22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2725 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Erindi mitt er fyrst og fremst að slást í hóp þeirra þm. sem þakkað hafa hv. þm. Eggert Haukdal fyrir það mál sem hann hefur hér flutt.

Ég er þeirrar skoðunar um hugmyndina um forgang íslenskrar iðnaðarvöru í innkaupum af opinberri hálfu þrátt fyrir verðmun sem næmi því sem flm. nefnir, þ.e.a.s. 10%, og þó meiri væri, að slíkt væri eðlileg ráðstöfun.

Ég vil vekja athygli á því, að allar götur síðan Íslendingar gerðust aðilar að EFTA, fyrst og fremst fyrir forgöngu Sjálfstfl. og Alþfl. hér á þingi, hefur eitt meginviðfangsefni íslensks iðnaðar verið að losna undan þeim höftum, sem þá voru á hann lögð, undan þeim kvöðum, sem hann þá gekkst undir. Það var gyllt ákaflega mikið fyrir íslenskum iðnaðarmönnum, hvílíkur hagur þeim gæti af því stafað að við gengjum í EFTA og tengdumst Efnahagsbandalaginu á þann hátt sem raun varð á, með þeim hætti mundi heimsmarkaðurinn opnast íslenskum iðnvarningi.

Þótt undarlegt megi teljast var megináherslan í þeim áróðri lögð á húsgagnaframleiðsluna, með hvaða hætti opnaðist fyrir okkur möguleiki á því að selja íslensk húsgögn erlendis. Ýmsir drógu þá í efa að við værum samt vel settir til að annast slíka framleiðslu fyrir erlendan markað, kæmi þar m.a. til að við yrðum að flytja inn allt hráefnið, borga hátt flutningsgjald fyrir hráefnið hingað upp, en síðan níuhundruðfaldaðist hráefnið að rúmtaki þannig að flutningsgjaldið fyrir húsgögnin, þegar þau yrðu flutt úr landi, væri þá orðið allt að því þeim mun hærra, við mundum því verða í slæmri aðstöðu til þess að keppa um verð á erlendum mörkuðum. Hvað sem því líður var skotið skollaeyrum við aðvörunarorðum þeirra aðila sem mæltu gegn inngöngunni í EFTA.

Sýnt var fram á það, hversu illa við værum til þess væddir í raun og veru að standast samkeppni við erlenda aðila sem fengju með þessum hætti frjálsan aðgang eða allt að því frjálsan aðgang að íslenskum markaði til samkeppni við okkar innlendu vörur.

Forustusveit íslensks iðnaðar gekk í hóp þeirra manna sem vildu opna íslensku markaðina fyrir erlendri vöru á þennan hátt og taka á sig þá áhættu sem fólst í samkeppninni.

Er skemmst af því að seg ja, að því nær allar götur síðan hafa forustumenn íslensks iðnaðar harmað þessa ráðstöfun mjög, og nú neytum við allra ráða til þess að geta axlað af okkur þær skuldbindingar sem inngöngunni í EFTA fylgdu. Við reynum nú af kappi að finna leiðir til þess að sleppa við að lækka aðflutningsgjöldin, fella niður tollana, svo sem um var samið við EFTA. Nú nýlega er komin erlendis frá sérstök sendinefnd sem send var til aðalstöðva EFTA og til aðalstöðva Efnahagsbandalagsins gagngert í því skyni að fá aðila þar til þess að fallast á að við frestuðum þessum tollalækkunum og tækjum upp önnur gjöld til verndar íslenskum iðnaði í staðinn. Till., sem hér er til umr., lýtur að því að eindregið verði beint til opinberra aðila að þeir kaupi innlendar iðnaðarvörur fremur en þær útlendu þegar gæði eru sambærileg og þótt muni allt að 10% í verði. Þessi ráðstöfun lýtur einmitt að því að komast enn eina krókaleiðina fram hjá óheppilegum skuldbindingum okkar, sem gerðar voru við EFTA.

