06.03.1979
Sameinað þing: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. var í nokkrum vafa um hvernig skilja bæri þessa till., taldi að hún væri einkennileg og fátíð. Samskonar till. og þessi var flutt áður þegar hér var önnur vinstri stjórn, Hermanns Jónassonar, og var þá flutt af þeim Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni. En til þess að hæstv. forsrh. velkist ekki í vafa um hvað þessi till. felur í sér, þá vil ég taka það skýrt fram, að auðvitað felur þessi till. um þingrof og nýjar kosningar í sér fullkomið vantraust á núv. ríkisstj., enda fór það ekki milli mála í lok ræðu hæstv. ráðh., að hann skildi till. þannig ef samþykkt yrði, þar sem hann mundi þá tafarlaust biðjast lausnar. Ég vil taka það fram út af ummælum hæstv. ráðh., að hér er ekki um að ræða sérstakt vantraust á hendur honum eða persónulegt vantraust, heldur er það vantraust á ríkisstj. í heild og stjórnarsamstarfinu sem hér er á ferðinni.

Hæstv. ráðh. minntist hér á skattalögin frá síðasta þingi. Ég vil taka það fram, að um ýmis ákvæði þeirra skattalaga voru skiptar skoðanir innan stjórnarflokkanna. En hitt vil ég taka fram um leið, að þessi skattalög voru ekki síður skattalög Framsfl. heldur en Sjálfstfl.

Hæstv. iðnrh. taldi að þegar núv. ríkisstj. tók við hefði hún komið að tómum sjóðum. Dálítið stangast þetta á við frv. sem ríkisstj. flutti nú fyrir nokkrum dögum og er orðið að lögum. Það er um breytingu á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Þar var m. a. ákveðið að lækka útflutningsgjald til tiltekinna sjóða úr 6% í 5%. Í grg. ríkisstj. með þessu frv. er það rökstutt með því, að þrír meginsjóðir, sem um er að ræða, þoli nokkra lækkun útflutningsgjaldsins án þess að það þurfi að koma niður á starfsemi þeirra. Ekki bendir þetta til þess að sjóðirnir hafi verið galtómir þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við.

Hæstv. iðnrh. taldi að lítið hefði farið fyrir stjórnarandstöðunni á þessu þingi. Ég vil taka það fram, að þetta þing hefur verið með alveg sérstökum og nýstárlegum hætti, m. a. vegna þess að einn stjórnarflokkanna hefur leikið það hlutverk að vera samtímis í stjórn og stjórnarandstöðu. Þetta hefur leitt til ákaflega mikilla deilna og háværra í þingsölum. Stundum hefur ekki annað komist að heilu dagana í Alþ. heldur en rifrildi milli Alþfl. og Alþb. Vitanlega hefur þetta rifrildi og hörkudeilur stjórnarflokkanna innbyrðis vakið ákaflega mikla athygli, vegna þess að þetta er svo nýstárlegt. Slíkt og annað eins hefur aldrei gerst fyrr á Íslandi.

Í fuglabjargi stjórnarflokkanna er í rauninni erfitt að greina nokkurn samhljóm, heldur syngur þar hver með sínu nefi. Hæstv. forsrh. hefur reynt að samstilla kórinn, en söngstjórinn er píptur niður einn daginn af öðrum samstarfsflokknum og annan daginn af hinum. Mishljómarnir magnast dag frá degi. Einn af háværustu bjargfuglunum segist t. d. hafa setið í festum og verið heitbundinn hæstv. forsrh. í hálfan mánuð, en nú hafi ráðh. heykst á öllu trúlofunarstandinu, og virðist nú festarmaðurinn helst vilja snúa prófastinn úr hálsliðnum. Kannske má því ekki síður búast við „begrafelsi“ en brúðkaupsveislu á næstunni.

Öll þessi ósköp, sem yfir ganga og hæstv. iðnrh. kallar samningslotu, en réttara væri að líkja við hnefaleikalotu, — öll þessi ósköp eru með þeim ólíkindum að engin ríkisstj. á Íslandi hefur áður lifað eða framkallað slíkt. Allt sýnist þetta fyrst og fremst stafa af ósamkomulagi og illindum um efnahagsmálin. Ágreiningurinn stendur milli Alþfl. og Alþb., en þeir flokkar tveir töldu sig í fyrrasumar hafa næg úrræði í þeim málum — úrræði til að leysa efnahagsvandann — og gáfu fögur fyrirheit.

Í þessum furðulega og fjörmikla stríðsdansi stjórnarflokkanna og ógnvekjandi úrræðaleysi er það því ekki að ófyrirsynju að sjálfstæðismenn hafa flutt till. um þingrof og nýjar kosningar.

