07.02.1979
Efri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

149. mál, ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Þegar mál þetta var hér til 2. umr. á dögunum, þá tók ég til máls og lýsti nokkrum efasemdum mínum í sambandi við framkvæmd þessara laga. Síðan hef ég orðið mér úti um lögin sjálf, um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Í 2. gr. þessara laga stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ábyrgðin tekur til þeirra vinnulauna, sem forgangsréttur fylgir skv. lögum nr. 3 12. apríl 1978, um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl.“

Mér finnst þetta ákvæði laganna vera svo alhæft, að þarna sé fyllilega ástæða til þess að fara að með gát. Að fara svo að auka þetta frekar án þess að gera á því nauðsynlegar úrbætur er að mínum dómi mjög vafasamt. Ég tel ekki rétt að það sé lögð sú kvöð á ríkissjóð að hann eigi að borga undir öllum kringumstæðum launakröfur sem lagalega geta haft forgangsrétt í þrotabúi, hvernig svo sem til þeirra er stofnað. Það getur vel verið að fyrirtæki fari á hausinn fyrir óstjórn og vitleysu ráðamanna þeirra, þeir geta verið búnir að gera einhverja bindandi launasamninga sem er lögum samkv. heimilt. En að binda ríkissjóði slíka bagga er mér áhyggjuefni. Þó að ég sé mjög hlynntur hinum frjálsa kapítalisma og starfsemi í anda hans hef ég engan áhuga á því að skapa kapítalistunum mjög greiðan aðgang að ríkissjóði. Ég vil láta menn bera ábyrgð á gerðum sínum. Ég vil beina því til aðila, sem hafa sérstakan áhuga á þessum lagaákvæðum, að ég tel t.d. ekki óeðlilegt að þarna væru þó sett einhver takmörk á, t.a.m. að þeir, sem eiga að njóta þeirra réttinda sem lögin kveða á um, væru t.d. innan ASÍ eða eitthvað slíkt.