Ég get heils hugar tekið undir þau orð sem hv. þm. Oddur Ólafsson lét falla áðan varðandi skipakaup okkar erlendis. Það er harmsaga með hvaða hætti við höfum beinlínis staðið að því að byggja Upp fiskiskipasmíði í öðrum löndum og þá fyrst og fremst í Noregi, samtímis því sem við höfum látið okkar skipasmíðaiðnað skorta verkefni hér heima og þrátt fyrir það, eins og hv. þm. sagði, að við séum meira en samkeppnisfærir um gæði og jafnvel um verð. Fyrir liggja verðútreikningar varðandi smíði skuttogara sem sýna t.d. að Slippstöðin á Akureyri er ekki aðeins samkeppnisfær um gæði vinnunnar og um afköst, heldur einnig um verð, þrátt fyrir það að þær erlendu skipasmíðastöðvar, sem teknar voru til viðmiðunar, njóti ríkisstyrks í býsna miklum mæli.

Ég er alveg efalaus um það, að ef við ætlum að byggja upp innlendan iðnað að nokkru gagni, þá verðum við í ýmsum tilfellum að taka upp verndartolla í einhverri mynd. Ég get tekið undir það sjónarmið hv. þm. Ingvars Gíslasonar, að þetta eigum við að gera, eftir því sem hægt er, með þess háttar kurteisum hætti að samrýmst geti skuldbindingum okkar við EFTA, því að enda þótt slæmt væri að ganga í þau samtök á sínum tíma, þá eru erfiðleikar á því að slíta tengslin við þetta markaðsbandalag. Þess vegna ber okkur eftir mætti að haga þessum aðgerðum þannig að samrýmst geti að kalla skuldbindingum okkar við EFTA og eyða þá tíma í að túlka mál okkar við þá stofnun þannig að hún fallist á nauðsynlegar aðgerðir. En ef í það fer að við þurfum beinlínis að gera aðgerðir í þessum málum sem EFTA fellst ekki á, þá kann svo að fara að við verðum að láta skeika að sköpuðu þar, því að svo mikið er í húfi að við fáum eflt innlendan iðnað. Ýmislegt bendir til þess, að þær breytingar kunni að vera ekki allfjarri í Vestur-Evrópu eða við skulum segja í iðnríkjunum, hvar svo sem þau eru á jarðkringlunni, að við verðum neyddir til að búa meira að okkar eigin en við áður höfum gert.

Ég tek undir það sem hv. þm. Gunnar Thoroddsen sagði áðan um hættuna sem við erum í með okkar iðnað í keppninni um innanlandsmarkaðinn vegna erlendra auglýsinga. Ég hygg að hvergi nærri hafi verið nógu vel að því gáð, hvort þorrinn af þessum erlendu „hardsale“ auglýsingum, eins og þær eru kallaðar, samrýmist raunverulega íslenskum lögum. Hvern einasta dag eru a.m.k. brotnar reglugerðir Ríkisútvarpsins sjálfs um auglýsingaflutning með þessum erlendu auglýsingum í sjónvarpi t.d. Samkv. þeim reglum er bannað að mælt sé á erlenda tungu í auglýsingum Ríkisútvarpsins, að auglýsingarnar séu í rímuðu máli og enn fremur að þær séu sungnar.

