15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2620 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er víst og rétt, að þessar umr. sem hér hafa farið fram, hafa verið næsta furðulegar. Þær hófust í Nd. í gær með því, að hv. 1. þm. Reykn. kvaddi sér hljóðs utan dagskrár til að finna að vinnubrögðum varðandi hið margumtalaða og fræga frv. hæstv. forsrh. Forsrh. vékst alveg undir það, að þarna hefði ekki til tekist með eðlilegum hætti, og þetta hafa stjórnarsinnar hver um annan þveran játað. En allt að einu eru hafnar hér umr. um þetta frv., sem stjórnarandstaðan fékk fyrst að sjá nú í dag og stimplað sem trúnaðarmál. Þess vegna er það svo með mig, þótt eldri þm. ýmsir virðast gera lítið með slíkan stimpil, að mér er umhendis að ræða það hér á hinu háa Alþ., þó að málið snúi beint að því. En hér hafa menn þreytt skeiðið heldur betur um ýmis hin mikilvægustu atriði sem í þessu frv. felast. En þó tekur í hnúkana fyrst þegar menn fá svo að hlaupa inn í þessar utandagskrárumr. með efni sem á dagskrá er, eins og orkusparnaðartill. hv. þm. Alþfl., Braga Sigurjónssonar og Braga Níelssonar. Það er 9. mál á dagskrá á þessum fundi. Þá er nú heldur betur stungin tólg þegar þarf að hleypa mönnum að utan dagskrár með dagskrármál fundarins, og er þá herra forsetinn orðinn heldur en ekki uppgefinn að fara eftir hinni prentuðu dagskrá þegar svo er komið.

Ég verð að segja það, að ég varð meira en lítið undrandi á ýmsu því sem fram kom hjá hæstv. forsrh. Það er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur þm. að verða fyrir því, að hæstv. ráðherrar lítilsvirði Alþ. og fari ekki að þingræðislegum reglum. Þeir margir hverjir ofmetnast með þeim hætti að þeir blátt áfram hafa að engu ýmsar viljayfirlýsingar Alþingis, og hefur verið margsinnis á þetta bent. Og það er ekki gamalt dæmi sem við höfum fyrir okkur í þessu: fiskveiðisamningar okkar við Færeyinga, þar sem ljóst lá fyrir að hæstv. utanrrh. hafði með engu móti viðhaft þá málsmeðferð sem telja verður líðanlega. Hann hafði ekki einu sinni gáð að því, þó að þetta væri talin ríkisstjórnartillaga, að sækja um heimild eins ríkisstjórnarflokksins til að flytja málið. Þetta kom fram í umr.

Hér sækjast stjórnarflokkarnir á með ódæmum. Einn þeirra álítur að hér hafi verið fundin ein allsherjarlausn á okkar vanda í efnahagsmálum. Við stjórnarandstöðuþingmenn getum ekkert um þetta rætt. Við höfum ekki hugmynd um hvað í þessu frv. stendur. Annar stjórnarflokkurinn álitur að í grundvallaratriðum sé hér valin alröng leið. Hv. 7. þm. Reykv. segir að ef ekki verði farin sú leið sem þetta huldufrv. felur í sér þá bíði bullandi atvinnuleysi á næsta leiti. Hæstv. viðskrh. segir að í þessu frv. felist keðjuverkandi samdráttur og verði farin sú leið muni það hafa í för með sér bullandi atvinnuleysi. Hæstv. viðskrh. fullyrðir að það séu sjálfvirk kauplækkunarákvæði í þessu frv. En þetta er að dómi hv. Alþfl.- manna hinn eini og sanni bjarghringur.

Hæstv. forsrh. margítrekaði að það væri villandi að ræða um bráðabirgðalausnir, — að einhverjar bráðabirgðalausnir hefðu verið gerðar í sambandi við efnahagsmál okkar á undanförnum mánuðum. Ég hef aldrei heyrt fyrr frá neinum að um annað hafi verið að tefla en bráðabirgðalausnir. Þessu hefur verið haldið að okkur af sjálfum stjórnarsinnunum seint og snemma, að hér hafi einvörðungu verið um bráðabirgðalausnir að tefla. Hvað vilja hv. Alþfl.-menn segja um það? Og undarlegt tal má það vera, þegar hæstv. forsrh. fullyrðir að það hafi tekist að afnema, jarða fyrir fullt og fast 15.5% vísitölustig sem aldrei muni koma meir. Þetta er eins og þegar herkerlingarnar syngja: „Jesús kastar öllum mínum syndum bak við sig og ég sé þær aldrei meir.“

