13.03.1979
Sameinað þing: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3210 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

72. mál, meðferð íslenskrar ullar

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. „Illa gengur að afgreiða póstinn“, var sagt forðum tíð og það má kannske svipað segja, stundum fyrr og áreiðanlega nú um afgreiðslu mála í Sþ. Það eru margar till. fram lagðar og margar ókomnar til n. og nú tekur nokkuð að líða út á. Það hefur verið algengt að fluttar séu mjög langar ræður og margar við fyrri hluta umr., þegar þær ná að fara fram fyrir umræðum utan dagskrár, sem hafa verið mjög tíðar og stundum langar. Ég held að það sé því rétt að ég hafi fremur stutta framsögu fyrir þessari tillögu.

Flm. auk mín eru þeir Stefán Valgeirsson, Þórarinn Sigurjónsson, Alexander Stefánsson og Einar Ágústsson. Till. er um meðferð íslenskrar ullar, að eiginleikar hennar verði rannsakaðir og kannað hversu bæta megi ræktun hennar og meðferð yfir höfuð að tala, allt frá því að hún tekur að vaxa á kindinni, ef svo mætti segja, og þar til flíkin er fullfrágengin.

Hvatinn að flutningi þessarar till. er bréf það frá nokkrum samtökum áhugafólks um meðferð ullar, sem m. a. var sent alþm. í þann mund sem þing kom saman í haust. Í upphafsorðum benda bréfritarar á að íslenska ullin á sér jafnlanga sögu og landsmenn sjálfir. Landnámsmenn fluttu sauðfé ásamt öðru góssi sínu er flytja mátti sjóleiðis á þeim tímum þegar Ísland byggðist. Þeir benda á að í sameiningu aðlagaðist fólk og sauðfé ókunnu, harðbýlu landi, sem gaf því svip og sérkenni. Og þeir rifja það upp í bréfi þessu, hvernig ull hefur verið unnin í landinu í 1100 ár og hversu sérkenni hennar eru sterk og vel þekkt öllum þeim sem úr henni hafa unnið á margvíslegan og nytsaman hátt: Langt sterkt og gljáandi tog, mjúkt og fjaðurmagnað þel. Það er rakið hversu fjölbreytt framleiðsla úr ull hefur verið áður á öldum, því að þá var unnið úr ull miklu fleira en efni til fatnaðar. Enn er á það bent, hversu allir þættir ullarframleiðslu og úrvinnslu fyrrum voru nátengdir, þar sem allir þættirnir fóru fram á heimilunum sjálfum. Tengslin milli ræktunar og úrvinnslu voru þá sjálfsögð og eðlileg. Á síðari árum aftur á móti hefur orðið mikil breyting á þessu með gerbreyttum atvinnuháttum og margvíslegri verkaskiptingu, sem viðgengst í nútímaþjóðfélagi, svo okkar þjóðfélagi sem öðrum.

Nú dettur mér vitanlega ekki í hug að freista að rekja yfirgripsmikla sögu um ullarvinnslu, það hefur ekki neina sérstaka þýðingu í sambandi við þetta mál, né heldur að ræða um notkun Íslendinga á umliðnum öldum á ull og ullarvörum. En ég stilli mig ekki um að benda á fróðlegt og skemmtilegt erindi: „Ullin og íslenska þjóðin“ — sem dr. Gylfi Þ. Gíslason flutti á samkomu þýsk-íslensku félaganna í Köln og Hamborg 5. og 6. apríl s. l. — það var prentað í Fjármálatíðindum, 3. hefti síðasta árgangs, trúi ég. Og ég vil einnig benda á að fagmenn í greininni, t. d. dr. Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri og dr. Stefán Aðalsteinsson, hafa ritað margt ágætra greina um íslensku ullina nú og fyrr.

