09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

66. mál, hámarkslaun

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Till. þessi, sem við flytjum nú, hv. þm. Helgi F. Seljan, Jónas Árnason, Kjartan Ólafsson og Ólafur Ragnar Grímsson, hefur áður verið flutt á þremur þingum og varð aldrei útrædd. Fram kom fyrir jólin í vetur önnur till. til þál., þar sem kveðið er á um hámarks- og lágmarkslaun. Þessi till. gerir raunar endurflutning þessarar till., sem hér um ræðir nú í fjórða sinn, óhjákvæmilegan þar sem augljóst er af grg. þeirri, sem fylgir með hinni till., — ég sé að hv. þm. Bragi Sigurjónsson hefur horfið úr salnum, en ég hefði gjarnan viljað beina til hans orðum mínum, — að hann hefur misskilið þessa till. um hámarkslaun, þótt hún hafi verið rædd þrisvar hér í þinginu. Hann hefur misskilið hana, sennilega talið sig grípa hér til útfærslu þingmáls sem hlotið hafi almennar vinsældir, þótt hann skilji raunar ekki hvers vegna.

Ég hafði ekki ætlað mér að ræða till. hv. þm. Braga Sigurjónssonar í sambandi við lágmarkslaun og hámarkslaun og skorður við yfirvinnu, en vil aðeins geta þess, að það eru verkalýðssamtökin á Íslandi sem semja við atvinnurekendur og vinnuveitendur um lágmarkslaun — slíkt er í verkahring verkalýðsfélaganna. Í velflestum kjarasamningum og að því er ég best veit öllum eru nú ákvæði um það, sem hann geri ráð fyrir í sinni till. að sett skuli í lög, að semja verði við viðkomandi launþegafélög um yfirvinnu. En að öðru leyti en þessu hefur hv. þm. Bragi Sigurjónsson flutt hér till. til þál. um hámarkslaun og er góðra gjalda vert að hann tekur upp þetta eldskírða þingmál okkar Alþb.- manna og er síst undan því að kvarta, ef hann hefði ekki misskilið tilgang þeirrar tillögu.

Með ráðstöfun þeirri, sem reifuð er í till. okkar, hyggjumst við koma því til leiðar að kjarabætur handa þeim, sem lægst eru launaðir, verði algjör og ófrávíkjanleg forsenda hverrar launahækkunar til þeirra sem betur eru settir í þjóðfélaginu. Að dómi flm. er unnt að búa svo um hnútana að kjarabætur til handa verkamönnum verði sá biti í aski hinna hálaunuðu sem þeir fái alls ekki vikið til hliðar ef þeir ætla að bæta sína mötu. Svo að dæmi sé tekið yrði það óframkvæmanlegt eftir setningu slíkra laga sem eru ráðgerð í till. okkar að kveðið verði á um það með lögum, að hæstu laun á landi hér verði hærri en tvöföld laun verkamanns miðað við 40 stunda vinnuviku. Þá yrði algerlega óframkvæmanlegt fyrir ýmsa háttsetta aðila og forsjónarmenn efnahagsmála á Íslandi að hækka eigin laun, svo sem við hefur borið, samtímis því sem þeir hafa fellt þann úrskurð að efnahagur landsins þyldi ekki hækkun verkamannalauna.

Því er það nú að við kveðum á í þáltill. okkar um tvöföld verkamannslaun sem hámark, að við tökum mið af fornri hefð hérlendri um hlutaskipti á sjó, þar sem þeim skipverjum, er mesta bera ábyrgðina á úthaldinu og lífi og limum áhafnar að auki, voru ætluð tvöföld laun hásetans, hins almenna verkamanns á skipinu. Að okkar áliti yrði torfundið það starf á þurru hér á landi sem hefði í för með sér meiri ábyrgð og vert væri af þeim sökum meiri umbunar en starf skipstjóra á fiskiskipi. Mun það einnig mála sannast, að þá fyrst hafi slíkur forsjónarmaður unnið til verðlauna þegar hlutur háseta hans er orðinn svo góður að hlutskipti hans sjálfs er orðið ágætt.

Að vísu og til þess að koma í veg fyrir misskilning skal það tekið fram, að mér er ljóst að mikið hefur verið hróflað við hlutaskiptum á íslenska flotanum síðan sú var hefðin, og að mínu viti ekki allt til bóta, og ekki vil ég deila við hv. þm. Braga Sigurjónsson um það, hvort réttlátara sé að hin hæstu laun, svo sem hann kveður á um í sinni þáltill., skuli vera þreföld verkamannslaun eða tvöföld. Fyrr hef ég tekið það fram, þegar ég hef mælt með þessari þáltill., að fyrir mér er þetta hlutfall, sem hér er nefnt, alls ekki heilagt á nokkurra handa máta, heldur er það mál sem íhugunar þarfnast.

