13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

135. mál, endurskoðun á launakjörum hreppstjóra

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Launakjör hreppstjóra eru ákvörðuð í lögum nr. 32 frá 1965, en framkvæmd þeirra laga heyrir undir dómsmrn. Launakjör eru ákvörðuð með tilliti til fjölda íbúa í hverjum hreppi.

Með vísan til 8. gr. þessara laga hefur fjmrh. breytt launum hreppstjóra miðað við þær breytingar sem orðið hafa á launum starfsmanna ríkisins frá því að lögin voru sett. Laun þessi hafa nú á síðustu árum fylgt þeim breytingum sem orðið hafa á launakjörum lögreglumanna, en hækkanir þar hafa verið meiri en margra annarra starfshópa í ríkiskerfinu.

Í þál. frá 3. maí 1977 er eigi að því vikið, á hvern veg Alþ. vill breyta launum hreppstjóra. Þó segir í grg. með þáltill., að lagt sé til með þessari till. að þóknunin verði endurskoðuð og m.a. metin eftir umfangi starfsins á hverjum stað. Samkv. 10. gr. fyrrnefndra laga setur dómsmrh. í reglugerð frekari ákvæði um hreppstjóra, störf þeirra og kjör. Ég tel eðlilegt að dómsmrn. hafi frumkvæði að þeim breytingum á lögum eða reglugerð, sem nauðsynlegar eru til að mál þetta fái þann framgang sem æskilegur er, en kemur ekki beint fram í þáltill. Ég hef kynnt mér hvernig þessi mál standa, og hæstv. dómsmrh. hefur sagt mér að verið væri að vinna að undirbúningi málsins í dómsmrn.