Þegar hér er lagt til að stjórnvöld hefji skipulegar aðgerðir til úrbóta á sviði ullarvinnslunnar, þá er það ekki neitt nýtt. Það eru aldir liðnar síðan stjórnvöld fóru að hafa afskipti af þeim málum. Ég vil rifja það upp til gamans, að í ferðabók Olaviusar segir frá tilraunum á vegum hins opinbera með vetrarrúningu sauðfjár. Þar segir m. a. að Jón Jakobsson sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu hafi látið klippa fé sitt um jólaleytið og gefið því inni allan veturinn og fengið með því móti helmingi meiri ull en áður, en þetta kostaði mikið fóður. Og svo segir orðrétt: „Af þessum sökum hefur konungi þóknast að láta fyrst um sinn hætta að gera tilraunir í þessu efni, uns fullkomnari reynsla er fengin!“ Þetta segir í konungsúrskurði frá 24. mars 1977: „En menn eru hvattir til að halda tilraunum áfram á eigin spýtur, einkum þeir, sem nægilegt fóður hafa, og þeir eru margir, jafnvel meðal bænda,“ segir þar. En þetta lýtur að því að þá gerðu menn ráð fyrir að það væru fyrst og fremst embættismennirnir sem þannig væri ástatt um að þeir gætu leyft sér að halda áfram þessum tilraunum. Þetta var sem sagt fyrir röskum 200 árum. Svo langt er síðan ríkisstj. eða stjórnvöld tóku að gefa gaum að gildi ullarinnar.

Nú er það spurningin, hvað stjórnvöld geta aðhafst í dag til þess að bæta meðferð og vinnslu íslenskrar ullar og ég held að það sé í rauninni býsna margþætt. Þá er fyrst að nefna að láta fram fara ítarlega og víðtæka rannsókn á þessu sviði. En margt fleira kemur til. Sitthvað er hægt að gera til þess að hafa heppileg áhrif á þróun mála nú þegar. Þar má nefna að húsvist fjárins hefur mikil áhrif á gæði ullarinnar. Rannsóknarstofnun landbúnaðarins hefur sótt um fjárveitingu til tilraunastarfsemi varðandi húsvistarmálin. Það hefur ekki enn þá fengist fé til þeirra hluta, enda ekki langt síðan þeir brutu upp á þessu. En það er áreiðanlega skaði, því það er mjög þýðingarmikið grundvallaratriði hversu ullin fer með sig meðan hún enn er á fénu og á þeim tíma sem fé er á húsi. Rúningstíminn hefur og ákaflega mikil áhrif og það ættu að vera miklu meiri möguleikar til þess nú en áður var, að maður nú ekki tali um fyrir 200 árum, að hagræða rúningstímanum.

Með ýmsu móti er hægt að hafa áhrif á það, t. d. með skynsamlegri verðlagningu á þessu þýðingarmikla iðnaðarhráefni, ullinni. Og þá kemur til flokkunin og ullarmatið. Alþ. hefur alveg nýlega sett löggjöf um það efni, þ. e. flokkun ullar og ullarmat, allítarlega löggjöf, sem nú þarf að framkvæma og e. t. v. þá að breyta og endurskoða eftir því sem reynslan gefur tilefni til. Þá ætti að vera unnt að stuðla að því með ýmsum hætti að ullarverksmiðjurnar leggi áherslu á sem fjölbreyttasta og vandaðasta framleiðslu á ullinni, þar sem séreinkenni þessa hráefnis yrði nýtt eftir því sem unnt er í verksmiðjuframleiðslu.

Þá er og mikils vert, og kannske meira virði en menn gera sér grein fyrir í fljótu bragði, að örva allt sem gæti heitið listiðnaður og handverk ýmiss konar úr íslensku ullinni, t. d. með því að stuðla að námskeiðahaldi eða annarri kennslu í meðferð ullar og ullarefna, svo að eitthvað sé nefnt. Þetta atriði var dálítið rætt, þegar ég var menntmrh., áhugamenn áttu viðræður við rn. um aukna kennslu í meðferð íslensku ullarinnar, en þær viðræður hafa ekki enn þá borið tilætlaðan árangur.