Þegar skattpíningu er beitt til þess að mata verðbólguna eins og gert hefur verið, halda menn þá að þetta komi aldrei meir og þess muni aldrei sjást stað meir, — þegar skattpíningunni er einnig beitt þannig, að það heldur við stöðvun atvinnufyrirtækja og mun stórlega draga þess vegna beinlínis úr atvinnu í landinu? Nei, þau koma aldrei meir, þó að sé rammskekkt öll verðmyndun með stórkostlegum niðurgreiðslum, þó að verði að prenta seðla í lok þessa 16 mánaða árs þeirra til þess að mata verðbólguna með, þá eru syndir þessar allar saman horfnar. Þetta er auðvitað með ólíkindum, slíkar fullyrðingar.

Síðan lýsti hæstv. forsrh. yfir að sér hefði með samþykkt á ráðherrafundi verið falið að semja frv. og eiginlega hefði hann lokið skyldum sínum í því sambandi. Sannleikurinn mun reyndar sá, að hann hefur aðeins unnið einhver frumvarpsdrög fyrir fjölmiðla sem er alveg ljóst mál — ekkert er um það að villast — að geta ekki orðið frv. núv. hæstv. ríkisstj. Þessari ríkisstj. er alveg óhætt að segja af sér nú þegar í stað. — Aðeins ein leið er til, og það er að hv. 1. þm. Austurl. Lúðvík Jósepssyni, takist að vinda ofan af hæstv. forsrh., honum er svo sem vel til þess trúandi, — og að í því stórbreytta formi, sem hlýtur að verða breytt form í meginatriðum, verði frv. lagt fram um ráðstafanir í efnahagsmálum og kratarnir síðan kúgaðir emjandi til þess að greiða því atkv., eins og þeir gerðu á móti samvisku sinni í höfuðmáli eftir höfuðmál fyrir jól. Þetta er eina leiðin og það kann að vera að hún sé fær. Svo mörg dæmi höfum við um þessa aðferð hér fyrir jólin, að ekki er útilokað að megi endurtaka hana. Og ég er næstum því viss um að það er það sem hæstv. forsrh. treystir og trúir á. Hann er að hlaða undir Alþfl.-mennina nú í bili til þess að hugga þá eftir allar ófarirnar fyrir áramótin. Hann hefur gert sig góðan í þeirra augum með þessu: að taka upp að mestu leyti, skilst mér, þeirra frv., sem skólameistarinn á Ísafirði samdi fyrir jólin í jólaönnunum og þeim er hlýtt til hans í bili. Það mun sennilega endast til þess að þeir verði til þess knúðir að greiða svo atkv. með lokafrv., sem verður ekkert líkt því sem núna liggur fyrir. Það er alveg ljóst mál, eigi eitthvert frv. yfirleitt að ganga fram á vegum þessarar ríkisstj.

Ég ætlaði ekki og get ekki af auðskildum ástæðum rætt frv. eða þessi mál efnislega. En sá, sem slapp inn í utandagskrárumr. með dagskrármálið sitt, var hér með háahljóðum. Hann minnti á að hann hefði barið í borðið hér fyrir jól með óvenjulegum hætti og nú mundi hann berja í borðið aftur. Og honum leist ekki á, því hann sagði okkur að nú stjákluðu ráðh. um berrassaðir, og er nú ekki undarlegt þótt hrollur sé í einstaka manni í þeim hópi í uppbyrjandi olíukreppu. Ég ætlaði hins vegar að víkja að þeim þætti sem menn hafa gerst langorðir um og fram kom fyrst í ræðu hv. 4. þm. Reykv., en það er varðandi olíumálin sem auðvitað snerta geysimikið okkar efnahagsmál í náinni framtíð.

