07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3020 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þá till. sem hér liggur fyrir til umr. og þar sem henni hefur verið dreift á borð þm. sé ég ekki ástæðu til að lesa hana upp. Ég þykist raunar vita að hún hafi verið gegnumlýst þegar af hálfu þm. En ástæður fyrir því, að ég hef flutt þessa brtt., eru fyrst og fremst þessar:

Ég er sammála flm. till. á þskj. 408, að líkur fyrir því, að núv. stjórnarflokkar nái heils hugar samstöðu um samræmda og heillavænlega stefnu í efnahagsmálum, séu ekki miklar, fyrst þeir hafa ekki náð slíkri samstöðu enn á nú um 6 mánaða valdaferli. Ástæðurnar fyrir sambúðarvanda þessum eru margvíslegar í hugum manna og hér tel ég ekki ástæðu til að hollaleggja um þær.

Þar sem nú stendur hins vegar yfir lokatilraun til að ná samkomulagi um samræmda stefnu í efnahagsmálum og fleiri stjórnunarmálum með stjórnarflokkunum og ég er þeirrar skoðunar að verulegur meiri hl. þjóðarinnar óski þess, að núv. stjórnarsamstarf blessist, en þá skoðun mína styður m. a. dræm fundarsókn hjá Sjálfstfl. víða um land undanfarið í herhlaupi hans, þá þykir mér rétt að ríkisstj. fái lokafrest, en afmarkaðan, til að ganga fullkomlega úr skugga um hvort viðhlítandi samstarfsgrunnur er til. Reynist svo ekki, sem nú horfir helst, eru vissulega aðrir hugsanlegir ríkisstjórnarmöguleikar, svo sem minnihlutastjórn Framsfl. og Alþfl., þar sem þeir virðast nú helst samstíga í viðhorfum til efnahagsmála, og yrði þá að reyna á víxl á fylgi Alþb. og Sjálfstfl. til framgangs átakamála. Þá er hugsanleg sú stjórnarmyndun, að Sjálfstfl. og Alþb. taki höndum saman. Hefði slík stjórn þingmeirihl., 20 sjálfstæðismenn og 14 Alþb.-menn. Þessi stjórnarmyndun er ekki jafnfjarstæðukennd og ýmsum kann að þykja við fyrstu sýn, og nægir þar að vísa til líkrar afstöðu Vinnuveitendasambands Íslands, en þar ráða sjálfstæðismenn mestu, og Alþb.-manna og sjálfstæðismanna í ASÍ til efnahagstillagna forsrh., svo sem kunnugt er nú af frásögnum fjölmiðla. — Hér vil ég skjóta inn í, að Alþb.- menn og sjálfstæðismenn mundu auk þess geta ráðið meiri hl. í ASÍ ef þeir tækju höndum saman. Enn er lík afstaða þessara tveggja flokka gagnvart því, að óðaverðbólga sé ekki svo mikið háskaspil þjóðinni og t. d. Alþfl. hefur sannfæringu fyrir að verðbólgan sé og þá ekki síst launþegum.

Enn verður að henda á þá staðreynd, að þingræðisform okkar ætlast til þess, að þingrofsréttur og örari kosningar en á fjögurra ára fresti sé notað af fyllstu varfærni og tillitssemi, þ. e. þjóðin ekki kvödd til slíkra kostnaðarsamra skoðanaátaka nema annars sé ekki kostur eða búast megi við umtalsverðum umskiptum. Hér verður því haldið fram að hvorugt sé fyrir hendi. Mismunandi kostir til nýrrar stjórnarmyndunar, ef þessi stjórn finnur sér ekki fótfestu, hafa ekki enn verið kannaðir, og verulega breytt vígstaða stjórnarflokkanna sýnist ekki fyrir hendi. Vísast hér á ný til dræmrar fundarsóknar hjá núv. stjórnarandstöðu undanfarið.

Í brtt. minni felst einfaldlega það, að ríkisstj. sé gefinn frestur, en afmarkaður, til að finna sér fótfestu. Takist það ekki innan tilskilins tíma séu aðrar leiðir til stjórnarmyndunar kannaðar og leiði þær ekki til neins innan tilskilins tíma, þá en ekki fyrr sé þingrofi heitt.