07.02.1979
Efri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Jónsson:

Herra.forseti. Það kom mér helst og fyrst í hug undir ræðu hv. þm. Jóns G. Sólness áðan, er hann andmælti þessu frv., að ekki eru öll ráð þjóðráð, og á það ekki síst við þegar orkumálin eru til umr., og verðum við þó að notast við þau í bili. Hv. þm., sem sjálfur hefur með nokkru stolti og við allgóðar undirtektir viturra manna kallað sig kommúnista í orkumálum, hefur þráfaldlega lýst yfir stuðningi við hugmyndir okkar Alþb.-manna og síðan framsóknarmanna um varanlega lausn á því máli er lýtur að sæmilegri jöfnun á raforkuverði um landið. Ég þori ekki að fullyrða, en þó mætti segja mér að hugmyndir hv. þm. í þessa átt hafi jafnvel verið mótaðar áður en Alþb. gaf út orkubókina sína og þar af leiðandi löngu áður en framsóknarmenn lögðu fram þáltill. sína í þessum efnum.

Ég get tekið undir rökstuðning hv. þm. Alexanders Stefánssonar, sem lýtur að útfærslu á hugmyndinni um það sem hér hefur komið fram hjá andmælendum þessa frv. sumum hverjum, hvernig einstök byggðarlög eigi að búa að sínu og láta skrattann hirða þann síðasta — einmitt hugmynd hv. þm. um að gera endanlega upp dæmið, hvernig hin litlu sjávarpláss úti á landi mundu nú standa ef spurningin stóra um gjaldeyriseignina, um útflutningsverðmætin, kæmi til endanlegs útreiknings. Ef við tækjum fyrir sjávarpláss eins og Ólafsvík eða þá litlu Raufarhöfn og gerðum það upp, hvort þessi pláss fengju meiri verðmæti frá ríkinu en þau verðmæti sem fólkið á þessum litlum stöðum lætur landsbyggðinni í heild í té, þá kynni þetta dæmi að verða í þessu tilfelli íbúum þessara litlu sjávarplássa mjög í vil, eða — ef við viljum taka það frá sjónarhóli þeirra sem aðhyllast nú þessa hugmynd að hver skuli búa að sínu — þá mjög í óhag.

Þegar hv. þm. í þessari d. hafa vitnað til þess í andmælum sínum gegn frv. þessu, að með því sé stefnt að því að svipta þau byggðarlög, sem hagsýni hafa sýnt í orkumálum á liðnum árum, þeim hag sem þau hafa af þessari skynsamlegu hagsýslu sinni, þeim hag sem íbúar þessara staða hafa af framsýni og ráðdeild á liðnum árum í orkumálum, þá vill gjarnan gleymast að taka tillit til þess, að ríkið, eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason vakti athygli á, er helmingseignaraðill að Landsvirkjun. Hvað sem fjármögnun Laxárvirkjunar viðvíkur, — um það atriði vil ég ekki deila við hv. þm. Braga Sigurjónsson, — þá er hitt staðreynd, að ríkið stóð fyllilega að lánsútvegun og ábyrgðum á lánum til Sogsvirkjunar og síðar til Landsvirkjunar og er helmingseignaraðili að þessum fyrirtækjum sem sjá nú hinum fjölmennustu byggðum landsins fyrir raforku á miklu lægra verði, hér um bil helmingi lægra verði, en það fólk verður að sæta sem býr á viðskiptasvæði Rafmagnsveitna ríkisins. Það er ekki íbúum RARIK-svæðisins að kenna, þeir áttu enga aðild að þeim samningi fremur en hv. þm. Karl Steinar Guðnason átti aðild prívat og persónulega að þeirri samningsgjörð sem batt okkur til sölu á raforku til álversins í Straumsvík allar götur til ársins 1997 á föstu verði sem samsvarar, að því er mér virðist, 1/14 hluta af söluverði rafmagns á RARIK-svæðinu. Þetta verð er fastbundið, þannig að því miður getum við ekki lagt verðjöfnunargjald á raforkuna til álversins í Straumsvík, fastbundið til 1997, og við gætum ekki einu sinni með lagasetningu kveðið öðruvísi á, þar sem ákvæði samkv. samningi við Alusuisse eru þannig, að við eigum að hlíta úrskurði erlends gerðardóms til þess að fá þar nokkru um þokað.

Því miður er ég hræddur um að hið sama muni verða upp á teningnum um aðstöðu okkar gagnvart járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði. Ég man ekki betur en í samningi við norsku verksmiðjurnar Elkem sé það bundið óhagganlega, og þá ekki síst með tilliti til viðbótarsamningsins, á hvaða verði við hljótum að selja þessu fyrirtæki orku og að við eigum þess ekki kost að leggja verðjöfnunargjald ofan á það verð. Hafa nú þeir hv. þm., sem greiddu atkv. af mestri einurð með þeirri samningsgerð, rétt eina ástæðuna til að fagna.

