26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér nú hljóðs til að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið máls á einmitt þessu efni hér í d. Ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. fyrirspyrjandi og raunar fleiri sem hér hafa tekið til máls, að ekki sé æskilegt að auknar tekjur ríkissjóðs af bensíninnflutningi og raunar eldsneytisinnflutningi í heild renni óskilgreint í ríkissjóð til almennra nota. Ég hygg að okkur sé einmitt hollt að hugleiða þetta sérstaka mál, t.d. í tengslum við þáltill. sem Alþfl.-menn hafa borið fram í Sþ. um ráðstafanir til orkusparnaðar.

Ég fæ ekki séð að við komumst hjá því að gera opinberar ráðstafanir til þess að stuðla að aukinni notkun almenningsvagna til að draga úr notkun einkabíla með einum eða öðrum hætti. Mér þætti ekki óeðlilegt að auknum tekjum ríkissjóðs af bensíninnflutningi núna yrði t.d. varið til þess að greiða niður rekstrarkostnað almenningsvagna eða fargjöld með almenningsvögnum og ætti það jafnt við í þéttbýli sem í dreifbýli. Mér er ljóst að dæmið sem hv. þm. Oddur Ólafsson tók um ferðakostnað þeirra sem sækja vinnu sína um 5–15 km vegalengd, er nokkuð rétt, og þetta er válegt til að hugsa, að menn þurfi að verja svo miklu fé til þess arna. En ég er þeirrar skoðunar, að þetta mætti leysa á miklu hagkvæmari og betri hátt með því að stuðla að bættum samgöngum með almenningsvögnum innanbæjar, hér í Reykjavík og í hinum stærri kaupstöðum úti á landi og í nágrenni þeirra. Ég er þeirrar skoðunar, að sú þróun, sem átt hefur sér stað á liðnum 15–20 árum og að því hefur miðað að allir ættu bíl eða notuðu bíl til þess að sækja til vinnu sinnar um óskilgreinda vegalengd, hafi ekki verið góð og nú sé í óefni komið að þessu leyti. Af þessum sökum hafa almenningsvagnakerfi drabbast niður, jafnvel verið hætt að taka tillit til almenningsvagna sem fyrstu farartækja í þéttbýlinu hjá okkur. Hér þarf að snúa við.

Við höfum einstök dæmi um það, að einkabíll er nauðsynlegur til þess að geta stundað vinnu og til þess að geta borið sig á milli, einmitt að því er að öryrkjunum lýtur sem hv. þm. Oddur Ólafsson vakti máls á áðan. Nú er það svo, að Tryggingastofnun ríkisins styrkir öryrkja lögum samkv. til þess að reka bíla, veitir til þess styrk samkv. lögum og reglugerðum. Þetta mætti auka og koma þannig til móts við þarfir þeirra sem brýn nauðsyn er að hafa bil til umráða. Það er hægt að auka eftir þeim leiðum. Þá leið eigum við opna.

Eins og að líkum lætur, með þeirri hugsun sem liggur að baki þessari skoðun minni, vildi ég ekki leggja til að rekstrarkostnaður á einkabíl yrði frádráttarbær til skatts. Það yrðu önnur atriði sem ég vildi að kæmu fyrst til athugunar í hinni almennu neyslu. Það kynni þá að koma til álita, hvort ekki væri nær t.d. að draga frá fæðiskostnað, eða af því að við erum nú að tala um samgöngur, þá t.d. skóslit, fremur en rekstur á bíl, enda hygg ég að nú sé svo komið að það sé orðið meira aðkallandi hjá okkur að draga úr notkun einkabílanna, draga úr bensíneyðslunni, heldur en að stuðla að því að menn geti haldið þannig áfram í þeim mæli sem verið hefur, án tillits til verðhækkana. Og ekki má ég til þess hugsa að við förum að hugleiða þann möguleika að styrkja þá, sem eiga stóru bílana sem eyða 15–25 — ég vil hækka þetta enn þá og segja: til 40 lítrum á hundraðið, til þess að kaupa sér minni bíla. Þetta er eitt af því sem menn verða almennt að sjá sér farborða um.

Það blasir við okkur, — og raunar hef ég vakið máls á því fyrr hér á þingi, — það blasir við okkur sú staðreynd, að olía mun halda áfram að hækka í verði, beinlínis vegna þess að það er stutt í olíuþrot. Framleiðsla á olíu og framboð á olíu hlýtur að dragast saman. Viðfangsefni okkar núna er að reyna að finna úrræði hér innanlands, koma okkur upp flytjanlegu eldsneyti hér innanlands sem getur komið í stað olíunnar og bensínsins, jafnframt því sem við gerum raunverulega ráðstafanir til þess að draga úr notkun þessarar vöru hér innanlands og koma fólki upp á lag með að nota önnur úrræði, allt frá því að ganga til vinnu meira en nú er gert, sem ég hef rökstuddan grun um að ýmsir hafi ákaflega gott af, og til þess að neyta þá þeirra félagslegu úrræða sem í því felast að nota sameiginleg farartæki eftir því sem hægt er. Það væri okkur vorkunnarlaust að gera á landi hér. Með þeim hætti gætum við stórlega lækkað ferðakostnað þess fólks sem sækir vinnu sína um langan veg frá heimili.