19.02.1979
Sameinað þing: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

57. mál, fæðingarorlof kvenna í sveitum

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að það komi hér fram, sem raunar mun áður hafa verið lýst yfir hér í þinginu, að fjmrh. er þegar búinn að ákveða að skipa n. til endurskoðunar á almannatryggingalögunum. Ég hygg, að hann sé einmitt þessa dagana að undirbúa nefndaskipun. En ég kom líka upp í ræðustól til þess að taka undir bæði þáltillgr. og eins ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að það er alveg rétt, að okkur er ekki nóg að ætlast til þess eða stuðla að því, að útivinnandi konur, auk kvenna í sveitum, fái fæðingarorlof gegnum almannatryggingalögin, heldur hlýtur þetta að verða þannig útbúið, að allar konur njóti fæðingarorlofs, jafnt hvort þær eru útivinnandi eða vinna inni á heimilum, annað er ekki jöfnuður að minni hyggju. Þetta vildi ég að kæmi fram, þessi skoðun mín, sem mér fannst mundu falla alveg saman við skoðun hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Ég tel að því aðeins náist jöfnuður í þessu að allar konur njóti þessa réttar jafnt.