Að dómi flm. er óþarft að kveða sérstaklega á í till. um sérstöðu hlutarsjómannsins í launakerfi á Íslandi, enda má náttúrlega til sanns vegar færa að sú kauptrygging, sem hlutarsjómaðurinn hefði mátt una allt frá upphafi, er svo lág að óhæfilegt hlýtur að teljast og ævitekjur fiskimanna við verkalok yfirleitt í rýrasta lagi. Einnig má efalaust bæta kjör þeirra manna mjög, ef siðgóðar reglur yrðu teknar upp við launagreiðslur í landi og felldar að þeirri grundvallarhugsun hinnar ævafornu skiptareglu sem réttlætiskennd kynslóðanna hefur talið viðunandi.

Nú bar einmitt svo við í vetur, að við flm. þessarar þáltill. þóttumst sjá hilla undir það, að svo yrði gengið frá framkvæmd verðbótavísitölu að launamismunur á landi hér mundi minnka smám saman, þar sem sett hafði verið þak á kaupgjaldsvísitölu og launafólk með lægri tekjur en 280 þús kr. fékk óskerta verðbótavísitölu, en þeir, sem hærri launin höfðu, fengu aðeins krónutöluna, þannig að við útreikning hverrar kaupgjaldsvísitölu dró saman að þessum hætti með hinum hæst launuðu og með þeim sem lægra voru launaðir. Þetta taldi ég góðra gjalda vert og stefna í rétta átt, þótt enn væri ég þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri, sem ég nú er enn, að kveða á um það með lögum, hvert vera skuli kaupgjaldshlutfall á landi hér, og að kjör þess fólks, sem vinnur að undirstöðuatvinnuvegunum, skuli verða órofa mælikvarði á laun þeirra sem meira er ætlað að bera úr býtum. Ég hefði ekki sætt mig við það eitt, að þakið á kaupgjaldsvísitölunni yrði smám saman látið jafna þennan mun sem er á launum manna á landi hér, heldur hefði ég eigi að síður haldið áfram að beita mér fyrir því, að kveðið yrði á um þetta með lögum.

Ég er þeirrar skoðunar, að þróun kaupgjaldsmála á landi hér á síðustu áratugum hafi verið mjög svo í ranga átt. Ég hef áður haldið því fram og er best að gera það aftur af því að hv. þm. Gunnar Thoroddsen gekk nú í salinn — ég var svo heppinn — að breyting hafi orðið á þessum málum í þann mund sem hann var fjmrh. upp úr 1960. Fram að þeim tíma hygg ég að það hafi verið almennt viðurkennt æskilegt markmið, að miðað yrði að launajöfnuði á landi hér, en um þetta leyti, í tiltölulega góðri tíð, hafi menn svo hneigst til þess, og það upp úr kjarasamningum sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja gerði við fjmrn. í tíð Gunnars Thoroddsens, að launamunur nokkur — efalaust ekki ótakmarkaður — gæti talist æskilegur hvati til athafna og dáða. Síðan þeir kjarasamningar voru gerðir hygg ég að hafi viljað gleikka nokkuð bilið á milli launaflokkanna á landi hér og að fólk, sem þiggur laun fyrir almenna verkamannavinnu, hafi dregist mjög mikið aftur úr. Fram að þeim tíma var það metið býsna hátt til launa að menn gengu í líkamlega erfið störf og óþrifaleg störf, oft og tíðum við undirstöðuframleiðsluna, og svo í þriðja lagi hitt, að þau störf, sem þær stéttir vinna, eru grundvöllur undir öðru launakerfi á landi hér.

En það skeður síðan sem sagt fyrir nokkrum dögum, að Kjaradómur kveður upp þann úrskurð að „vísitöluþakið“ svonefnda á laun skuli víkja, ákvæðin um krónutöluregluna fyrir hina hærra launuðu skuli taka gildi, að maðurinn með tíföld verkamannalaun skuli fá tífalt meiri verðbætur en maðurinn með einföld verkamannalaun. Það er því meira en hugsanlegt og mun vera raunverulegt, þó guði sé lof í frekar fáum tilfellum, að þegar verkamaðurinn fær verðbætur sem nema 10 þús. kr., þá fá einstakir hátekjumenn verðbætur sem samsvara heilum verkamannslaunum.

Kjaradómurinn hljóðaði upp á launakjör fólks í Bandalagi háskólamanna, og ekki hafði úrskurðurinn fyrr verið kveðinn upp en lýst var yfir því af hálfu fjmrn., að hin nýja regla, sem Kjaradómur hafði úrskurðað, skyldi jafnframt gilda um hina hálaunuðu sem taka laun samkv. samningum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það má blasa við hverjum manni, hvernig aðstaða er nú fyrir þessa blessaða ríkisstj. til þess að ganga til þess fólks, sem hefur hin lægri launin, og segja við það: Það er nú svo, að „vísitöluþakið“ hefur verið afnumið, allir skulu fá sömu hlutfallstölu í verðbætur á laun sín, en þið verðið að gera það fyrir okkur að fallast á að taka ekki af okkur 3% kauphækkun í júní í sumar sem þið hafið þó samið um áður. Þið verðið að gera það fyrir okkur — þið sem lægri launin hafið. Þið verðið að fallast á þetta, enda þótt svona hafi verið unnið af þeim sem hærri launin hafa.

