28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl:

(Oddur Ólafsson): Herra forseti. Það er ekki því að leyna, að hér er um ný viðhorf að ræða. Hvorki afgreiðsla fjárl. né lánsfjáráætlun hafa gert ráð fyrir þeirri olíuhækkun, sem nú hefur orðið, og þeim viðbrögðum, sem þyrftu að verða hennar vegna. Því er það að okkur finnst ósanngjarnt að vegna þess að þessar aðgerðir verður að gera nú minnki framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs, sem er mjög illa haldinn, og ég fyrir mitt leyti get ekki séð að hann verði fær um að sinna hlutverki sínu. Þær tölur, sem hæstv. ráðh. hefur nefnt, eru tölur sem búið var að gera ráð fyrir og Fiskveiðasjóður þurfti sannarlega á að halda. Þegar þær voru settar fram reiknaði stjórn Fiskveiðasjóðs að sjálfsögðu með því, að þetta fjármagn, þessar 312 millj., yrði fyrir hendi. Það er engin ný tala. Það er vitað mál, að áætlað var að þessar tekjur mundu verða af útflutningnum, því er augljóst mál að hér er verið að rýra að ástæðulitlu tekjur sjóðsins, — tekjur sem hann þarf mjög á að halda. Ég vil þess vegna enn skora á ráðh. að láta okkur fá að vita um það, að ríkissjóður muni standa við sitt.