20.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3435 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

157. mál, Skipaútgerð ríkisins

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 246 hef ég ásamt hv. þm. Kjartani Ólafssyni leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj., að í þeirri endurskipulagningu á starfsemi og rekstri Skipaútgerðar ríkisins, sem fyrirhuguð er, verði að því stefnt að fyrirtækinu verði skipt í tvær deildir: Austurlands- og Vestfjarðadeild með aðsetri á Reyðarfirði og Ísafirði. Skal um þetta atriði tekið mið af till. stofnananefndar frá árinu 1975 og frv. hér að lútandi lagt fram þegar á næsta þingi.“

Það má segja að hér sé um einn þátt að ræða í stóru máli — máli sem þarf vissulega að halda vakandi. Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan birt var álit svokallaðrar stofnananefndar, ítarlegt álit um möguleika á flutningi ríkisstofnana út á landsbyggðina, skiptingu á vissum stofnunum í ákveðnar deildir eða útibú frá ákveðnum stofnunum. Í sambandi við það álit hefur verið nokkuð unnið, sérstaklega við þá endurskoðun sem síðasta hæstv. ríkisstj. lét fara fram á því, af tveimur hv. þm. þá. En sannleikurinn er sá, að þetta álit hefur um of gleymst. Þetta álit var, hvað sem menn vilja um það segja að öðru leyti, vel unnið að því leyti til að álits var víða leitað og samráð haft við hina einstöku aðila eins og kostur var og reynt að koma fram með rök bæði með og móti hinum einstöku liðum sem urðu svo niðurstaðan í áliti nefndarinnar. Ég verð að segja að mér þætti allhart ef sú mikla vinna færi til einskis með öllu, og mér dettur það raunar ekki í hug. Ég hef spurt um það áður, hvað í þessu eigi að gera. Mér hefur virst sem um of væri um áhugaleysi æðstu stjórnvalda að ræða að taka á þessu máli í heild eins og t. d. nágrannar okkar hafa gert með góðum árangri.

Hér er auðvitað um að ræða fyrst og fremst spurninguna um dreifingu á valdi og dreifingu á þjónustu, sem er um leið einn veigamesti þátturinn til byggðajafnvægis hér á landi. Ég tel að frumskilyrði þess, að hér sé rétt að staðið, sé að tekið sé skipulega á þessu verkefni. Einstök rn. hafa tekið góð spor í þessu efni. Ég minni t. d. á útibúin frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnun sem ákveðin voru í tíð hæstv. fyrrv. sjútvrh. Lúðvíks Jósepssonar. Einnig nefni ég ýmsar stofnanir, sem hafa gert verulegt átak í þessu efni og Vegagerð ríkisins er kannske gleggst dæmi um, þó að okkur sumum hverjum þyki að þeir mættu færa meira vald út í þessar stofnanir en nú þegar er þar komið og séu enn með of mikið miðstýringarvald í Reykjavík. En mér er ljóst að þó að þarna sé vel að unnið í einstaka tilfellum þarf að verða um heildstætt átak að ræða.

Ekki skal ég vera talsmaður þess að rasað sé að neinu um ráð fram, og álitið sjálft er ekki þann veg upp byggt, þó að ákveðin tímasetning hafi verið sett á hugsanlegan flutning stofnana og hugsanlega útibúa- og deildaskiptingu. Ég held nefnilega að þrátt fyrir allt hafi verið viss varfærni ríkjandi í sambandi við þetta álit, þótt að ákveðnu marki væri þar stefnt, alveg sérstaklega ef litið er til þess hvað nágrannar okkar, t. d. bæði Norðmenn og Svíar, hafa gert róttækar breytingar í þessu efni með tilfærslu valds og þjónustustofnana út á landsbyggðina hjá sér, sem hefur í raun ráðið miklu um aukið byggðajafnvægi í þessum þjóðlöndum.

