06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

328. mál, nafnlausar bankabækur

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ekki dreg ég í efa eftir þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, skilning og velvilja hv. tveggja þm. Norðurl. e. á hagsmunum ýmissa aðila í þjóðfélaginu, saumaklúbba, sérvitringa, fullnaðarprófsbekkja, að ég ekki tali um þann skilning sem hér kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni á vandamálum ættarsamfélagsins á Íslandi, þar sem menn telja sér nauðsynlegt að fela innistæður sínar í banka fyrir frændum sínum og frænkum til þess að verða ekki fyrir ofsóknum. Málið horfir nú ekki þannig við, að ætlunin sé að fara að ofsækja ættingjana, fullnaðarprófsbekkina, saumaklúbbana, sérvitringana, ferðahópana. Hérna er um óskaplega einfalt atriði að ræða, öryggisatriði.

Röksemdir fyrir þessari skoðun eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða verulegt öryggisatriði í rekstri innlánsstofnana og hins vegar örugga réttargæslu í þjóðfélaginu sjálfu. Sé innlánsreikningur ekki nafnskráður eiga endurskoðendur banka þess ekki kost að hafa samband við innistæðueiganda, til staðfestingar á því, að skráð innistæða í bókhaldi bankans komi heim við þá upphæð sem innistæðueigandinn telur sig eiga á reikningi sínum. Hér er um afar þýðingarmikla endurskoðunaraðferð að ræða, sem beitt er í hæfilegum mæli við bankaendurskoðun í nágrannalöndum okkar. Einnig má benda á í þessu sambandi, að hætt er við að ónafnskráðum reikningum fylgi tilslökun á nauðsynlegum formsatriðum við innborganir og útborganir, en því getur fylgt veruleg áhætta fyrir bankann sem slíkan.

Varðandi almenn réttargæslusjónarmið skal bent á það, að tilvist ónafnskráðra bankareikninga gerir skattayfirvöldum erfiðara um vik við skattrannsóknir sem eru ákaflega mikilvægt atriði. Einnig má nefna þá hættu sem á því er, að ónafnskráð bankainnistæða komi ekki fram við hugsanleg skipti á búi reikningseigandans, t.d. við gjaldþrotaskipti eða skipti á dánarbúi.

Það voru þessi öryggis- og réttarsjónarmið sem réðu úrslitum um þá afstöðu mína, sem ég greindi frá áðan, að þetta ætti að stöðva. Það var engin tilhneiging til þess að ofsækja saumaklúbba, ferðafélög eða ættingja nokkurs viðstadds hv. þm.