20.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3430 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

113. mál, umbætur í málefnum barna

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir og allir þm. Alþfl. standa að, felst að tekið verði á og gert átak á mörgum mikilvægum sviðum er varða hag og aðbúnað barna. Sú samstarfsnefnd, sem fengi þetta verkefni og í ættu sæti aðilar löggjafarvaldsins og ýmissa félagssamtaka, sem láta sig varða hag og aðbúnað barna, gæti, ef vel væri að staðið, markað mjög tímabæra stefnu sem varðar ýmis réttlætis- og mannréttindamál barna.

Þau atriði, sem drepið er á í grg., spanna yfir mörg mikilvæg svið og gætu stuðlað að aukinni velferð og umönnun barna. Í örri þróun þjóðfélagsins, sem fylgt hefur aukið lífsgæðakapphlaup, hafa börnin oft gleymst, gleymst að taka tillit til þarfa þeirra, aukin lífsgæði og velmegun oft fengist á kostnað þess öryggis sem þeim er nauðsynlegt í uppvexti og því skapað öryggisleysi margra barna. Slík þróun er mjög hættuleg og getur orðið einstaklingnum og þjóðfélaginu dýrari þegar fram í sækir en þó að einhverju þurfi að kosta til hvað varðar ýmsa þætti sem stuðlað gætu að aukinni velferð og öryggi þeirra í æsku.

Auðvitað er þarna um að kenna mörgum samverkandi þáttum. Sennilega vegur þar þyngst hið mikla vinnuálag sem er á mörgum fjölskyldum og þá kannske einkum foreldrum ungra barna sem eiga oft og tíðum í miklum fjárhagserfiðleikum fyrstu árin, meðan verið er að koma þaki yfir höfuðið, og einmitt á þeim tíma þegar börnin þurfa hvað mest á foreldrum sínum að halda. Samfara örri verðbólgu verður því með ári hverju erfiðara að framfleyta hverri fjölskyldu á dagvinnutekjum þess foreldris, sem úti vinnur, og vinnuálagið eykst stöðugt og rekur oft og tíðum báða foreldrana út á vinnumarkaðinn, burt frá uppeldi barnanna, burt frá því að geta sinnt þroska þeirra eins og börnin eiga kröfu til. Kannske ekki aðeins yfir daginn, heldur iðulega líka kvöldin og helgarnar sjá börnin ekki annað eða bæði foreldranna sökum vinnuálags. Og verst bitnar þetta á börnum láglaunafólks, fólksins sem mest þarf á sig að leggja til að framfleyta fjölskyldunni. En þjóðfélagið hefur ekki fylgt eftir þróuninni með því að skapa öllum þeim börnum, sem þurfa á því að halda, viðunandi aðstöðu og öryggi, þegar verðbólgan og þjóðfélagsþróunin ýtir foreldrunum meira og meira út á vinnumarkaðinn.

Það er óþarfi að hafa um þessa þáltill. langt mál, svo mjög liggur í augum uppi hve brýn nauðsyn er á umbótum á mörgum sviðum til þess að tryggja hag og aðbúnað barna sem stuðlar að auknu öryggi og nauðsynlegri umhyggju sem þau þurfa á að halda. Ýmis þau ákvæði, sem nauðsynlegt væri að nefnd sú tæki til athugunar, sem þáltill. gerir ráð fyrir, og nefnd eru í grg. till., þurfa ekki að hafa mikinn kostnað í för með sér, þó að ég geri mér fyllilega grein fyrir að ýmsar till. kosti nokkurt fjármagn.

En í forgangsröð þeirra verkefna, sem framkvæmd kunna að verða til að vernda hag barna, verða að vera framkvæmdir sem geta stuðlað að því að draga úr því öryggisleysi sem mörg börn hafa þurft að búa við samfara örri þjóðfélagsþróun sem fylgt hefur lífsgæðakapphlaup, oft á kostnað þeirra sem síst skyldi, barnanna. Í grg. er einmitt bent á mörg atriði sem hafa geysilega þýðingu varðandi það atriði og hag barna og aðbúnað almennt og mætti, ef vilji og áhugi væri fyrir hendi, hrinda í framkvæmd án mikils tilkostnaðar. Því vona ég að þessi þáltill. fái greiða afgreiðslu hér á hv. Alþingi.