Ég hafði lagt fyrir löngu fram fsp. til hæstv. viðskrh. um verðmyndunarþætti á bensíni og hinum ýmsu tegundum olíu. Ég hafði enn fremur varpað fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um hver reynslan hefði orðið af brennslu svartolíu í fiskiskipum. Þessari fsp. hinum fyrri lið, varðandi verðmyndunarþætti olíu, var svarað í Þjóðviljanum að nokkru leyti. Komu þar vissulega fram mjög mikilvægir þættir í því efni sem ég lét mig sérstaklega varða. Ég hafði gert tilraun til að fá þessar upplýsingar, en rakst ævinlega á þann vegg, að þar væri um trúnaðarmál að tefla sem ég gæti ekki unnið með á opinberum vettvangi. Hæstv. viðskrh. lét Þjóðviljann sitja fyrir svörum sínum, en sat svo að nokkru leyti fyrir svörum varðandi þessa fsp. í dag á hinu háa Alþingi. Það var næsta fróðlegt að lesa í Þjóðviljanum um hina 20 verðmyndunarþætti á olíum og bensíni. Og nú þegar hin mikla olíuverðshækkun skellur yfir er nauðsynlegt að fá svar við því hvort stefnan sé að halda áfram slíkri verðmyndun á þessum okkar orkugjöfum, 20 þáttum talsins: leki í hafi, leki í landi + magnprósent + 2%. Það er eins og stóð í einhverju plagginu: 5% fyrir mig og 10% fyrir þig. 20 liðir eru hér og bankakostnaður stórkostlegur álagsliður í þessu sambandi. Auðvitað er ríkið með fingurna í þessu öllu saman. Auðvitað tekur það langstærstan partinn í sína eyðsluhít. Er það svo, að magnálagning og prósentuálagning hafi verið óbreytt þrátt fyrir margföldun olíuverðs á undanförnum árum, og hverjir hafa þá notið þess? Um þetta þarf að fá nánari upplýsingar. Og ég þarf að fá að vita viðhorf hæstv. ráðh. til þess, hvort sami háttur verði hafður á þótt um svo stórkostlega verðhækkun verði að tefla eins og nú sýnast vera á döfinni.

Þá er í öðru lagi það sem rætt hefur verið um brennslu á hinum ýmsum tegundum af olíu. Við höfum séð að hæstv. iðnrh. hefur lagt upp í mikla auglýsingaherferð fyrir sjálfan sig varðandi þessi mál og prédikað mikið um orkusparnað. Á fyrsta degi þings eftir jól var rætt um dagskrármál hv. þm. Braga Sigurjónssonar og þar flutti hæstv. iðnrh. langa ræðu. Það, sem hann sagði almennt um orkuvandamál í heiminum heyrðist mér vera lausleg þýðing á ræðu eftir Carter frá því í fyrra. En það, sem hann sagði um brennslu svartolíu t.d. og þann sparnað sem hann telur að hægt sé að fá vegna brennslu svartolíunnar, var byggt á, að því sem ég vil segja, mjög villandi, ef ekki alröngum upplýsingum. Það fólst varla urmull af þekkingu í þeim yfirlýsingum. Hann nefndi að sérfræðingar hefðu matað sig á þessum upplýsingum, og ég vil gjarnan spyrja hvaða sérfræðingar það eru. Nú vill svo til að svartolíu er hvergi brennt í fiskiskipum í heiminum nema örfáum íslenskum togurum. Það vill svo til að ýmis frægustu vélafyrirtæki í heimi hafa gert með það tilraunir árum saman að ná tökum á þessu viðfangsefni, að brenna svartolíu í fiskiskipum, en ekki tekist. T.d. gerði frægt fyrirtæki í Hollandi rannsókn á því fyrir hollensku ríkisstj., hvort hægt væri og hagkvæmt að brenna svartolíu í fiskiskipum. Niðurstaðan varð sú, þegar allir þættir væru teknir með, að á tíu ára tímabili mundi reynast 30% dýrara að brenna svartolíu en gasolíu. Þetta stafar af ýmsum ástæðum sem ég hirði ekki að rekja hér og er allt of langt mál upp að telja. En á árunum 1968–1969, þegar ég var viðriðinn samninga og kaup á tveimur skuttogurum, þá var það aðaláhugamál þeirra manna, sem við þá samninga voru riðnir, að kaupa skip búin vélum sem gætu brennt svartolíu. Þetta tókst ekki, því að þeir vélaframleiðendur voru ekki finnanlegir í heiminum sem treystu sér til að taka ábyrgð á slíkum vélum og þess vegna varð frá þeim að hverfa.

