28.02.1979
Efri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2832 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér ber það við rétt einu sinni, að mál eru lögð fyrir Alþ. — og þá í þessu tilfelli hv. Ed. — með þeim hætti að þm. gefst sáralítill tími til að fjalla um þessi mál, sem eru þó þess eðlis að verið er að ráðstafa milljörðum kr. Ekki er nú þetta gott. Hefði sannarlega verið ástæða til að fjalla um mál af því tagi, sem frv. þau tvö, er hér um ræðir, lúta að, af meiri vandvirkni í sjútvn. en hér er til ætlast. Hitt er ljóst, að hér brýtur, ef svo má segja, nauðsyn lög.

Það er tiltölulega stutt síðan ljóst var hvað fór að höndum í þessari bráðu olíuverðshækkun. Eins er hitt, að hæstv. sjútvrh. hefur þegar undirbúið þetta mál með viðræðum við samtök sjómanna og útvegsmanna. Þeir aðilar, sem eiga Aflatryggingasjóð — og við skulum gæta þess að eigendur Aflatryggingasjóðs eru sjómenn og útvegsmenn, hafa fallist á þá ráðstöfun á fjármunum sem hér er ráð fyrir gert. Leyfi ég mér, vegna þess að þessi frv. tvö sem tengd eru liggja hér frammi fyrir okkur samtímis og verða til umfjöllunar í sömu andránni, að vitna til hins síðara frv. sem hæstv. sjútvrh. mun gera grein fyrir á eftir.

Víst kemur þetta mál, sem lýtur að ráðstöfun Aflatryggingasjóðs, til kasta Alþingis með þessum hætti. En eigendur sjóðsins eru þeir sem ég gat um áðan, og ekki snertir það hjartataugar mínar þó svo sé ráð fyrir gert, að samtök sjómanna og útvegsmanna hvor í sínu lagi fái upphæð, sem nemur 500 þús. kr., í tengslum við þetta mál — síður en svo. Ég held að hv. d. verði, þótt annað væri okkur kannske ofar í sinni, að bregðast við þessum málum með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. bað okkur, og vil aðeins nota tækifærið núna, fyrst ég er hingað upp kominn, til þess að boða einn af þessum alræmdu nefndarfundum í stigaherberginu nú að loknum fundi í deildinni.