22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2716 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

119. mál, alþjóðasamningar um mannréttindi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð síðasta ræðumanns að þakka hæstv. utanrrh. fyrir að þessi till. kemur nú til samþykktar hér og reyndar vonum seinna því að undirskrift samninganna af okkar hálfu er 10 ára gömul. Ég held að flestir okkar geti verið sammála um það, að við höfum betri samvisku, þegar við samþykkjum þessa till., heldur en flest önnur ríki veraldar, því að þrátt fyrir að ríki veraldar muni flest stefna að mannréttindum í sem víðustum skilningi, þá er okkur að sjálfsögðu fullljóst að hvergi mun vera um óskoruð mannréttindi að ræða, enda mjög misjafnt hvað menn telja mannréttindi.

Jafnvel hjá okkur, sem hefur fleygt fram í áttina til fullkomnari mannréttinda, er þó nokkuð eftir enn, eins og komið var að áðan. Vil ég sérstaklega gera eitt að umtalsefni. Enda þótt við höfum samþykkt að hver vinnufær Íslendingur skuli eiga kost á vinnu við hans hæfi, þá skortir nokkuð á að slík sé reyndin nú í dag og hefur reyndar aldrei verið og á ég þá við þá sem eru fatlaðir að einhverju leyti, en hafa verulega vinnugetu. Þarna erum við raunverulega eftirbátar þó ekki sé nema örfárra þjóða í veröldinni, og þótt við höfum á undanförnum árum gert nokkuð í þessum efnum og okkur hafi þokað aðeins áfram gætum við tiltölulega auðveldlega fullnægt þessu skilyrði till. án þess að það kæmi við okkar þjóðarhag.

Við höfum örugglega á undanförnum árum komist alllangt í áttina til þess að fullnægja skilyrðum þessarar merku till., sérstaklega í ýmsum þáttum félagsmálalöggjafar. Er þá ekki síst um að ræða almannatryggingar okkar og reyndar heilbrigðisþjónustuna alla, þar sem mjög verulega hefur miðað í þá átt að við getum uppfyllt þau ströngu skilyrði sem her er kveðið á um. Ég held að ekki geti margar þjóðir sagt að þær séu komnar lengra á þeirri braut en einmitt við.

Hins vegar verður að skoða ýmsar lagasetningar seinni tíma í dálítið sérstöku ljósi til að skapa öryggi um að ekki sé unnið gegn vissum greinum þessarar till. Má þar nefna t.d. fjölskylduna, að hún sé grundvöllur þjóðfélagsins. Spurning er hvort ýmsar aðgerðir seinni tíma stuðli ekki að öryggisleysi fjölskyldunnar frekar en að skapa henni aukið öryggi. Á ég þar t.d. við þegar báðum fyrirvinnum heimilisins er gert að vinna úti. Þá munu margir líta svo á að það sé síst til öryggis fjölskyldunnar í heild, heldur megi segja að þar sé um skref aftur á bak að ræða. Sama má e.t.v. segja að einhverju leyti um fóstureyðingarlögin sem nýlega hafa verið samþykkt. En þrátt fyrir það verður í heild að líta svo á, að við séum mjög vel í stakk búnir til að samþykkja þessa till. Og ég vil endurtaka þakkir mínar til hæstv. utanrrh. fyrir að leggja þessa tillögu fram og hef ánægju af að styðja að samþykkt slíkrar tillögu.