13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

173. mál, könnun á atvinnu- og félagsmálum Suðurnesja

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 330 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi fsp. til hæstv. forsrh.:

„Hvað líður framkvæmd á ályktun Alþingis frá 6. maí 1978 um könnun á atvinnu- og félagslegri aðstöðu íbúa byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar?“

Vorið 1978 var samþ.þál. er ég gat um. Hún hljóðar svo: . „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að Framkvæmdastofnun ríkisins kanni atvinnustöðu svo og félagslega aðstöðu íbúa byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar og geri næsta Alþingi grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar.“

Ástæðan fyrir þessari fsp. er nú sú, að um langt árabil hefur verið öryggisleysi í atvinnumálum Suðurnesja, í raun og veru nýtt fyrirbrigði. Fyrr á árum var þetta eitt tryggasta svæði landsins hvað snerti atvinnu og byggði tilveru sína að mestu leyti á sjávarútvegi. Nú hefur það gerst á síðustu árum, að miklar breytingar hafa orðið á sjávarafla, bæði til minnkunar og einnig varðandi samsetningu aflans. Allt þetta hefur valdið því, að mikið öryggisleysi hefur skapast, eins og ég gat um, og þess vegna fannst mér að þörf væri á að rannsaka hve stóran þátt Keflavíkurflugvöllur ætti í atvinnulífi Suðurnesja og enn fremur hver félagsleg áhrif flugvallarins væru.