20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

155. mál, verðmyndun á bensíni og olíum

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. alveg sérstaklega fyrir þessar upplýsingar. Þetta var nú meiri lesturinn. Ég ætla ekki að setja á langa tölu um þessi ósköp, mig skortir þrek til þess. En það er leki þarna í þessu öllu, ýmist í hafi eða geymsluleki, og þar sem peningarnir enda nú flestir, í ríkiskassanum, þar er allt míglekt. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðh., að hann telji óeðlilegt að ríkissjóður og olíufélög hafi af því stórtekjur, þegar sveiflan er svo hastarleg upp á við eins o,g við höfum haft fyrir augum núna á olíum og bensíni. Ég hvet enn fremur til þess, að þetta hrófatildur verði rifið að grunni og þetta endurskoðað allt saman. Hér er þetta upp sett til þess að leggja stig af stigi á álagningu til þess að ná peningum til eins eða annars. Þetta er heiftarleg skattlagning á landslýð. Það má enginn skilja það sem svo, að þessi gagnrýni beinist að hæstv. núv, ríkisstj., það er fjarri lagi. Þetta er eldgömul aðferð til þess að ná inn peningum í ríkissjóð og til þess að ESSO og Shell geti haft hæfilega afkomu: álagning á þessar vörur til þess að þau geti greitt landsútsvar sitt, álagning á þessar vörur til þess að þau geti greitt tugi millj. í beinum sköttum til hins opinbera.

Ég sem sagt þakka þessi greinargóðu svör, fagna því að sveifla upp á við verður ekki látin hvína á borgurum þessa lands, þeim sem nógu þungt stynja fyrir vegna kostnaðar við kyndingu húsa sinna, og hvet eindregið til þess að þetta verði allt saman eins og það leggur sig gegnumlýst og reynt að setja þetta upp af einhverri skiljanlegri skynsemi.