26.02.1979
Neðri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2769 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

73. mál, samvinnufélög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um það eitt, að stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga skuli kosin beinni kosningu sem fram fari samtímis í öllum aðildarfélögum sambandsins, en fram að þessu hefur sambandsstjórn verið kosin á aðalfundi sambandsins allt frá því að það var stofnað. Ekki kemur fram í frvgr., hvernig fyrirkomulag kosninganna eigi að vera.

Þetta frv. er fyrir margra hluta sakir athyglisvert og ekki síður rökstuðningurinn fyrir því, sem fram kemur í grg. sem fylgir frv. Ekki getur hjá því farið, að ýmsar spurningar komi upp í hugann þegar þetta mál er skoðað, en áður en ég ræði það frekar vil ég lesa hluta grg., með leyfi forseta:

„Núgildandi lög um samvinnufélög eru við þessar breyttu aðstæður mjög ófullnægjandi orðin. Skortir einkum á að almennum félagsmönnum séu tryggð nægileg áhrif á stjórn sambandsins og samstarfsfyrirtækjanna, sem þó óumdeilanlega er réttur þeirra. Skal þetta skýrt með því að taka dæmi af réttindastöðu félagsmanns í venjulegu deildaskiptu kaupfélagi. Félagsmaðurinn neytir félagsréttinda sinna á deildarfundi, þar sem kosnir eru fulltrúar til setu á aðalfundi kaupfélagsins. Á aðalfundi kaupfélagsins eru kosnir aðrir fulltrúar sem fara á aðalfund sambandsins. Á aðalfundi sambandsins er stjórn sambandsins kosin og hún ræður síðan forstjóra og framkvæmdastjóra og skipar framkvæmdastjórn. Þessir aðilar munu síðan skipa í stjórnir samstarfsfyrirtækjanna.

Það sést af þessari upptalningu, að milliliðir eru margir milli hins óbreytta félagsmanns og hinna æðstu stjórnenda og nánast ómögulegt fyrir félagsmanninn að koma fram áhrifum. Þessu er mikilvægt að breyta og er því gerð í þessu frv. till. um að teknar verði upp beinar kosningar í stjórn sambandsins. Með því móti er komið á beinum ábyrgðartengslum milli félagsmanna og stjórnarinnar og lýðræði þar með stóraukið.“

Flm. þessa frv. seg ja að tilgangurinn með flutningi þess sé að auka lýðræðið í samvinnufélögum. Þeir telja sig ná þessu markmiði með því einu að gefa öllum félagsmönnum, hvar sem þeir kunna að búa á landinu, kost á að kjósa beinni kosningu í sambandsstjórn. Með þessu móti er búið að tryggja nægileg áhrif hvers félagsmanns á stjórn sambandsins að sögn flm. Annað þarf ekki til að koma að þeirra dómi. En skyldu nú komast á persónuleg tengsl á milli einstakra félagsmanna og stjórnar sambandsins með því að taka upp beina kosningu? Því leggja þeir þá ekki einnig til, að stjórnir kaupfélaganna séu kosnar með þessum hætti? Félagsmenn þeirra hvers um sig ættu að þekkja persónulega félagsmenn þess kaupfélags sem þeir eru meðlimir í og gætu a.m.k. frekar gert sér grein fyrir hvers megi vænta af hverjum og einum í félagsstörfum heldur en þegar um er að ræða að kjósa stjórn sambandsins, þar sem mjög fáir félagsmanna, sem búa víðs vegar um allt land, geta vegna persónulegra samskipta og eigin kynna gert sér grein fyrir hvers megi vænta af þeim í stjórnarstörfum. Er því hætta á að með slíkri breytingu mundi engan veginn nást það markmið, sem flm. segjast ætla að ná með þessari breytingu, að auka áhrif hins almenna félagsmanns í stjórn sambandsins. Líklegt er að ef stjórnarkjör sambandsins færi fram með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir, mundu fjölmiðlarnir hafa mest áhrif á það, hverjir kosningu hlytu hverju sinni. Menn geta auðvitað deilt um hvort með slíkri breytingu sé horfið til lýðræðislegra stjórnarhátta eða ekki. En þá getur komið upp í hugann sú spurning, hvers konar lýðræði er verið að tala um. Það virðist vera orðið teygjanlegt hugtak.