Ég vil, áður en lengra er haldið, minnast á ummæli hæstv, iðnrh. um vísitöluna, hvað hún hefði hækkað miklu minna nú en ári áður. Sannleikurinn er sá, eins og hann lítillega kom inn á, að hér er að verulegu leyti leikið með tölur. Sumpart eru þarna að verki niðurgreiðslur sem fengnar eru með stórfelldri hækkun beinna skatta sem ekki koma inn í vísitöluna. Í öðru lagi má nefna að hækkun á gjaldskrá fyrir ýmsar opinberar stofnanir hefur verið frestað og er þess vegna ekki komin enn inn í vísitöluna. En með þessum aðgerðum er verið að stofna til stórfellds hallarekstrar hjá ýmsum stofnunum. Meira að segja er svo komið að jafnvelstætt fyrirtæki og Landsvirkjun hefur opinberlega lýst yfir miklum greiðsluhalla hjá sér. Það er verið að halda vísitölunni niðri á óeðlilegan hátt með því að fresta slíkum gjaldskrárhækkunum. Allt þetta hlýtur að koma fram fyrr eða síðar. En stórfelldur hallarekstur opinberra stofnana er verðbólguaukandi. Þetta er sami leikurinn og leikinn var af vinstri stjórninni árin 1973-1974, þar sem frestað var nauðsynlegum gjaldskrárhækkunum til þess að halda vísitölunni niðri, en allt þetta varð svo að leiðrétta og laga, og varð það eitt af erfiðustu viðfangsefnum á fyrsta ári fyrrv. ríkisstj.

Einn þáttur efnahagsmálanna liggur þó fyrir Alþ. nú, þótt efnahagsfrv. forsrh. hafi ekki litið dagsins ljós. Það er stjfrv. um lántökur, fjárfestingu o. fl., og tel ég nauðsynlegt að gera það nokkuð að umtalsefni hér.

Að því er varðar fjárfestingu og verklegar framkvæmdir í landinu, þá verður að vara við þeirri allt of útbreiddu kenningu, að mikil fjárfesting sé einhver bölvaldur og meginorsök verðbólgunnar. Þvert á móti verða menn að gera sér grein fyrir að fjárfesting í atvinnutækjum, samgöngu- og orkumálum og ýmsum öðrum opinberum framkvæmdum er undirstaða framfara í landinu og grundvöllur vaxandi velmegunar. Endurnýjun atvinnutækja, bættur vélakostur, næg orka, greiðar samgöngur, — alls þessa má þjóðin ekki án vera ef hún vill sækja fram. Þess vegna á ekki að stefna að því að fjárfesting í þjóðarbúskapnum fari minnkandi í hlutfalli við rekstrarútgjöld, heldur fremur að setja það mark að draga úr rekstrarútgjöldum hins opinbera.

Það er líka varhugavert að búa sér til þá reglu fram í tímann, að fjárfesting í landinu megi ekki vera t. d. nema 241/2% af þjóðarframleiðslunni.

Hér verður að greina glöggt í sundur hvers eðlis framkvæmdirnar eru. Þótt stefnt sé að því að draga úr erlendum lántökum, þá getur verið hyggilegt að taka erlend lán ef sú framkvæmd sparar meira í erlendum gjaldeyri en vöxtum og afborgunum lánsins nemur. Þá væri það glapræði að neita um slíkt erlent lán vegna þess að einhverri fyrir fram tilbúinni hámarkstölu væri náð. Í fjárfestingaráætlun og lántökufrv. ríkisstj. ber of mikið á slíkum almennum reglum og þar er ekki alltaf tekið mið af heilbrigðri skynsemi. Hér skulu nefnd dæmi.

Samdráttaraðgerðir stjórnarflokkanna eru þegar farnar að hafa alvarleg áhrif. Í byggingariðnaðinum hafa verkefni minnkað, og þó að þau séu talin viðunandi víða sem stendur, þá eru svo ískyggilegar horfur í haust og næsta vetur að búast verður við verulegu atvinnuleysi meðal byggingarmanna. Hefði því verið fullkomin ástæða til að auka frekar fjármagnsmöguleika í þeirri grein. En stjórnarflokkarnir gera þveröfugt. Í ofurkappi sínu að skera niður fjárfestingu sjást þeir ekki fyrir, þeir leggja til í 11. gr. stjfrv., að Byggingarsjóður sé sviptur í ár 2000 millj. kr. af starfsfé sínu og því ráðstafað til annarra verkefna.

Í hitaveitumálum varð gerbreyting við stjórnarskiptin haustið 1974. Í stað hins vanhugsaða áróðurs iðnrh. Alþb. áður fyrir aukinni rafhitun með þilofnum, sem hefur orðið þjóðinni þungur baggi, var lagt kapp á að finna og nýta heitt vatn og gera nýjar hitaveitur. Árangurinn er skýr. Olíunotkun til húshitunar hefur stórminnkað á þessum árum vegna hitaveitnanna, til hagsbóta fyrir fólkið og gjaldeyrissparnaðar fyrir þjóðina. Ég skal nefna hér til skýringar, að árið 1973 var olíunotkun til húshitunar hér á landi 160 þús. tonn, en á síðasta ári var notkunin komin niður í 95 þús. tonn. Á þessum tíma hefur útsöluverð á olíu til notenda tólffaldast. Þessi minnkun á olíunotkun til húshitunar, sem fyrst og fremst stafar af hinum nýju og auknu hitaveitum, sparar þjóðinni hvorki meira né minna en 3.5 milljarða ísl. kr. á ári, en gjaldeyrissparnaðurinn nemur tæpum 3 milljörðum.

Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. nú hefur verið dregið úr og frestað ýmsum hitaveituframkvæmdum í stað þess að greiða sem mest fyrir þeim. Hér er vissulega rangt að farið.

Hæstv. iðnrh. sagði áðan að hann þyrfti ekki að kvarta um verkefnaleysi í iðnrn. þótt þar hefði verið vaskur maður áður. Ég vil segja að svo mikil og stórbrotin verkefni eru í orku- og iðnaðarmálum, að það mætti furðu sæta ef nokkur iðnrh. yrði þar nokkurn tíma verkefnalaus. Hins vegar eru mér það nokkur vonbrigði, að hæstv. núv. iðnrh. skuli ekki hafa fylgt fastar eftir undirbúningi og framkvæmdum um nýtingu innlendra orkugjafa.

Landkynning og ötul starfsemi við ferðamál hafa stóraukið gjaldeyristekjur landsmanna. Þær námu á s. l. ári rúmum 10 milljörðum kr. Hér hafa Ferðamálaráð, ferðaskrifstofur, Náttúruverndarráð og fleiri aðilar starfað saman með góðum árangri. Þessi atvinnugrein, móttaka erlendra ferðamanna, skilar nú nær jafnmiklum gjaldeyri og útfluttar iðnaðarvörur. En með þessu stjfrv. á að svipta Ferðamálaráð að mestu þeim tekjum, sem það hefur haft til starfsemi sinnar, og lama þar með þessa mikilvægu atvinnugrein.

Ég hef nefnt hér þrjú dæmi um það, hvernig ekki á að standa að því að stjórna landinu. Í einu þessara dæma eru gerðar ráðstafanir sem munu leiða til atvinnuleysis í byggingariðnaði og vaxandi húsnæðisvandræða. Í hinum dæmunum er komið í veg fyrir gjaldeyrissparnað og gjaldeyrisöflun, og hefur þó gjaldeyrisskorturinn löngum hrjáð þessa þjóð.

Þótt framkvæmdir og fjárfesting hafi á sumum sviðum verið um of á undanförnum árum, þá réttlætir það ekki slíkar aðgerðir sem leiða til atvinnuleysis og gjaldeyrissóunar. Það er jafnvægið, sem verður að finna, og alltaf er hollt að hafa heilbrigða skynsemi þar með í ferðum. Það þarf að sporna við óeðlilegri eftirspurn eftir vinnuafli í hverri grein, því að slík spenna eykur verðþenslu. Til þess að koma í veg fyrir ofþenslu í framkvæmdum má ekki grípa til skömmtunar og hins illræmda fjárfestingarleyfakerfis. Hins vegar væri ráðlegt að beita hér aðferð hins frjálsa aðhalds. Ríkisvaldið þarf að fela einhverjum aðila, sem fyrir er í ríkiskerfinu, að fylgjast að staðaldri með ástandi og horfum í hverri atvinnugrein. Ef útlit er fyrir ofþenslu og mikla eftirspurn eftir vinnuafli í einhverri grein, þá þarf sá aðili að gera aðvart í tæka tíð. Þá skal reynt að draga úr hættunni með því að ríkið og ríkisstofnanir dragi úr eða fresti einhverjum framkvæmdum og leitast verði við með samráði og fortölum að fá sveitarfélög, atvinnufyrirtæki og einstaklinga til hins sama. Eins þarf að fylgjast vandlega með því, ef hætta er á atvinnuleysi í einhverri grein, og gera allt sem unnt er til þess að auka atvinnu og bægja frá því böli sem atvinnuleysið er.

Ég hef bent hér á hina frjálsu leið í stað fjötra. Og þannig er það viðhorf og stefna sjálfstæðismanna í öllum þjóðmálum, að frjálsræðið er farsælast. En frjálsræðinu þarf að fylgja eftirlit til þess að taka í taumana, ef frelsið er misnotað. Hið gamla skipulag verðlagsmála hefur t. d. ekki fært mönnum hagkvæmni í vöruvali og vörugæðum, heldur þvert á móti, oft og tíðum valdið óhagkvæmum innkaupum. Við sjálfstæðismenn viljum afnema þetta úrelta fyrirkomulag sem er styrjaldarrústir og aðrar þjóðir hafa löngu grafið í jörð. Við viljum frelsi um verðmyndun, en með eftirliti sem grípur inn í ef hinar frjálsu samkeppni nýtur ekki nægilega á einhverju sviði. Og eins og við viljum frjálsræði í stað ríkisforsjár viljum við auka ráðstöfunarrétt borgaranna á tekjum sínum og munum því beita okkur fyrir að afnema allar hinar nýju skattaálögur sem núverandi stjórnarflokkar hafa leitt yfir þjóðina.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.