Eins og hv. þm. er kunnugt hefur einum helsta næringarvökva Sjálfstfl., Coca-Cola, verið greidd mjög leið inn fyrir varir og í hugskot Íslendinga með erlendum sungnum textum. (Gripið fram í.) Að vísu, eins og hv. ritari sameinaðs þings, sem hefur nú gefið sér tóm til að hugleiða einmitt þessi gosdrykkjamál að baki mér meðan ég er að tala, — eins og hann tók fram er hér um að ræða innlenda framleiðslu samkv. erlendu einkaleyfi. En ef sá drykkur væri svo innlendur sem hv. þm. Friðrik Sophusson telur og svo þjóðlegur, þá hefði hvarflað að manni að framleiðendur hans hefðu smekk til að auglýsa hann á íslensku. Coca-Cola, Friðrik Sophusson, is the real thing, er sagt í auglýsingunni. Kannske hv. þm. hafi tekist að þýða þessa skorinorðu, hárnákvæmu og þaulhugsuðu yfirlýsingu á íslensku, þar sem hann situr að baki mér núna. Coca-Cola-auglýsingarnar eru aðeins dæmi um það, með hvaða hætti sölumennska er rekin í þessum ríkisfjölmiðli. Sé vilji fyrir hendi hjá hv. alþm., og hv. þm. Gunnar Thoroddsen getur án efa tekið þátt í því að móta þann vilja, þá er hægt að breyta hljóminum og framsetningunni á þessum auglýsingum þannig að meira verði við hæfi til samkeppni fyrir innlendan iðnað en verið hefur.

Eins og ég sagði áðan, er ég sammála hv. þm. Ingvari Gíslasyni um að rétt sé að gæta við verndaraðgerðir okkar fyrir innlendan iðnað fullrar kurteisi og tillitssemi í sambandi við skuldbindingar okkar erlendis, þ. á m. við EFTA. En ég er hvergi nærri jafnmikið á móti beinum höftum í því skyni og fram kom í ræðu hans. Ég held að vel komi til mála, að við tökum nú einmitt til athugunar og setjum í það hæfa menn að taka nú til athugunar í fyrsta lagi, í hvaða iðngreinum er nauðsynlegt að taka upp höft og að hve miklu leyti okkur er fært að taka upp þess háttar höft. Við eigum marga sérfræðinga í því einmitt, svo sem alþjóð veit, að finna leiðir fram hjá lögum og samningum, leiðir til þess að taka upp þess háttar höft sem nauðsynleg eru í því skyni að treysta innlenda framleiðslu. Og það væri ekki úr vegi að gera það samtímis því eða sem fljótast eftir að við fáum skýrslu þeirrar n. sem hv. þm. Gunnar Thoroddsen ræddi um áðan og hv. þm. Eggert Haukdal bar lof á í ræðu sinni. — Það verður innskot í þessa ræðu mína, að báðir kölluðu þeir þetta starfshóp. Hv. þm. Gunnar Thoroddsen kallaði það samstarfshóp. Af inngróinni íhaldssemi í viðhorfum til fornra orða vildi ég gjarnan að hv. þm. tækju sig til og gerðu mér grein fyrir því prívat og persónulega, — það þarf ekki að vera úr þessum ræðustól, — hver er munur á starfshóp og nefnd, sem við kölluðum þessi fyrirbæri áður fyrr, og hvað það er sem gerir æskilegt hið nýja heiti. — Ég hlakka til eins og þeir að sjá niðurstöðuna af starfi þessa samstarfshóps. Það verkefni, sem honum var falið, er ákaflega þýðingarmikið að mínu viti. Ég hygg að ég hafi verið þeirrar ánægju aðnjótandi að vera einmitt viðstaddur á iðnkynningarfundi norður í landi þegar þáv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen gerði grein fyrir verkefni þessa hóps og ræðumaður ágætur, sem þar tók til máls á eftir honum, lýsti hversu auðvelt þetta verkefni ætti að vera sem honum var falið, ef í það væri gengið. Ef samstaða næst nú um það á Alþ., að fenginni skýrslu þessa hóps, að gerðar verði nauðsynlegar ráðstafanir til þess að við hefjum framleiðslu á þeim vörutegundum sem við getum framleitt hér með auðveldum hætti, e.t.v. ódýrari og betri en það sem inn er flutt, þá verða það fagnaðartíðindi, og ekki síður ef sú hugmynd, sem hv. þm. Gunnar Thoroddsen setti hér fram, skyldi hafa hlotið brautargengi innan Sjálfstfl., að gengið yrði í það að stemma stigu við siðlausum verslunarauglýsingum í sjónvarpi. Á þeim degi mundu þeir verða vinir, Heródes og Pílatus.