09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess, að sú nefnd, sem skipuð var til að fylgjast með þessum málum eftir að vatnsveitustjóri Reykjavíkur hafði gefið skýrslu um málið í janúarmánuði, hefur tekið til starfa og hún skilur verkefni sitt á réttan hátt. Hún á að fylgjast með þessu alveg án takmarkana, og það verður tryggt að hún geti farið hvert sem hún vill og skoðað hvað sem hún vill í þeim efnum.

Það hefur verið fullyrt af ýmsum aðilum varðandi það sem skeði s. l. áratug, sem ég að vísu þekki ekki nema af afspurn, að þá hafi verið deilt um hver ætti að borga kostnaðinn af hugsanlegum ráðstöfunum. Það mál mun ekki hafa verið leitt til lykta, en hins vegar lá einnig fyrir, að verulegar deilur voru milli íslenskra aðila um hvað ætti að gera. Þær voru ekki heldur leiddar til lykta. Við skulum vona að þær verði það núna.

Af því, sem síðast hefur gerst, get ég skýrt frá því, að í ljós komu miklir gallar á frárennsli frá radarstöð í Sandgerði. Varnarliðið hefur nú tilkynnt að það hafi tryggt sér fjárveitingu til að bera allan kostnað af því að gera fullkomlega nýtt holræsi frá stöðinni. Standa nú yfir viðræður á milli íslenskra yfirvalda og varnarliðsins um staðsetningu.

Í öðru lagi vil ég geta þess, að gerðar hafa verið mjög margvíslegar ráðstafanir í kringum flugskýlið á Vellinum til að endurbæta varnir gegn olíumengun. Þær hafa allar verið greiddar að fullu af varnarliðinu. Ég hygg að óhjákvæmilegt muni verða að leysa kostnaðarhlið þessara mála jafnóðum og þau koma upp, jafnóðum og sú nefnd, sem nú starfar að þessu, bendir á verkefni sem leysa þarf.