06.03.1979
Sameinað þing: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þegar ég sá í morgun dagskrá þess fundar, sem nú stendur yfir, sýndist mér að hér mundi verða dagur utanríkismála öðrum fremur. Og ég vil byrja þessi fáu orð mín á því að lýsa nokkurri furðu á því að þáltill. til staðfestingar á samkomulagi milli Færeyja og Íslands, sem lengi hefur legið fyrir til síðari umr., skuli enn tekin af dagskrá, því ég tel nokkurt ósamræmi í því að leyfa framkvæmd hennar áður en Alþ. hefur veitt samþykki sitt fyrir henni. Ég ætla ekki að hefja gagnrýnisumr. um þetta. Ég vek hins vegar athygli á þessu: Utanrmn. fékk till. til afgreiðslu. Hún afgreiddi hana mjög fljótt og mjög jákvætt — svo jákvætt, að allir nm. skrifuðu einróma undir álitið. Og þó að síðar hafi komið fram brtt., sem e. t. v. leiðir til nokkurrar umr., tel ég að ekki beri að fresta málinu af þeim sökum. — Nóg um þetta í bili.

Ég ætla ekki fremur en aðrir, sem hér hafa tekið til máls, að rifja mikið upp af því sem oft hefur verið sagt úr þessum ræðustól um það tiltekna mál, sem hér er til umr., þ. e. a. s. kjarnorkuvopn á Íslandi, hugsanlega tilvist þeirra og hvaða ráðstafanir gera beri til að koma í veg fyrir að þau geti hér verið. Ég man eftir nokkrum umr. um þessi mál, bæði um till. og af tilefni umr. utan dagskrár, og vísa að mestu leyti til þess sem ég hef áður sagt.

Ég er viss um það, og það sýna allar staðreyndir, að sú yfirlýsing í grg. umræddrar till., að allir flokkar á Íslandi séu andvígir geymslu og meðferð kjarnorkuvopna hér á landi, sé rétt. Þetta hefur margsinnis verið staðfest og ég tel enga ástæðu til að draga eitt andartak í efa að muni vera vilji alls þorra Íslendinga og vonandi allra. Þess vegna og með hliðsjón af þeim ákvæðum, sem fyrir hendi eru, mætti kannske virðast sem lagasetningar í þessu tilviki væri ekki þörf. En mál geta breyst. Nýjar kynslóðir vaxa upp í landinu, og það er ekki alveg víst að allir afkomendur okkar og annarra Íslendinga séu eða verði um alla framtíð jafnsannfærðir um þetta mál og við og það fólk sem lifir á okkar tímum. Þess vegna tel ég nú ekkert fráleitt að leiða þessi ákvæði í lög.

En þá vaknar auðvitað sú erfiða spurning, sem hér hefur raunar verið að vikið: Hvernig á að tryggja að eftir þessum lögum sé farið? Verða þau ekki bara viljayfirlýsing, eins og margsinnis hefur verið gefin út, eða höfum við ástæður til að tryggja að hér verði um raunhæfa lagasetningu að ræða sem verði farið eftir og þá væntanlega refsað fyrir ef brotin er? Ég vil ekki taka fyrir það, að þannig megi málum fyrir koma. En það kostar áreiðanlega verulegan undirbúning af okkar hendi. Ég er hræddur um og ég þykist raunar vita það, að við séum nokkuð varbúin að taka þetta hlutverk að okkur eins og sakir standa.

Hér hefur verið rætt um það, sem af sjálfu leiðir, að till. sem slík gangi til utanrmn. Þar mun ég eins og aðrir nm. að sjálfsögðu hafa tækifæri til að kanna aðstæður, sem þetta mál varða, betur en ég enn hef gert. Þó að ég telji mig hafa nokkuð hugleitt þessi mál á undanförnum árum má alltaf betur gera. En hér hefur einnig verið minnst á það, að nú hefur nýverið verið sett á laggirnar nefnd sem hlotið hefur nafnið öryggismálanefnd manna á meðal. Það var gerð grein áðan fyrir verkefni þessarar nefndar. Ég vil nota þetta tækifæri fyrst til þess að upplýsa að þessi nefnd er nú þegar fullskipuð og að hún hefur þegar haldið fyrsta fund sinn og rætt að nokkru um það verkefni sem henni er ætlað og hvernig að því verði staðið. Ég tek þó fram, að nefndarinnar verk eru á algeru frumstigi, þannig að lítið hefur verið gert, en þó ákveðið að hefja störf nefndarinnar á því að leita eftir upplýsingum frá þeim aðilum annars staðar í veröldinni sem búa yfir vitneskju sem við e. t. v. eigum ekki yfir að ráða. Og nú hafa þegar verið lögð drög að því að skrifa til nokkurra stofnana og biðja um allar þær upplýsingar, sem þar er hægt að fá og á lausu liggja, um það hvernig þessi mál standi í heiminum í dag. Þær stofnanir, sem hér er um að tefla í fyrstu lotu, eru fimm. Þær eru: í Svíþjóð sú stofnun sem hæstv. utanrrh. nefndi áðan, tilsvarandi stofnun í Noregi, stofnun í Danmörku, að vísu minni í sniðum en þessar tvær, stofnun í Englandi og stofnun í Kanada. Ég vænti þess að áður en langt um líði fari að berast svör frá þessum stofnunum með upplýsingum sem nm. þá byrja á að kynna sér áður en lengra er haldið.

