28.02.1979
Efri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Það verður víðar en hér í Reykjavík og víðar en á Akranesi sem menn hafa hrokkið við þegar þeir sáu þá till. sem hér liggur fyrir til umr. Mig langar aðeins til að segja það, að ég kom við á bensínstöð núna á leiðinni í bæinn, og þar sá ég að lá frammi undirskriftalisti þar sem menn voru hvattir til þess að skrifa nöfn sín til mótmæla gagnvart því frv. sem hv. þm. Ólafur Björnsson og Guðmundur Karlsson flytja í þingi um opnun Faxaflóans fyrir dragnót. Mér tjá sjómenn í mínu byggðarlagi, að svo eindregin reynsla sé af því að opna Faxaflóann fyrir dragnót að það þurfi meira en smákvak frá fiskifræðingum til þess að sanna þeim það, að þó að aukist hafi skarkoli í Faxaflóa sé það nægileg ástæða til þess að dragnótaveiði verði leyfð í flóanum. Þeir hafa nefnilega áður fyrr veitt nokkuð miklu fleira en skarkolann í dragnótina. Áætlanir sjómanna, sem ég hef talað helst við, eru þær, að eftir 2–3 ár verði komið sama ástand og var síðast þegar flóinn var opnaður, að ýsan verði nær horfin. Aflaskýrslur frá Akranesi sýndu það. Þeir vita það, trillukarlarnir á Skaga, að þeir þurfa ekki að búast við útgerð trillanna þar í mörg ár frá því að flóinn yrði opnaður, ef líkt verður fram haldið og síðast var þegar flóinn var opnaður. Þá getið þið hirt okkar trillur, segja þeir, og þá getið þið líka hirt okkur á atvinnuleysisstyrk eða hreinlega á bæjarframfæri.

Hvort það er rétt hjá þeim, að dragnótin muni algerlega ógna lífi í flóanum, sem er dýrmætasta uppeldisstöð nytjafiska við Ísland, um það get ég ekki sjálfur borið. En reynsla sjómanna er stundum fullt eins markverð og reynsla fiskifræðinga, sérstaklega ef þeir síðast nefndu hafa ekki haft nema takmörkuð tök á því að byggja upp sínar ályktanir. Sjómenn segja mér, að það séu engar þær breiður af skarkola í flóanum að þar liggi hvert lagið ofan á öðru, það sé alrangt. Kolinn fer út úr flóanum að verulegu leyti þegar of mikið er orðið af honum þar inni. Ýsan gerir það líka þegar hún vex upp. En menn tortryggja þær veiðar, sem áður hafa gefið slæma raun, og það þarf sterkari rök en hér hafa verið flutt til að hleypa þessu stórtæka veiðarfæri inn í flóann aftur.

Ég mun því við afgreiðslu málsins núna samþykkja að það fari til n. og verði þar mjög vel athugað. En ég er sannfærður um að það munu rigna mótmælum yfir n., meðan hún hefur málið til athugunar, og hún verður að athuga vel sinn gang, því að sjómenn við Faxaflóa telja sig hafa töluvert vit á fiskimálum hér við flóann.

Svo er annað það, að eins og sakir standa eru sáralitlir möguleikar til þess að nytja skarkolaaflann nema með stórkostlegum tilkostnaði. Mér skilst að það sé aðeins ein vél við Faxaflóa sem getur flakað skarkola núna, og eins og 1. flm. þessa frv. tók fram, eru allar aðrar aðferðir til að koma skarkola í gott verð sem notaðar hafa verið, lítils virði. Það er vafasöm pólitík að fórna dýrmætum uppeldisstöðvum fyrir fáeina skarkola og mikinn tilkostnað. En ég vona, að n. taki sér góðan tíma til að athuga málið áður en það kemur til 2. umr.