Ef við gerum ráð fyrir að breyting sú á kosningu í sambandsstjórn, sem þetta frv. felur í sér, sé spor til lýðræðislegra stjórnarhátta, og hv. flm. trúa a.m.k. að svo sé, hvers vegna leggja þeir ekki einnig til að víðhaft sé sams konar fyrirkomulag við kosningu í öll önnur félög, stjórnmálasamtök og einnig í stjórnir stjórnmálaflokkanna? Þarf ekki að auka lýðræðislega stjórnarhætti viðar en hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga? Því leggja þeir ekki einnig til að stjórnarkjör fari fram með þessum hætti í öllum stéttarfélögum og í stjórn Alþýðusambands Íslands, kjördæmastjórnir og í stjórnir stjórnmálaflokkanna, sem sagt upp sé nú tekin þessi regla um allt stjórnarkjör, hvernig sem félögin eru og hvort sem þau eru smáar einingar eða fjöldahreyfing sem nær yfir allt landið? Ég vil spyrja hv. flm. sérstaklega að því, hvort þeir muni ekki beita sér fyrir því að þessi regla verði yfirleitt tekin upp við stjórnarkjör hinna frjálsu félaga.

Ég vil vekja athygli á því, að stjórnarkjör í samvinnufélögunum fer fram með sama hætti og í flestum öðrum félögum í landinu, og ef breytingu á að gera í þessu efni hlýtur að vera eðlilegt að það sama sé látið ganga yfir alla. Það er líka þess vert að leiða hugann að því, hvort eðlilegt sé og æskilegt að löggjafinn taki sig til og ákveði með lagaboði með hvaða hætti stjórnarkjör eigi að fara fram í hinum ýmsu frjálsu félögum í landinu. Er það nú alveg víst að með því móti sé verið að auka lýðræðið í landinu? Sumir virðast vilja auka lýðræðið með því að takmarka frelsið, — en getur það farið saman? Hins vegar er mjög áhugavert verkefni að taka til athugunar með hvaða hætti er hægt að auka raunverulegt lýðræði í landinu á sem flestum sviðum, minnka aðstöðumuninn eftir því sem kostur er á öllum sviðum. En þar á ég við raunverulegt lýðræði og réttlæti.

Að síðustu vil ég leggja eftirfarandi spurningar fyrir hv. frsm.: Hefur hann gert könnun á því, hvort áhugi sé fyrir því hjá samvinnumönnum að taka upp það kosningafyrirkomulag sem felst í þessu frv., bæði er varðar kaupfélögin og í sambandsstjórn? Hefur verið gerð könnun á því í verkalýðsfélögunum að taka upp slíkar kosningar ílandshlutasambönd og við stjórnarkjör hjá Alþýðusambandi Íslands? Og hvað um stjórnmálaflokkana, t.d. Alþfl. — já, og aðra flokka einnig? Er ekki rétt að kanna hug þeirra um að setja um það lög hvernig kosningar skulu fara fram á þeirra vegum, í meiri háttar trúnaðarstöður a.m.k.? Það væri fráleitt að setja lög aðeins um stjórnarkjör hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ef rétt er talið að lögfesta hvernig stjórnarkjör í frjálsu félagi eigi að fara fram, þá hlýtur slíkt lagaákvæði að eiga að ná til allra slíkra félaga og þá óska ég eftir að þetta frv. verði sent til umsagnar öllum félögum í landinu, svo sem öllum stéttarfélögum, kaupfélögum, æskulýðsfélögum, stjórnmálaflokkum o.s.frv., og ráðamann þeirra spurðir að því, hvort þeir æski þess að lögfest verði að stjórnarkjör fari fram í öllum þeim félögum og samböndum, hverju nafni sem þau nefnast, með þeim hætti sem í þessu frv. felst og hvort þau telja slíkt stjórnarkjör munu auka lýðræðislega stjórnarhætti í þeirra félögum á einhvern hátt, hverjir séu kostirnir með slíku kjöri og hverjir annmarkarnir séu. Og er þá ekki rétt að taka upp hlutfallskosningar t.d. í stéttarfélögunum? Mér virðist menn greina á um það, hvort kosningafyrirkomulagið, sem þar viðgengst, sé nægilega lýðræðislegt og heyrt hef ég allvíða að þar ætti að taka upp skilyrðislaust hlutfallskosningu. Það væri mjög æskilegt að fá umsagnir um það atriði frá hlutaðeigandi aðilum, hvort þeir vilji ekki breyta til og taka upp lýðræðislegra kosningafyrirkomulag, þ.e.a.s. hlutfallskosningar.

Í frvgr. er gert ráð fyrir að fram fari árlega stjórnarkjör í stjórn sambandsins. Er ekki rétt að leiða hugann að því enn fremur, hvort það yrði ekki nokkuð viðamikið að láta kjósa árlega með þeim hætti sem lagt er til í frv., og vilja ekki hv. alþm. afhuga það nánar a.m.k. áður en slíkt fyrirkomulag verður lögfest hér á hv. Alþingi?