31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

21. mál, aðbúnaður og hollustuhættir á vinnustöðum

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Við upphaf samningsgerðar aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör, sem stóð yfir vorið 1977, var samkomulag um það á milli samningsaðila og ríkisstj., eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að teknar skyldu upp svonefndar þríhliða viðræður um viss atriði er vörðuðu samningsgerðina. Meðal þeirra atriða, sem — þannig voru upp tekin, voru viðræður um vinnuvernd. Samkomulag náðist um að ríkisstj. skipaði tvær nefndir í því sambandi: aðra til að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi í skipum, en hina til að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Með bréfum, dags. 22. júní 1977, ritaði forsrh. aðilum vinnumarkaðarins bréf í því skyni að þeir tilnefndu menn í þessar nefndir. Þegar félmrn. höfðu borist tilnefningar í sept. 1977 skipaði þáv. félmrh. hinn 14. s.m. 7 menn í nefnd til að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi í skipun og 9 menn til að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Formaður fyrri nefndarinnar er Hjálmar R. Bárðarson siglingamálastjóri, en hinnar síðari03 Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri í félmrn.

Nefnd sú, sem falið var að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi í skipum, var sammála um að ekki væri þörf nýrrar lagasetningar um þessi mál, því að unnt væri að leysa verkefnið með setningu reglugerðar á grundvelli laga nr. 42 frá 1940, um eftirlit með skipum. Hafði félmrn. ekkert við þá starfsaðferð að athuga. Þessi nefnd hefur þegar að mestu leyti lokið við að semja reglugerð um vistarverur og aðbúnað á fiskiskipum og vinnur nú að samningu tilsvarandi reglugerðar um flutninga- og farþegaskip. Þess er vænst, að samningu þessarar reglugerðar verði lokið fyrir næstu áramót. Ekki er að öllu leyti ákveðið innan nefndarinnar á hvaða atriði hún muni leggja áherslu eftir n.k. áramót, en minnst hefur verið á að hún muni þá fjalla um ákvæði, sem varða öryggi og vinnuaðstöðu um borð í skipum, svo og e.t.v. um hávaða um borð í skipum o.fl.

Hvað varðar störf þeirrar nefndar sem fyrr var getið og falið var að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þá skal upplýst að hún hélt fyrsta fund sinn 21. sept. 1977 og eru fundir nefndarinnar orðnir 16 talsins. Nefndin varð í upphafi sammála um að stefnt skyldi að því að vinna að rammalöggjöf um þessi mál. Margvíslegra gagna um gildandi lög um þessi mál á hinum Norðurlöndunum hefur verið aflað svo og upplýsinga um aðstöðu aðila vinnumarkaðarins í hlutaðeigandi löndum til þeirra. Þá hafa nýleg dönsk lög um þessi efni verið þýdd og nokkur hliðsjón verið af þeim höfð við gerð frumdraga að frv.-gerð nefndarinnar.

Nefndinni hefur miðað nokkuð áleiðis í störfum sínum og hefur þegar náðst samstaða um skilgreiningu á tilgangi laganna og gildissviði þeirra, en lögunum er ætlað að tryggja að skilyrði verði fyrir hendi fyrir því, að innan vinnustaðanna sjálfra verði hægt að leysa öryggis- og umhverfisvandamál og skuli það gert í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Samkomulag hefur náðst um það innan nefndarinnar, að stofnað verði vinnueftirlit ríkisins og verði sjálfstæð stofnun og skuli aðilar vinnumarkaðarins eiga fulltrúa í stjórn hennar. Stofnun þessari er ætlað að taka m.a. að sér öll þau verkefni, sem Öryggiseftirlit ríkisins fer nú með, svo og sum þeirra verkefna, sem nú falla undir Heilbrigðiseftirlit ríkisins. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir því, að næstu mánuði verði gerð sérstök athugun á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum. Athugun þessi mun ná til ákveðins og takmarkaðs fjölda vinnustaða og skal gerð í því skyni að knýja á um úrbætur á aðbúnaði og öryggi á vinnustöðum. Gert er ráð fyrir því, að nefndin leggi á ráðin um þessa könnun og fylgist með henni, og skal hafa niðurstöður könnunarinnar til hliðsjónar við undirbúning lagasetningar um þau mál, sem hér er um fjallað.“

Undirbúningi er að fullu lokið og könnunin hófst í byrjun okt. Er stefnt að því, að búið verði um miðjan febr. n.k. að skoða þá 170–180 vinnustaði sem valdir voru, og ættu þá niðurstöður könnunarinnar að liggja fyrir í mars 1979. Þegar hafa verið veittar á fjárlögum 1978 2 millj. til öryggiseftirlits ríkisins og 4 millj. til Heilbrigðiseftirlits ríkisins, en þessar stofnanir annast sameiginlega úttekt vinnustaðanna. Hefur þessu fé verið ráðstafað til undirbúnings og tækjakaupa. Samkv. kostnaðaráætlun, sem viðkomandi stofnanir lögðu fram fyrr í þessum mánuði, er áætlað að rúmlega 10 millj. kr. þurfi til viðbótar þeim 8 millj., sem þegar hafa verið veittar til þessa verkefnis.

Það skal að lokum undirstrikað, að aðilar vinnumarkaðarins lögðu á það mjög mikla áherslu, að æskileg könnun yrði gerð á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum, enda er, eins og áður hefur verið sagt, tekið fram í skipunarbréfi nefndarinnar, að hún skuli fylgjast með úttekt þessari og hafa niðurstöður hennar til hliðsjónar við undirbúning umrædds frv. Könnun þessi, sem er gerð í samráði við aðila vinnumarkaðarins, er framkvæmd af Öryggiseftirlitinu og Heilbrigðiseftirlitinu sameiginlega. Undirbúningur þessarar könnunar hefur krafist mikillar vinnu og reynst mjög tímafrekur. Hefur það að sjálfsögðu tafið störf nefndarinnar nokkuð. Nú er þessi könnun hafin af fullum krafti, og er það von nefndarinnar, að samfara því geti komist verulegur skriður á samningu frv. þannig að það sjái dagsins ljós eftir nokkra mánuði. Að því er stefnt af nefndarinnar hálfu og núv. ríkisstj. mun vissulega fylgja því máli eftir.

Þá er einnig spurt um efndir þeirra fyrirheita sem fyrrv. ríkisstj. gaf verkalýðssamtökunum um húsnæðismál við gerð kjarasamninganna 22. júní 1977. Þau fyrirheit, sem hér er átt við, varða einkum eflingu Byggingarsjóðs verkamanna til þess að mæta aukinni þörf fyrir verkamannabústaði. Þessi fyrirheit munu efnislega samhljóða þeim, sem fólust í yfirlýsingu ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar frá 26. febr. 1974, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á, sem síðan var einnig áréttað með bréfi fyrrv. félmrh. frá, 26. febr. 1976.

Um efndir þessara fyrirheita er þetta að segja: Hinn 14. sept. 1977 var skipuð nefnd 6 manna undir forustu Gunnars Helgasonar, formanns húsnæðismálastjórnar, til að endurskoða þau ákvæði laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem fjalla um byggingu íbúða á félagslegum grundvelli. Nefnd þessi hefur nú lokið störfum og er tillagna hennar að vænta á allra næstu dögum reyndar á morgun. Verða þær þá strax kynntar í ríkisstj. og þingflokkum. Vænti ég þess, að í framhaldi af því verði hægt að leggja fyrir hv. Alþ. frv. til nýrra laga um byggingu slíkra félagslegra íbúða.