08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft mjög mikilvægu máli.

Eins og komið hefur fram í ræðum annarra hér á undan, hefur fiskmiðlun átt sér stað innan vissra landshluta. Ég held að menn hljóti að vera sammála um að innan landshlutanna verði að byggja sem mest á frjálsum samtökum hagsmunaaðila og hafa sem best samstarf við þá og heimamenn að öllu leyti. Hitt er svo augljóst, að samgöngur á landi eru mismunandi góðar á hinum ýmsu svæðum og eftir sem áður stendur sá vandi sem er miðlun milli landshluta. Að því er reyndar vikið líka í þeirri till. til þál. sem hér liggur fyrir, þar sem talað er um að veiðiflotinn skuli vera í góðu samræmi við afkastagetu vinnslustöðvanna. Nú vitum við að í þessum efnum er kannske ekki fullt jafnvægi eins og stendur. Hæstv. félmrh. vék að því áðan. Ég held þess vegna að það verði að skoða það mál hér líka, hvernig eigi að miðla þessari takmörkuðu auðlind milli landshlutanna. Ég er fyrir mitt leyti opinn fyrir hverjum þeim hugmyndum sem fram koma í þeim efnum.

Að sumu því, sem vikið er að hér, má segja að sé unnið, eins og tilraunum með flutning í kældum og lokuðum flutningatækjum. Í gangi hefur verið athugun á vegum Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins að því er það varðar. Hins vegar er ljóst að hér er um mjög víðfeðmt mál að ræða. Það hefur nokkuð verið til umfjöllunar í rn. og komu fram á því margar hliðar. Þau markmið, sem hér eru sett fram, tel ég góðra gjalda verð og styð þess vegna þessa till. til þál.