Menn, sem hafa, að því er sumir segja, ekki keyrt stærri vélar en bílvélina sína, hafa ráðið þessa miklu gátu. Og menn telja sér trú um að það sé svartolía, hin venjulega svartolía, sem er í notkun á Íslandi. En það vill svo til að því fer víðs fjarri. Rússneska svartolían er að segja má nær alls óskyld hinni eiginlegu svartolíu. Hún er miklu þynnri, miklu betri til brennslu í venjulegum vélum fiskiskipa. Þó er þess að geta, að útilokað er að nota þá olíu heldur í hinum minni fiskiskipum. Hér er einvörðungu að tala um milliþungar vélar, eins og í togurum. Rússar þynna þessa olíu mjög út, vegna þess að henni er dælt um langan veg, allar götur frá Svartahafi til Eystrasalts. Það er líka annað undarlegt varðandi verðlagningu á þessari olíu hér á Íslandi, að það er miklu meiri verðmunur á svartolíu og gasolíu hér heldur en í öðrum löndum og svo hefur verið lengi. Því hefur verið haldið fram í blaðagreinum nú nýverið, að þetta væri vegna þess að það væri svo lítið magn af svartolíu sem keypt væri, að gasolían væri látin bera þennan verðmun uppi. Ég skal ekkert um þetta fullyrða, en þannig vilja þeir, sem þykjast kunnugir málum, halda fram að málið sé í pottinn búið.

Ég vil líka fá svar við því, ef svartolía yrði allmennt tekin í notkun, til hvers það mundi leiða í verðlagningu í viðskiptum okkar við Rússa. Þeir hafa, að því er fullyrt er`mjög knúið á um að fá verulega hækkun á svartolíunni sem þeir selja okkur. Í fyrsta lagi mundu stóraukin kaup á svartolíu frá þeim leiða til stórhækkaðs verðs, svo merkilegt sem það er. Og í öðru lagi: Er hægt að fá nægilega mikið magn af þessari einstöku tegund svartolíu frá þeim, eins og við þurfum á að halda? Ef svo er ekki, ef við þyrftum að kaupa ameríska svartolíu eða Rotterdam-svartolíu, þá er alveg útilokað fyrir eitt einasta fiskiskip að nota slíka olíu. Má nefna ýmis dæmi um það, hvernig þessi olíubrennsla hefur reynst. Ég veit að menn geta gengið úr skugga um það sjálfir, ef þeir hafa áhuga á, að fyrir nokkrum vikum var Hofsjökull keyrður á amerískri svartolíu frá Ameríku til Íslands og hann brenndi yfir 28 útblástursloka af 32 á leiðinni. og hann tafðist a.m.k. um 1/4 af þeirri tímalengt sem ella hefði tekið hann að sigla til landsins. Það er hægt að láta sérfræðinga hæstv. iðnrh. segja sér frá því, og það er best að hæstv. iðnrh. beri niður á Eskifirði, að þar fékk einn sérfræðingurinn að gera tilraunir með keyrslu Caterpillar-vélar, 900 hestafla, á svartolíu, og hún var ónýt, þessi vél hjá Rafveitunni, eftir 700 klst. keyrslu. Þessu geta menn gengið úr skugga um.

Þó að mönnum komi það kannske á óvart hjá mér eftir þennan lestur, þá er málum þannig háttað nú, að það eru engin önnur ráð fyrir togarana að mínum dómi en að breyta yfir í notkun svartolíu. Verðmunurinn er orðinn svo gífurlegur, að enda þótt vélarnar eyðilegðust á 3–5 ára tímabili mundi það samt borga sig. En menn sjá í hendi sér hversu óhagkvæmt þetta er í raun og veru til lengdar.

Menn hafa náð tökum á brennslu svartolíunnar í flutningaskipum sem búin eru níðþungum vélum og ganga með jöfnu og miklu álagi. En enda þótt breytt yrði á flestum minni togurum t.d. yfir í svartolíu, þá liggur alveg ljóst fyrir að það yrði að brenna nærri til helminga af gasolíunni eftir sem áður, því að hjálparvélarnar eða ljósavélarnar verða alls ekki keyrðar með þessari olíu. (Gripið fram í.) Það er óráð. Það er hið mesta óráð. (Gripið fram í.) Það er þá bara út úr hreinni neyð, en það er ekkert minnsta vit í því, og hv. þm. Garðar Sigurðsson á strax að upplýsa mennina um þetta, þá sem hann þekkir, að gera ekki slíka ósvinnu. Og svo í öðru lagi: Þegar menn tala um hinn mikla sparnað, þá liggur alveg ljóst fyrir að í minni fiskiskipum verður þetta alls ekki notað. Og þegar menn eru að nefna dæmi um að sparnaðurinn kynni að verða 4–5 milljarðar, þá trúi ég engu af slíkum fullyrðingum, satt best að segja.

