19.02.1979
Sameinað þing: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég er lítið kunnugur umr. hér á hv. Alþ. og það er kannske þess vegna sem ég kann ekki að meta „trakteringar“ eins og þær sem hv. þm. Jónas Árnason sendi okkur Suðurnesjamönnum þegar hann ræddi hér um daginn um mengun af völdum olíu á Keflavíkurflugvelli. Hann taldi eitt helsta ráðið í þessum vanda að hressa upp á manndóm Suðurnesjamanna. Þrátt fyrir ókunnugleika á úrræðum þm. til lausnar vandamála yfirleitt efast ég um að algengt sé að benda á lausn sem þessa og líklegast að hún sé aðeins dæmi um manndóm þessa hv. þm. sjálfs.

En um það mál, sem hér er til umræðu, get ég upplýst að fyrir nokkrum árum bauðst hópur sérfræðinga frá Orkustofnun til þess að kanna hvað langt væri þangað til að olía yrði komin í vatnið. Enginn efast um að að því kemur að við fáum olíuna niður í vatnið. Annar hópur frá sömu stofnun bauðst til að kanna hvenær vatnið þryti. Báðir hóparnir ætluðu að sjálfsögðu að gera þetta í yfirvinnu fyrir okkur og kostnaðaráætlun samanlögð var um 70 millj. kr. En á þeim tíma hefði sennilega mátt virkja önnur hól fyrir þá upphæð. Og sem betur fer er ekki langt í önnur vatnsból.

Vonandi fáum við vatn í næstu framtíð. En þar sem það er ljóst, að fyrr eða seinna kemur olía það langt niður í jarðveginn að vatnið mengast, þá tel ég að væri eðlilegt að kannað væri hvar næst ætti að virkja og slík virkjun lægi fyrir fullhönnuð þegar að því kemur að olían kemur í vatnið.

Ég ætla að vona að till. um bætta skipan varnarmálanefndar leiði til þess, að það þurfi ekki að taka 15 ára samningaþóf, eins og það tók með sorpeyðingarstöðina, sem loksins er að komast á laggirnar, en það var 15 ára þras að koma því í gegn.