08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3114 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

198. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði rétt í þessu, að það kann að vera ákveðið misrétti með launþegum þessa lands. Raunar er það æðimikið og hefur fremur farið vaxandi að undanförnu en hið gagnstæða, enda viljandi brotin á bak aftur löggjöf og aðgerðir, sem á s. l. ári voru gerðar til að jafna launakjör í þessu landi, með hinum svokölluðu samningum í gildi, og svo því reginhneyksli að ekki skyldi um löggjöf landsins búið betur en svo, að nú hefur hið svokallaða „þak“ verið tekið af, þannig að hæstlaunuðu menn þessa lands fá margfaldar kaupbætur móti láglaunafólki. Þetta er svo sem ekki nema í samræmi við allt endemi annað í fari núv. hæstv. ríkisstj.

Víst er svo, og þm. eru sammála um það, ég dreg það ekki í efa, að vinnutími sé of langur hér, og skoðun mín er sú, að með mun styttri vinnutíma mætti afkasta jafnmiklu og nú er gert og kannske meiru. Hv. þm. muna kannske eftir því, að það var hér japönsk stúlka í útvarpsviðtali fyrir einu eða tveimur árum, gift Íslendingi, hygg ég að hafi verið, sem var spurð að því, hvort henni fyndist Íslendingar ekki vinna mikið. Hún svaraði: „Nei, mér finnst þeir ekki vinna mikið, en þeir vinna lengi.“ Ég hygg að það sé nokkur sannleikur í þessum orðum, að hér á landi mætti mun betur skipuleggja vinnu og stytta vinnutíma, og vissulega á löggjafinn að hlutast til um aðgerðir í því efni.

Hitt er svo allt annað mál, að ég tel það alranga stefnu, sem hæstv. ríkisstj. fylgir, að ætla með löggjöf að ákveða svo til allt í kjaramálum þessarar þjóðar. Svo er í rauninni komið, að íslensk verkalýðsfélög hafa ekki lengur neinn tilgang. Þau koma aldrei saman til funda. Það er aldrei talað um verkfallsaðgerðir eða neitt slíkt. Það eru litlar klíkur, sem eru í nánu samstarfi við pólitíkusa, pólitíska valdamenn þessarar þjóðar, sem ráðska með hagsmuni launþega þessa lands án þess að spyrja þá að einu eða neinu. Það er verið að gera verkalýðsfélög á Íslandi álíka áhrifalaus og þau eru í sósíalískum ríkjum, kommúnískum ríkjum, einræðisríkjum, ef svo heldur fram sem horfir.

Það hefur verið meginkrafa íslenskra verkalýðsfélaga allt frá því að þau voru stofnuð, og ætti að vera enn, og ég vona að það sé meginkrafa íslenskra launþega almennt, að fullt samningsfrelsi ríki og fullur verkfallsréttur. Það eigi að vera á valdi verkalýðsfélaganna að semja um sín málefni og ráða því sjálf, án afskipta og íhlutunar ríkisvalds, nema þá í undantekningartilfellum, hvernig með samningamál sé farið.

Nú er hins vegar til þess ráðs gripið til þess að falsa vísitölu og skerða kjör manna að bera fram svokölluð — ja, hvað er þetta nú kallað á fína málinu, ég er nú búinn að gleyma því, jú, „félagsmálapakki“, segja þeir. Frv. þetta er flutt í samræmi við þau fyrirheit sem ríkisstj. gaf launþegum samfara þeim ráðstöfunum sem gerðar voru. Þetta á að vera einhvers konar kjarabótaatriði, metið til svo og svo margra vísitölustiga. Það veit hvert einasta mannsbarn, ríkisstj. jafnt og allir aðrir, að hér er ekki annað um að vera en að falsa vísitölu og skerða kjör manna og síðan á að pota inn einhverri löggjöf um atriði sem auðvitað ætti að vera samningsatriði milli launþega og vinnuveitenda og ekki að koma til kasta Alþ., eins og háttar í okkar þjóðfélagi, þar sem verkalýðsfélög gætu verið, sem betur fer, mjög sterk og fullfær um að semja um kjör sín, og án efa mundu kjör vera hér betri ef samningsfrelsi væri virt og pólitískir spekúlantar og pótintátar létu þessi samtök fólksins í landinu í friði um að gæta hagsmuna sinna og væru ekki að skerða hagsmuni þeirra hvenær sem þeim dettur í hug til þess að halda pólitískri valdastöðu og banna þeim þar með að njóta þeirra réttinda sem verkalýðsfélög hafa hér á landi lengst af notið, þ. e. a. s. bæði verkfallsréttar og samningsréttar.

Ég vil aðeins vekja athygli á þessu án þess að fara að halda langa ræðu. Ég gæti talað langt mál um þetta og við getum sjálfsagt rifist um það lengi. Ég vil vekja athygli á þessu við 1. umr., vegna þess að öll þessi mál, sem núna er verið að renna inn í Alþ., eru lögð fram til þess að reyna að sannfæra fólk um að ríkisstj. sé svo óskaplega góð við launamenn, henni sé svo annt um þeirra hag, það sé svo sem ekkert verið að skerða hag manna þótt eitt og eitt vísitölustig sé tínt burt og þó að vísitalan sé svolítið fölsuð með niðurgreiðslum, því að allt eigi þetta að bæta með þessum hliðarráðstöfunum.

Þetta mál kemur að sjálfsögðu til 2. umr. — og þó, ætli það geri það nú? Ef ríkisstj. fellur kann svo að fara að það verði ekki mikið um þetta rætt. En ég vildi í þessum örfáu orðum vekja athygli á þeirri óheillavænlegu stefnu sem verið er að leggja út á núna. Fyrst og fremst er hún óheillavænleg fyrir félagslegt réttlæti í þessu landi og fyrir launþegasamtökin, að það skuli í bókstaflegri merkingu vera búið að firra þau öllu valdi. Það kemur varla fyrir að það sé boðaður almennur fundur í verkalýðsfélagi, og þó hann sé boðaður mæta þar örfáir menn, vegna þess að þeir vita fyrir fram að pólitískir pótintátar eru búnir að semja við aðra pólitíska pótintáta um hvernig með hag launþega skuli farið, og þeir hafa þess vegna ekkert erindi á neina slíka fundi. Þetta er það sem Vilmundur eldri, landlæknir, mundi sjálfsagt hafa kallað sósíalisma — og hitt orðið má ég víst ekki nefna úr þessum stól, en það þekkja allir þetta orðatiltæki. Ég vara menn við því að ganga lengra á þessari braut, ekki síst þá, eins og ég tel hæstv. ráðh. vera, sem vilja hag launþega vel og vilja ekki að hér verði komið á því kerfi, — a. m. k. verði það ekki fullkomnað, — sem hér er verið að stiga eitt skref af öðru yfir í, þ. e. a. s. að gera verkalýðsfélögin gjörsamlega máttvana og færa öll kjaraákvörðunarvöld til ríkisstj. eða þá til Alþ. Ég veit að í hjarta sínu vill hann þetta ekki. Þess vegna skulum við fara varlega að stiga spor eins og þessi. Verkalýðsfélögin gætu verið nógu sterk til að knýja þetta fram og miklu meiri kjarabætur en þeim eru skammtaðar nú af hæstv. ríkisstj.