum fari út í verðlagið. Nú kemur samt sem áður í ljós, að það eru sömu aðilar sem eiga að borga brúsann. Ég get ekki annað séð en nákvæmlega sama gerist þegar um launahækkanir er að ræða.

Hæstv, ráðh. gat um bréf sem Vinnuveitendasamband Íslands hefur sent hæstv. forsrh. í sambandi við þetta mál. Í þessu bréfi segir — með leyfi forseta — í lokin:

„Við viljum ítreka þá kröfu okkar, að nú þegar verði skipuð nefnd frá vinnuveitenda- og launþegasamtökunum til að fjalla um framangreint frv. og freista þess að ná samkomulagi um efni þess. Við teljum álögur þær og þá stórkostlegu áhættu, sem hér er stefnt að, einkum fyrir smáar rekstrareiningar, svo þungbærar að þær jafngildi mun meiri kauphækkun en 2–3% , sem félagslegar umbætur áttu að koma í staðinn fyrir.“

Mig langar í framhaldi af þeim sjónarmiðum sem vinnuveitendur lýsa að spyrjast fyrir um það, ef upplýsingar liggja fyrir um það hér og nú, hvernig hafi verið háttað svokölluðum samráðum við aðila vinnumarkaðarins, sem hæstv. ríkisstj., sem nú situr, lagði ríka áherslu á í upphafi stjórnartímabilsins. Það væri ástæða til þess að átta sig á því, hvernig þessum samráðum hafi verið háttað, hve margir fundir hafi verið haldnir, hvort efni frv. þessa og annarra slíkra, sem eiga eftir að koma til hv. Alþ., hafi verið rætt á einhvers konar samráðssamkomum eða hvort ætlunin sé að gera það í framtíðinni. Og eins vil ég spyrja um hitt, — ég býst við að hæstv. félmrh., sem er eini ráðh. sem hér er mættur, taki þá svari ríkisstj., — hvort hæstv. forsrh. hafi svarað þessu bréfi, sem ég las hér úr áður, og hvernig tekið hafi verið í þau sjónarmið vinnuveitenda að skipuð yrði nefnd til að ræða þessi mál og komast að niðurstöðu.

Eins og ég sagði í upphafi er ég ekki að leggja dóm á efnisatriði málsins. Ég hef ekki skoðað það ítarlega ofan í kjölinn. En ég tel fulla ástæðu til þess, þegar um jafnviðkvæm mál og þessi er að ræða, að þá sé a.m.k. þess gætt að samráð séu höfð við aðila vinnumarkaðarins og því fremur þegar ríkisstj. hefur lofað því í upphafi stjórnartímabilsins.