Ekki vil ég hrakyrða þá menn sem skipa Kjaradóm. Ég fékk ástæðu til þess fyrr meir, áður en ég kom hingað inn á Alþ., að segja álit mitt á störfum Kjaradóms, og ég hygg að þar hafi Kjaradómur nú — þessi Kjaradómur sem gjarnan var sakaður um að hlusta eftir vilja ríkisvaldsins og þá sérstaklega fjmrh. hverju sinni áður en hann felldi úrskurði sína — þá afsökun að forsrh. hafi sjálfur lagt fram í ríkisstj. drög að lagafrv. þar sem gert var ráð fyrir að „vísitöluþakið“ yrði afnumið. Annar af stjórnarflokkum í ríkisstj. hafði lýst yfir fylgi við þessa till. forsrh. Ég geri því ráð fyrir að Kjaradómur hafi út af fyrir sig, eða dómarar í Kjaradómi, talið sig hafa ástæðu til þess að ætla að pólitískur vilji væri fyrir því á Alþ. að taka upp þessa skipan mála að nýju. En hvað sem því líður er það skoðun mín, að launamunur sé allt of mikill á landi hér.

Hann sé þess eðlis, að hann dragi úr okkur pólitískan þrótt. Þessi launamismunur á sér sannarlega víðar stað en í launakerfi hins opinbera. Fullvel vitum við að innan raða alþýðusamtakanna, Alþýðusambands Íslands, ríkir geysilegur launamunur þegar allt kemur til alls — óhæfilegur launamunur.

Loks vil ég víkja að því atriði í þessari þáttill. okkar sem að því lýtur, að numdar verði úr lögum allar heimildir fyrir því að einstaklingar geti gegnt nema einu fastlaunuðu starfi, og eins að loku verði fyrir það skotið, að átt geti sér stað duldar launagreiðslur í formi neins konar fríðinda umfram hámarkslaun. Okkur er það kunnugt, alþm., að í ýmsum tilfellum eru launagreiðslur duldar í ýmiss konar fríðindum og aukasporslum, og sá háttur við launagreiðslur er ekkí til þess fallinn að auka trúna hvorki í kjarasamningum né í starfi innan opinberra stofnana eða á milli launaþiggjenda og launagreiðenda. Við flm. erum þeirrar skoðunar, að það sé ákaflega þýðingarmikið að hvað eina það sem lýtur að launagreiðslum sé einfalt og opinbert þannig að ekki verði um deilt og þær tölur, sem notaðar eru í samanburði þegar rædd eru launakjör hér á landi og samið um laun, séu áreiðanlegar og óumdeilanlegar.

Og svo að lokum þetta: Ég er þeirrar skoðunar, að hvort sem það yrði með þeim hætti að hv. Alþ. samþykkti áskorun eins og þá sem felst í þessari þáltill. til ríkisstj. um að láta undirbúa löggjöf um hámarkslaun, þar sem kveðið verði á um að ekki megi greiða hærri laun hér á landi en tvöföld verkamannalaun, eða hvort það verður með öðrum hætti, þá sé bráðnauðsynlegt í þeirri stöðu sem við nú erum í að Alþ. grípi undraskjótt í taumana og láti uppi þann skýlausa vilja sinn, að sá háttur, sem var upp tekinn fyrir nokkrum dögum með úrskurði Kjaradóms, að þeir, sem best eru settir fjárhagslega hvað laun snertir, skuli í sívaxandi mæli hljóta launabætur umfram þær, sem til framfærslu þyrfti, við hverja lagfæringu sem gerð er á kaupgreiðslum til hinna lægst launuðu, sem lafa í því að hafa framfærslulaun, og er til þess siðferðilega ætluð að tryggja að þeir hafi áfram framfærslulaun þrátt fyrir verðhækkanir, — að þessi skipan verði ógilt og annað verði fært í lög. Ég hef áður sagt það úr þessum ræðustól, og kveðið allsterkt að orði um það, að það er óratími síðan kaupgjaldsvísitalan í núverandi mynd hætti að vera einhvers konar heilög kýr í minni vitund. Það er orðið býsna langt síðan, að minni hyggju, að hún hætti að vera vopn í réttlætisbaráttu launafólks. Það varð dálítið annað í framkvæmdinni. Ég er því sannarlega þeirrar skoðunar að á lögunum, sem að henni lúta, þurfi að gera ákveðnar breytingar til þess að tryggja hinn upprunalega tilgang með kaupgjaldsvísitölunni, sem var að vernda hag fólks sem hafði svo lág laun að það mátti ekki við að taka á sig skell vegna dýrtíðar.

Ég vil svo, herra forseti, mælast til þess að að lokinni umr. verði till. vísað til allshn.