08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Fámennið var orðið slíkt í þingsalnum áðan, að varla hefði verið hægt að manna sæmilegan vertíðarbát. Úr því hefur nú ræst nokkuð. Hv. 4. þm. Norðurl. v. kvartaði yfir krataleysi. Fannst hann vera mjög einmana í ræðustólnum. En hann hafði varla minnst á þetta þegar salurinn hálffylltist af krötum. Það sýnir hvað þeir hlýða vel kallinu enn þá. Það þarf ekki annað en að nefna nafn þeirra, þá koma þeir fram úr hornunum og ræða við foringja sína.

Margir hafa talið till. þá, sem hér er til umr., góðra gjalda verða, og mér virðist að þeir hafi ýmsir látið í ljós ekki litla hrifningu yfir þessari tillögusmíð, sem fjallar um skipulagningu á fisklöndun til fiskvinnslustöðva. Ég var satt að segja svolítið tortryggnari við fyrsta yfirlestur þessarar till., sem fjallar um að sjútvrn. eigi að undirbúa löggjöf um skipulag á fisklöndun til fiskvinnslustöðva o.s.frv. Mér finnst till. mjög víðtæk og almennt orðuð, þannig að ástæða sé til að gera við hana nokkrar aths.

Það sem fyrir hv. tillögumönnum vakir skýrðist nokkuð þegar hv. 1. þm. Austurl. — tók skýrt fram í annarri ræðu sinni, að það væri vissulega algerlega út í hött að skylda menn til að landa afla sínum hér og þar. En varla er hægt að setja á fót allsherjarlöggjöf um þessi efni án þess að segja við menn: — Ja, þú skalt eða þú skalt ekki. — Það er yfirleitt efnislegt innihald flestrar löggjáfar. Ég held satt að segja — og hef oft tekið það fram áður — að menn ofmeti það mjög mikið að setja löggjöf um hin og önnur mál. Margir ætla að löggjöf um eitthvert atriði leysi næstum allan vanda. Ég vil minna hv. þm. á að það þarf ekki lengi að fletta spjöldum sögunnar til þess að komast að raun um að jafnvel grunnmúraðar, vel samdar og þaulhugsaðar stjórnarskrár hafa hrunið eins og spilaborgir meðan óskráð lög hafa dugað um aldir. Og einföld handsöl heiðarlegra manna duga oft miklu betur en skriflegir og vottfastir samningar annarra.

En vitanlega er fjallað í þessari till. um stórt og mikið mál og hún tekur fram ýmis meginatriði sem fróðlegt er að hugleiða í góðra manna hópi. Vissulega grípur hún á mörgum vandamálum sem við þarf að fást frá degi til dags. Ég er alveg sammála því, viðurkenni það fyllilega, að sjútvrh. og sjútvrn. þurfa svo sannarlega að hafa í höndum eða tiltækar vissar heimildir sem hægt er að beita af og til. Og auðvitað verður að hafa ákveðið skipulag á þessum hlutum. En sem betur fer er nú þegar fyrir hendi víðs vegar um land allnokkur samvinna í þessum efnum, þó að ekki sé hún lögþvinguð. Það er vitaskuld æskilegt að það berist mátulega mikill afli í hverja verstöð, hæfilegur til þess að þar hafi hver maður nóg að vinna án þess að vinna óhæfilega langan vinnudag. En við vitum að þessu er ekki svo háttað í landi okkar, að þægilegt sé að koma slíku fyrir. Ég vil líka benda á að það er ábyrgðarhluti af fiskvinnslustöðvum að taka við miklu meiri afla en svo, að hægt sé að gera úr honum góða vöru.

Ég viðurkenni að um loðnuna gildir sérstaða, og það var ekki nema eðlilegt að mínum dómi, að taka þyrfti upp ákveðið skipulag með löndun loðnuafla hér á árunum, eins og bent er á í grg. Og vissulega hljóta slík mál að koma upp. Ég er ekki andvígur því, að löggjöf sé sett um viss atriði. En ef ætti að þaulskipuleggja þetta frá grunni samkv. vel útfærðri löggjöf þyrfti líka að segja sem svo, að á vissum stöðum megi ekki vera fleiri eða stærri fiskvinnslustöðvar en svo og svo og jafnvel ekki fleiri bátar eða skip en þar yrði upp talið.

Það skiptir í þessu efni að mínum dómi afskaplega miklu máli að koma á góðu samstarfi á milli byggðarlaga, eins og hér er tekið fram í grg. vissulega mjög réttilega, og þá, eins og nú er farið að tíðka, að koma á góðum og öruggum flutningum á hráefni milli staða. Það er ekki sama hvernig þeir flutningar fara fram. Þeir þurfa að fara fram á þann veg að hráefnið haldist óskemmt. Þannig er vissulega hægt að miðla hráefni svo að vinnslan verði sem hagkvæmust og sem flestir fái notið þess sem að landi berst.

Ég er fyllilega á sama máli og höfundar þessarar þáltill., að það er margt fróðlegt og mjög rétt sem kemur fram og rakið er í grg. Þar er m.a. bent á að fiskiðnaðurinn sé stóriðja okkar Íslendinga og þurfi að skipuleggja hann og gera honum kleift að þróast, ekki aðeins til frumvinnslu hráefnis, heldur til fullkominnar matvælaframleiðslu.

Það má svo margs spyrja almennt um veiðar og vinnslu, á hverri leið við erum í þeim efnum og hvað framtíðin beri í skauti sínu. Ég verð að segja það, að þó margir séu svartsýnir eru ýmsar gleðifréttir af þeim vettvangi sem okkur ber að virða og þakka um leið þær ráðstafanir í friðunarátt sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Ég get sagt ykkur sem dæmi, að það eru ekki mörg ár síðan ýsa var hætt að sjást í afla eða næstum því — í verstöðvum á Snæfellsnesi. Núna er farin að veiðast stór og falleg ýsa á þeim slóðum á línu. Þetta verður maður að ætla að sé að þakka — a.m.k. að einhverju leyti — þeim ráðstöfunum til friðunar, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, þó að vitaskuld ráði þarna náttúran sjálf ráðum sínum, eins og hún hefur gert frá upphafi daga og gerir enn í dag. Og það er hverju orði sannara, að skuttogarar af þeirri gerð, sem nú setja hvað mestan svip á þorskveiðiflotann, hafa reynst vel. Þeir hafa ýmsa yfirburði til að tryggja nægilegt hráefni allt árið umfram það sem minni bátar hafa. En við skulum samt ekki vanmeta bátaflotann. Hins vegar eru skuttogararnir ómissandi til að miðla aflanum og dreifa honum til þess að vinna sé sem jöfnust allt árið.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Að mínum dómi er meginatriðið, að góð samvinna takist milli þeirra aðila sem þarna eiga hlut að máli. Þetta er það stórt mál, á því veltur það mikið fyrir alla framtíð þjóðarinnar, að það er vissulega ekki nema eðlilegt, að svona hugleiðingar séu settar á blað og reynt að ráða ráðum sínum í þessu efni á sem skynsamlegastan máta.

Þessi till. fer vafalaust til n. og verður þar rædd meira og ítarlegar en hægt er hér. En ég ætla aðeins að benda á það enn á ný, sem við höfum allir margfalda reynslu af, að löggjöf leysir ekki allan vanda, hvorki í þessu máli né öðrum, nema í einstaka tilvikum. Ég tel að sú allsherjarlöggjöf, sem mér virðist vera bent á í tillgr., eigi ekki við í þessum efnum.