Við vitum auðvitað ósköp vel, að það er tregða í öllu stjórnkerfinu til breytinga í þessa átt. Embættismennirnir vilja ekki mikla röskun. Þeir eru hræddir við að fara héðan burt, af þessu hitaveitusvæði, kannske eitthvað út á köldu svæðin, og þeir vita jafnvel að aðstaðan er langbest hér, sbr. ágætan forstöðumann ríkisstofnunar sem við var rætt um stað einn úti á landi sem við vorum með till. um að kæmi ákveðið útibú á. Staðurinn er Ólafsvík. Hann sagði: „Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að bjóða mönnum, sem eru með börn á menntaskólaaldri, að fara vestur í Ólafsvík?“ Hann sagði þetta í fullri alvöru, en láðist auðvitað að hugsa um þá menn sem búa í Ólafsvík og búa í hinum mörgu Ólafsvíkum landsbyggðarinnar og eiga börn á þessum aldri og eiga að sækja hina ýmsu þjónustu allt um of hingað á suðvesturhornið.

Ég veit að það má ekki ganga með öllu yfir vilja þessara manna eða skoðanir þeirra í þessu efni. En það er líka hart ef þær skoðanir eiga að vera ráðandi, eins og mér fannst um sumt vera í áliti þeirra tvímenninga í fyrra sem kom upp þetta mál, hv. þm. Ellerts Schram og hv. þm. Ingvars Gíslasonar. Mér þótti þeir um of í því efni taka tillit til þess sem embættismenn hinna einstöku stofnana höfðu um málið að segja, sem voru í viðtölum við okkur nm. á sínum tíma og auðvitað andvígir hvers konar breytingum og máttu helst ekki heyra neina röskun nefnda, nema þá einhver tiltölulega meinlaus útibú, sem réðu helst engu, eða deildir, sem hefðu ekki allt of mikið verkefni. Hér verða að koma til skipulegar, markvissar aðgerðir stjórnvalda, og auðvitað verða þær að vera byggðar á raunsæju mati.

Á eitt legg ég þarna höfuðáherslu, eins og ég hef gert frá því að þetta álit kom fram. Ég held að það verði ekkert marktækt í þessu gert fyrr en hinu svokallaða flutningsráði ríkisstofnana eða einhverri slíkri stofnun verður komið á. Ég gerði mér sannarlega vonir um að frv. þar að lútandi sæi dagsins ljós á þessu þingi frá hæstv. enn verandi ríkisstj., en það fer nú kannske að verða vonlítið um að það gerist. Ég mun því ásamt með öðrum flytja málið í einhverju formi á þingi næstu daga, ef engin hreyfing verður sjáanleg. Reynsla nágranna okkar er slík, eins og margoft hefur verið bent á, að það væri óeðlilegt við okkar aðstæður og við okkar miklu byggðaröskun, sem hefur orðið á undanförnum áratugum, ef við gerðum ekki eitthvert skipulegt átak í þessu efni.

Þess ber líka að gæta, að í kjölfar þeirrar atvinnuuppbyggingar, sem óneitanlega hefur orðið víða úti á landsbyggðinni, hljóta að þurfa koma til ákveðin átök einmitt á sviði félagslegrar þjónustu og jöfnunar á lífskjörum að öðru leyti.

Um þessa till. vil ég aðeins segja það sem segir í grg., að á síðasta þingi var einmitt samþ. till. um almennan stuðning við alhliða uppbyggingu og eflingu Skipaútgerðar ríkisins, að nokkru eftir þeim hugmyndum sem framkvæmdastjóri hennar er uppi með og áætlanir hafa verið um, sem byggjast fyrst og fremst á endurnýjun skipakosts útgerðarinnar og gerbreyttum afgreiðsluháttum. Ef af framkvæmd þessara áætlana, sem þarna eru í gangi og Alþ. hefur lýst stuðningi við, ætti þjónustan við íbúa landsbyggðarinnar að verða betri og í kjölfar þeirrar bættu þjónustu kæmi líka betri og öruggari vörudreifing og afleiðing því minni flutningskostnaður og lægra vöruverð, sem við gerum okkur grein fyrir að þurfi líka að koma til með öðrum hætti en hjá þessu eina fyrirtæki.