Það er bráðnauðsynlegt að fá svör við þessu: Fáum við nægjanlegt af þessari einstöku og góðu olíu frá Rússum? Mun mismunur á verðlagi þessara tveggja tegunda, gasolíu og svartolíu, verða áfram jafnmikill? Getum við alveg treyst að þessi orkulind verði með sama hætti og hún hefur verið? Þá er ekkert spursmál um að grípa til þessa ráðs. Ég vil enn fremur varpa þeirri spurningu fram, hvort menn þyrftu ekki að búa sig undir það líka að setja upp olíuhreinsunarstöð. Nú vitum við að um borð í skipum, sem brenna svartolíu, þarf að koma upp skilvindu sem hreinsar olíuna. Að vísu er það ekki flókinn eða dýr vélbúnaður varðandi rússnesku svartolíuna, en það vaktar auðvitað sú spurning: Borgar sig ekki að vinna þessa olíu á einum stað úr svartolíu yfir í það sem kallað er t.d. „marine olía“ og flestir ef ekki allir togararnir gætu brennt án örðugleika. Ef við skyldum þurfa að grípa til þess að brenna hinni eiginlegu svartolíu, þá er ekkert áhorfsmál um það, ef verðlag verður með þessum hætti, að reisa olíuhreinsunarstöð fyrir þessa togara.

Ég vil enn fremur spyrja þá sem allt vitið hafa: Ef togaraflotinn allur fer að nota svartolíu, hvaða fjárfestingar þurfa olíufélögin þá að hafa í frammi? Nú hafa þau enga aðstöðu til að sjá slíkum flota fyrir þjónustu að þessu leyti, og það er miklu dýrara að dreifa þessari olíu en gasolíu. Hvað þá? Mun þá ekki kostnaður vaxa enn þess vegna? Spyr sá sem ekki veit.

Ég vil leggja áherslu á hina brýnu nauðsyn þess, að menn beiti öllum ráðum til sparnaðar í orkunotkuninni. Það má enginn skilja orð mín á þann veg, að ég sé að draga úr þeirri nauðsyn. En ég held að menn flaggi of hátt í auglýsingamennsku sinni í þessum efnum.

Það var blaðamannafundur hér á dögunum — eða hvort það var í gær — hjá hæstv. iðnrh., og það var beðið lengi eftir því að sjónvarpið kæmi að taka myndir, enda var það aðalatriðið, svo að menn gætu birst á skerminum. Og það var ráðslagað að leggja land undir fót austur á Austfirði til þess að afhuga olíukyndingartæki íbúanna á Höfn og Djúpavogi og Breiðdalsvík. Mér skilst að það eigi að fara 12 menn frá Vélskólanum, 12 frá Tækniskólanum og 12 úr Háskólanum, samtals 36 eintök, og 2 kennarar frá hverjum skóla og flugfélög hæði austanlands og hér syðra eigi að þjónusta þetta ferðalag. Og þá er það auðvitað að vélskólanemarnir verða sendir í reykháfinn upp á sótið og tæknimennirnir með skrúfjárnið, því að það er bara ein skrúfa sem skrúfuð er við stillinguna, og háskólanemarnir til þess að skrifa. Þetta var nefnilega gert á Akranesi, og hæstv. forsrh. hældi sérstaklega þeim sem höfðu frumkvæðið þar. En getum við fengið nákvæma skýrslur um niðurstöðurnar þar? Því hefur verið haldið fram við mig, að menn hafi farið og mælt lofthitann og annað sem tilheyrir, þegar þetta var rannsakað á Akranesi, og menn fundu út bestu nýtingu á olíunni. Það tókst þeim mætavel. En við bestu nýtingu olíunnar var bara einn galli, húsin hitnuðu ekki, það þótti að vísu ýmsum íbúanna ærinn galli. Að sjálfsögðu ber mikla nauðsyn til að fara að mæla einangrunina hjá þeim austur þar og hvernig best nýting verður úr svartolíunni. En það verður að athuga í leiðinni að menn geti búið í þeim húsum á eftir.

Við öllu þessu þarf að fá svör. En að öðru leyti, eins og ég hef margtekið fram, ber hina brýnustu nauðsyn til þess að við vinnum að því kappsamlega og með öllum ráðum að spara þessa rándýru orku sem hún er orðin. Svo er hitt annað mál, hvað núv. hæstv. ráðh. vilja vera að velkjast í svona málum, — menn sem hvort sem er eru að því komnir að leggja upp laupana.