Tilgangur þessarar nefndar, eins og ég skil hann, er öðru fremur sá að hefja umr. um utanríkismál, og á ég þá ekki bara við þessi eilífu varnarmál, heldur utanríkismál í miklu viðtækari skilningi, upp á nokkru hærra svið en þau hafa verið á nú um langt skeið og líklega alla tíð síðan sjálfstæðisbaráttan náði hámarki sínu. Við ætlum m. ö. o. að freista þess að gefa fólkinu í landinu tækifæri til þess að ræða þessi mál á grundvelli vitneskju og skilnings og raka í staðinn fyrir tilfinninganna einna, sem fram að þessu hafa ráðið ferðinni að mestu leyti. Um það, hvernig til tekst, er ekki gott að segja að svo stöddu. Og ljóst er auðvitað að ef þessi tilgangur á að nást, þó ekki væri nema að litlu leyti, þarf þessi nefnd að fá nokkra aðstöðu til þess að vinna, því það er ekki hægt að ætlast til þess að nm. bæti þessu öllu á sig til viðbótar við umsvifamikil þingstörf, sem við flest gegnum án þess að njóta til þess nokkurrar aðstoðar. Ég vænti þess að slík aðstoð muni fást, enda er í fjárl. að finna heimild fyrir ríkisstj. til að greiða þann kostnað sem af slíku starfi kann að leiða.

Það kemur auðvitað ekki til á þessu stigi, að öryggismálanefnd fjalli um till. sem utanrmn. verður send, en hugsanlegt er, þegar tímar líða fram og ef öryggismálanefnd verður þess umkomin að láta í té einhverja aðstoð eða upplýsingar, að takist samstarf með þessum tveim n., enda er það þannig að nokkru leyti að sömu menn sitja í báðum nefndunum. Ég vil þess vegna vona að sú athugun, sem utanrmn. gerir á umræddri till., geti notið að einhverju góðs af því starfi sem hin nefndin vinnur í næstu framtíð.

Það hefur oft verið spurt að því, hvenær Íslendingar hafi lýst yfir þeim afdráttarlausa vilja sínum að hér séu ekki geymd kjarnorkuvopn og þau komi ekki hingað til þessa lands. Þetta hefur oft verið gert. Það hefur verið minnt á milliríkjasamninginn, sem nú er að verða 10 ára gamall, og hann er auðvitað afdráttarlaus svo langt sem hann nær. Ég hef það fyrir satt, að sú túlkun utanrrh. sé rétt að ekki þurfi að leggja hann fyrir Alþ. þar eð hann afsali engum réttindum. Þó tel ég á því geta leikið nokkurn vafa, hvort ekki hefði átt að leggja hann fyrir Alþ., en ég fór eftir því sem mér var sagt í þessu efni meðan ég hafði tök á því að leggja samninginn hér fram.

Ég vil geta þess, að í minni tíð sem ráðh. utanríkismála, tók ég það æðioft fram í NATO að við vildum ekki hafa slík vopn. Síðasta tækifærið, sem ég hafði til þess og notaði, var 8. des. 1977 á fundi í Brussel þar sem NATO þá þingaði. Mér er auðvitað fullkomlega heimilt að skýra frá þessu og hef raunar gert það áður, þar eð í samþykktum Atlantshafsbandalagsins eru skýr ákvæði um að hver þátttakandi geti vitnað í sjálfan sig og það sem hann hefur sagt, þó að ekki sé heimilt samkv. þeim samþykktum að vitna til þess sem aðrir hafa sagt. Ég tel það án efa einnig, að hæstv. núv. utanrrh., Benedikt Gröndal, hafi fengið tækifæri til þess að tjá þessa skoðun Íslendinga í sinni ráðherratíð, þar eð hann hefur sótt a. m. k. einn fund þessara samtaka svo ég viti.

Það skjóta alltaf af og til upp kollinum ágiskanir um eitt og annað. Ég vil kalla það ágiskanir, sem hér var gert að umræðuefni fyrir u. þ. b. tveimur árum og byggt á útlendum blöðum, að hér hlytu að vera kjarnorkuvopn.

Það voru ekki neinar sannanir í þessum greinum. Við ræddum þetta þá og ég tel ástæðulaust að við förum að endurtaka það, en við getum auðvitað flett upp þessum umr., ef okkur þykir ástæða til að hafa þær yfir að nýju. (StJ: Voru sannanir fyrir hinu gagnstæða?) Nei, það voru ekki sannanir fyrir því, og það er einmitt það sem ég var að víkja að í upphafi máls míns áðan, að e. t. v. gætum við með stofnun nýrrar nefndar og með auknu starfsliði gerst færir um að ganga úr skugga um hvort við getum afsannað þetta, herra þm.

Af þessu tilefni vil ég gjarnan segja það, að það hefur oft komið upp í minn huga, hvort ekki ætti að fela þetta íslenskum mönnum. Við eigum nokkra sem gætu með tiltölulega litlu aukanámi, hygg ég, öðlast möguleika til þess. Það eru til hér sjóliðsforingjar. Ég ætla ekki að nefna hér nöfn, en þeir hafa komið upp í huga minn. Ég get t. d, nefnt einn mann, Gunnar Bergsteinsson, sem ég hygg að allir hv. þm. mundu treysta vel til þess að gerast þáttakandi í slíkri athugun og könnun. g viðurkenni það, og þýðir auðvitað ekki annað þar sem staðreyndir tala sínu máli, að úr þessu varð ekki hjá mér. Þess vegna vil ég nú fagna því, að hæstv. núv, ríkisstj. hefur ákveðið að setja á stofn þá nefnd sem ég hef gert hér lítillega að umtalsefni. Nú verð ég bara að setja fram þá von mína, að hæstv. ríkisstj. endist aldur til þess að nefndin fái starfsfrið.