12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3177 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

197. mál, söluskattur

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég get vel tekið undir það og að sjálfsögðu, að reglur um snjómokstur þurfi að athuga og endurskoða, og mér er það ljóst ekki síður en þeim hv. þm., sem hafa talað hér, að mikill vandkvæði eru oft á ferðum með snjóinn, ekki síst hjá sveitarfélögunum og jafnvel einstaklingunum á þeim köflum sem þeir þurfa að annast. Þessar reglur hafa verið endurskoðaðar ekki alls fyrir löngu að vísu, en það breytir ekki því, að það er stöðugt þörf á því að hafa þetta mál á hreyfingu, ef svo mætti segja. Nýjar þarfir hafa komið til á allra síðustu árum, mjög brýnar, þar sem er annars vegar tankvæðingin og hins vegar flutningar skólabarna, daglegur flutningur víða. Svo er auðvitað líka og þarf ekki orðum að því að eyða, að almenn umferð vex jafnt og þétt. Við búum þannig að þarfirnar fyrir að komast á milli daglega fara vaxandi með breytingu á okkar lífsvenjum. Undir þetta allt saman get ég tekið og skal styðja að því fyrir mitt leyti að þessi mál verði tekin til endurskoðunar.

Aftur á móti er það svo, þegar flutt er mál um niðurfellingu skatta í einhverri mynd, að þá er ég yfirleitt ekki reiðubúinn til að taka undir það án verulegrar athugunar. Mér blöskrar sá hráskinnaleikur sem leikinn er alls staðar í þjóðfélaginu, annars vegar um skattheimtu, þar sem nálega hver aðili sem lætur til sín heyra, hvort sem það eru stjórnmálaflokkar, félagasamtök eða einstaklingar, þeir tala um skattpíningu og um að það eigi að leggja niður þennan eða hinn skattinn eða gera frávik frá honum, og svo eru hins vegar látlausar kröfur frá sömu aðilum um allt milli himins og jarðar sem krafist er að hið opinbera geri. Ég er sífellt meira og meira undrandi þegar ég heyri þetta, því náttúrlega sjá allir menn að þetta dæmi gengur ekki upp, og það er þess vegna sem ég geri það ekki að lítt athuguðu máli að lýsa yfir stuðningi við niðurfellingu neinna skatta, liggur mér við að segja.

Hitt er svo annað mál, eins og ég sagði í upphafi, að ég ætla ekki að lýsa andstöðu við þessa hugmynd hv. þm. um að fella niður söluskatt af þessu tiltekna verkefni. En það er alls ekki víst að það sé auðvelt að skilja þar á milli, en þó skal ég engu um það spá og það er óþarfi að vera að deila um það nú hvort finnist leið til þess. Ég er ekki að lýsa neinni harðri andstöðu við þessa hugmynd út af fyrir sig, en ég er ekki heldur tilbúinn að samþykkja hana að lítt athuguðu máli. En ég árétta það sem ég sagði, að ég vil mjög styðja að því að reglur um snjómokstur verði endurskoðaðar. Hitt er þó vissulega ljóst, að þar er líka togast á. Við viljum fá vegasamband og komast um vegina að vetrinum einnig. En auðvitað hika menn við og horfa í peninginn sem í það fer að ryðja burt snjónum, og auðvitað vildu allir heldur að þær fjárhæðir mætti nota til að byggja upp vegina svo að þeir tepptust ekki eins oft af snjó. Þarna togast á tvö sjónarmið. En það breytir ekki því, að við verðum að horfast í augu við það að snjórinn er vandamál, glíman við hann, sérstaklega í þeim vetrum sem erfiðir eru.

Mér fannst rétt að láta þetta koma fram hér. Alveg sérstaklega vegna þess hvað margir hv. dm. lýstu þegar í stað yfir stuðningi við þetta frv., þá vildi ég ekki villa á mér heimildir með því að þegja, því ég er alls ekki tilbúinn að samþykkja það án nánari athugunar.