21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2686 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

148. mál, orlof

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur nú að mestu leyti tekið af mér ómakið. — Ég held að sá málflutningur, sem fulltrúar Sjálfstfl. hafa haft hér uppi, stafi af miklum misskilningi, bæði misskilningi á efnisatriðum málsins og — eins og hv. síðasti þm. sagði — misskilinni þjónustusemi við hagsmuni Vinnuveitendasambandsins. Það kann vel að vera, að hér á landi sé lagakerfi sem geri það kleift að forma vissa túlkun á því lagakerfi á þann veg sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson gerði áðan. En ég vil í fullri vinsemd vara þá góðu drengi við því að tengja saman í eina formúlu og gera að grundvallaratriði síns málflutnings í þessu máli annars vegar hagsmuni Vinnuveitendasambandsins og hins vegar júridískan formalisma. Það er fátt sem er öruggari formúla fyrir gulltryggðri íhaldssemi heldur en þetta tvennt ef það fer saman: hagsmunagæsla fyrir Vinnuveitendasambandið og þröngsýnn og stirðnaður júridískur formalismi. Okkar sjónarmið gagnvart lagakerfinu í þessu landi er að það eigi fyrst og fremst að þjóna málstað fólksins í þessu landi. Og það er alveg rétt sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason vakti athygli á áðan, að ef ætti að fara dómstólaleiðina svo sem vitnað hefur verið til, þá hefur verið gengið svo frá formalismanum með aðbúnaðinum og starfsháttunum í þessu lagakerfi að það mundi taka almennt launafólk nokkur ár að ná rétti sínum. Það er einmitt þessi ágalli á lagakerfinu í landinu sem þarna er verið að reyna að ráða bót á. Og ég tel að það sé engin ástæða til þess að koma hér upp með tortryggni í garð þeirra embættismanna sem þessi störf eiga að rækja, einkum og sér í lagi þegar kemur skýrt fram í grg. að nú þegar hefur Pósti og síma verið falið að greiða þessar syndir vinnuveitenda og heimildin er eingöngu til að afla upplýsinga um það, með hvaða hætti það eigi að gera, hver upphæðin eigi að vera. Að draga af því þær almennu ályktanir, sem hér hefur verið gert, finnst mér satt að segja lýsa, eins og ég sagði í upphafi, annars vegar furðulegri þjónslund við hagsmuni Vinnuveitendasambandsins og hins vegar furðulegum júridískum formalisma.

Ég vil í fullri vinsemd taka undir þá ábendingu, sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason kom með áðan, að fulltrúar Sjálfstfl., sem hér hafa talað, drægju þessa till. til baka og vikju af þessari braut, því að mér finnst leitt að sjá góða drengi ganga tvöfalda íhaldsbraut af þessu tagi. En kannske verða það örlög Sjálfstfl. í æ ríkara mæli í framtíðinni að halda í þá íhaldsátt sem við og við hefur orðið vart við í þessari d. í vetur og mér þykir því miður koma enn fram í þessu máli.