Loks vil ég svo nefna útflutningsstarfsemina. Það er ekki minnsta atriðið, að jafnframt því sem stuðlað væri að vaxandi framleiðslu úr ull og ullarefnum, betri framleiðslu og vandaðri, sé allt gert sem unnt er til þess að greiða fyrir útflutningnum og sölunni. Það fer ekkert á milli mála að hér er til nokkuð mikils að vinna. Útflutningur ullarvara er þegar orðinn umtalsverður, eins og glöggt hefur komið fram í fréttum að undanförnu, og skal ég ekki fara að rekja þær tölur hér. Ullariðnaðurinn gefur því nú þegar verulegan erlendan gjaldeyri í þjóðarbúið og veitir atvinnu og gefur tekjur ótrúlega mörgu starfsfólki. Ullarvinnslan er mikilsverður þáttur í því líka að efla jafnvægi í byggð landsins og renna stoðum undir atvinnugrein — útflutning sem eitt sinn var þýðingarmikill í verslun Íslendinga, en var nálega alveg niður fallinn um áratugaskeið, eins og hv. þm. munu kannast við. Ullin getur haft verulega þýðingu í sambandi við byggðajafnvægi, einfaldlega vegna þess að framleiðsla íslenskrar ullar og framleiðsla úr ull kostar ekki það miklar tilfæringar að það er tiltölulega auðvelt að koma henni við víða og í smærri einingum en ýmsum öðrum iðngreinum.

Ég vil svo að lokum minna á það, að Íslendingar hafa um sína daga mátt þola marga slorbáruna varðandi bjargræði sitt til lands og sjávar. Þrátt fyrir alla velmegun og velsæld nú á tímum er hér ekki lát á. Áföllin eru að vísu með öðrum hætti en áður var. Varðandi landbúnaðinn er of mikið framboð á mat: kjöti, mjólk og mjólkurvörum, þ. e. a. s. það er ekki unnt að selja þessar vörur á viðhlítandi verði. Svo í annan stað eru menn neyddir til að draga nokkuð við sig veiðar á ýmsum helstu nytjafiskum: síld, þorski og loðnu. Þetta er alveg nýtt í okkar sögu eða a. m. k. höfum við ekki staðið frammi fyrir því í neitt slíkum mæli sem nú. Þetta skýtur heldur skökku við, því alveg fram undir þetta var keppikeflið að rækta sem mest og framleiða sem mest og alveg eins að flytja sem allra mestan fisk að landi og ná sem mestri brúttóframleiðslu. Það hefur verið höfuðeinkenni á íslenskum atvinnurekstri, í megingreinum a. m. k., að hafa sem allra mest undir höndum, klófesta sem allra mest af gæðum lands og sjávar, en minna fengist um það að vinna hráefnið til sem mestra verðmæta. Nú verða menn nauðugir viljugir að hverfa frá þessari grundvallarstefnu, hvort sem um er að ræða veiði á sjó eða framleiðslu hinna hefðbundnu búvara, og þá hlýtur það að vera höfuðmarkmið framvegis að vinna okkar eigin innlendu hráefni til sem allra mestra verðmæta um leið og fullt tillit er tekið til markaðsástæðna að sjálfsögðu.

Ég held að það sé óhætt að segja að íslenska ullin er dæmigerð að þessu leyti. Bætt meðferð hennar frá fyrstu hendi og fyllsta alúð við úrvinnsluna, tóskapinn, fellur fullkomlega að því sem koma verður og koma skal almennt á sviði atvinnumálanna eða framleiðslunnar. En einmitt á þessu sviði hefur okkur orðið hrapallega á í messunni. Það sést ákaflega vel á því, að ullin, sem eitt sinn var einn helsti gjaldmiðill bændanna og jafnvel þjóðarinnar eða landsins út á við, hrapaði niður í það að verða nánast einskis nýt og svo lágt verðlögð að verðsins vegna borgaði sig varla að hirða lagðinn. Það hefur verið snúið við blaði að þessu leyti og ullariðnaðurinn er í sókn. Með þessari till. er lagt til að stjórnvöld taki til hendi, enda er áreiðanlega nauðsynlegt að fylgja þeirri þróun eftir, sem nú er byrjuð, bæði með stjórnvaldaaðgerðum og aðgerðum af hálfu almennings.

Ég legg til, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til atvmn.