Það er vafalaust rétt, sem Bragi Sigurjónsson sagði, að viðskiptamenn Laxárvirkjunar hafa staðið straum af afborgana- og vaxtagreiðslum af öllum lánum Laxárvirkjunar, en ekki alveg með sama hætti. Ýmsir af viðskiptavinum Laxárvirkjunar hafa gert þetta öðrum fremur, þar sem rafmagnið er selt á hærra verði utan Akureyrar en í Akureyrarbæ, eða raunverulega í heimabyggð aðaleignaraðila. Þetta út af fyrir sig breytir ekki því, að ríkið á sinn hlut í Laxárvirkjun, einhvers staðar á milli 30 og 40%. Ég er alveg viss um að ef upp yrði nú gerður með hinu nýja skyni á verðbreytingu á peningum, sem nú virðist vera að þróast með mönnum í sambandi við ítarlegar umr. um verðbólgumálin, ef hugað yrði að þeim hag sem viðskiptamenn Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar hafa haft af því fé, sem ríkið lagði í þessi fyrirtæki á sínum tíma, að þeim hag sem viðskiptamenn þessara fyrirtækja á markaðssvæðum þeirra hafa haft af þessu „kapítali“ ríkisins um áratugi, þá mundi koma í ljós að íbúar RARIK-svæðisins, sem vissulega áttu sinn hlut í þessu „kapítali“, kynnu að eiga talsverða peninga þarna inni.

Ég ítreka það sjónarmið mitt, sem raunar hefur komið fram hjá hæstv. ráðh. sjálfum, að hér neytum við ekki hinna bestu ráða. Við getum ekki kallað þessa lausn þjóðráð, þó að við eigum nú ekki annarra ráða völ. Við eigum þess ekki kost að leysa vanda Rafmagnsveitnanna á þann hátt á þessu ári sem við teljum æskilegan til frambúðar, enda hef ég ekki heyrt hv. þm., sem gagnrýnt hafa frv., þó að þeir viti fullvel hvernig á því stendur núna, því að þeir hnútar voru riðnir fyrir löngu sem við þurfum nú á að herða, — ég hef ekki heyrt þessa hv. þm. benda á önnur ráð raunverulega við þeim bráða vanda sem hér er við að glíma.

Ég tel að þær hugmyndir, sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason setti fram í ræðu sinni áðan um orkuskatt, um aðrar aðferðir til þess að ná fram jöfnuði af því tagi sem við nú viljum, séu íhugunarverðar. Ég hygg að hann hafi lagt talsverða vinnu og notið góðra ráða í sambandi við gagnasöfnun í ræðu þeirri sem hann flutti áðan, þótt honum yfirsæist þetta, og ég ítreka það, — ég tók ekki alveg eftir því, hvort hv. þm. var viðstaddur áðan, er ég drap á bindinguna á raforkuverðinu til álversins, — að þetta lága verð, þetta hlægilega lága verð er bundið með lögum geirnegldum með ákvæði um erlendan gerðardóm fram til ársins 1997. Mér er það kunnugt að hv. þm. átti enga aðild persónulega að gerð þess samnings, en flokkur hans stóð að gerð þess samnings alveg heill og óskiptur, sem skiptir út af fyrir sig ekki máli þegar við erum að ræða þetta mál núna. Þar verður því miður engu um þokað.

Ég er hræddur um að á sama hátt og honum hefur skotist í þessu atriði, þó hugsun hans væri fróm, og gjarnan hefði ég viljað stuðla að slíku, hafi honum skotist þegar hann ímyndar sér að hægt sé nú að knýja fram svokallaða Gljúfurversvirkjun við Laxá. Um þetta atriði höfum við deilt talsvert hér á þingi á liðnum árum og orðið, ef svo má segja, þegjandi samkomulag á milli okkar hv. þm. Braga Sigurjónssonar um að gera það ekki lengur vegna þess að á meðan menn renna hýru auga til Laxárdals í þessu skyni, að drekkja honum til þess að ná raforku á þessu svæði, þá fæst engin lausn á raforkumálum Norðurlands, heldur illindi ein saman, og fyrr mun Karl Steinar Guðnason hnekkja hinum járnbenta samningi um raforkuverð til Alusuisse en slíkt hafist fyrir norðan, enda hefur verið gengið frá sátt í því máli endanlega á milli ríkisvalds, Laxárvirkjunar og eignaraðila og landseta á þessu svæði fyrir norðan og þaðan munum við ekki fá meiri orku.

Hugmyndir hv, þm. Karls Steinars Guðnasonar um aðrar leiðir og e.t.v. virkari til frambúðar til þess að ná inn framkvæmdafé og fé til þess að lækka raforkuverð eru sannarlega íhugunarverðar, en endanlega lausn á þeim vandamálum, sem lúta að raforku kringum þetta strjálbýla land, fáum við ekki fyrr en höfum komið fram þeim hugmyndum sem lúta að sameiginlegu fyrirtæki til raforkuöflunar og raforkudreifingar í kringum landið.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu af minni hálfu til þess að ræða þetta mál frekar, en lýsi yfir stuðningi við frv.