Í þessari endurskipulagningu viljum við sem sagt að þessi kostur sé skoðaður. Flutningur þessarar starfsemi jafnt sem miðstöðva fyrir hana að því er tekur til heimahafnar skipanna tveggja, eins og gert er ráð fyrir í áliti stofnananefndar, er mjög veigamikið atriði fyrir viðkomandi staði. Hér er um aðalhafnir þessara tveggja landshluta að ræða, — þeirra landshluta sem við erfiðasta og dýrasta flutninga búa og um leið við hæst vöruverð, svo sem könnun, sem framkvæmd var, trúi ég það hafi verið, af byggðanefnd, leiddi mjög glögglega í ljós. Aðsetur hinna tveggja deilda á þeim stöðum gæti tvímælalaust haft jákvæð áhrif einnig á rekstur Skipaútgerðar ríkisins til hagsbóta fyrir landsbyggð alla. Við teljum líka að það sé margvíslegt hagræði að þessari skipan, að aukinni hlutdeild þeirra aðila í rekstrinum sem þjónustunnar eiga að njóta, til viðbótar við þá búsetuþýðingu sem þessi skipan hlýtur að hafa í för með sér.

Ég geri mér alveg ljósa þá annmarka sem eru á flutningi stofnana út á land, deilda- og útibúaskiptingu. En þýðing slíkra útibúa, slíkra deilda og slíks stofnanaflutnings er svo ótvíræð að ekki þarf að víkja nánar að því. Fordæmi granna okkar á Norðurlöndum er, eins og ég sagði áðan, gleggst þar til vitnisburðar.

Ég hef tekið þetta mál út úr, ekki af því að ég telji það alveg sérstaklega í brennidepli varðandi þau mörgu mál eða mörgu atriði sem stofnananefnd lagði til á sínum tíma, heldur kannske vegna þess að málefni þessa fyrirtækis, Skipaútgerðar ríkisins, eru nú í mikilli athugun. Því tel ég rétt að hreyfa því sem segir í áliti stofnananefndar, og ég vil leyfa mér að lesa það upp og láta vera mín lokaorð. En í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Skipaútgerð ríkisins skiptist í strandferðadeild, landhelgisgæsludeild og hafrannsókna- og fiskirannsóknadeild: tvær síðarnefndu deildirnar annast skipakost viðkomandi stofnana og tengjast því fyrst og fremst starfsemi þeirra. Nefndin fjallar þess vegna hér fyrst og fremst um strandferðadeild sem aðallega fæst við vöruflutninga til og frá landsbyggðinni, einkum Vestfjörðum og Austfjörðum.

Starfsemi Skipaútgerðar ríkisins hefur dregist mjög saman á síðari árum og þjónar stofnunin nú aðallega þessum tveimur landshlutum. Þar eð þessi tegund starfseminnar er einkum hagsmunamál tveggja landshluta, leggur nefndin til að strandferðadeild verði skipt í tvo hluta, Vestfjarðadeild og Austfjarðadeild, sem fái aðsetur á Ísafjarðarsvæði og Austfjarðasvæði. Deildirnar fái hvor fyrir sig ákveðin skip til umráða sem annist flutninga innan þessara landshluta og við aðra landshluta, einkum Reykjavík og Akureyri. Deildum verði veitt verulegt sjálfstæði við rekstur skipanna. Í Reykjavík verði áfram afgreiðsla og vörugeymsluhús. Nefndin telur eðlilegt að sú starfsemi, sem einkum á að þjóna ákveðnum landshlutum, hafi aðsetur í þeim. Nefndin leggur jafnframt til að aðrir þættir í starfsemi stofnunarinnar hafi óbreyttan aðsetursstað. Gera má ráð fyrir að við skiptingu strandferðadeildar muni auk áhafna skipanna 5–10 menn fylgja hvorri deild, Vestfjarðadeild og Austfjarðadeild. Nefndin telur að slíkur flutningur muni færa stjórn flutninganna nær hagsmunum viðkomandi landshluta og þannig hafa fjölþætt áhrif á viðfang margvíslegrar starfsemi á þessum svæðum. Kostnaður við slíkar breytingar væri einkum fólginn í útvegun skrifstofuhúsnæðis. Á móti kæmi minni þörf stofnunarinnar fyrir slíkt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.“

Í lokin er svo bent á þá staðreynd, að einn þeirra nm., er að þessu áliti standa, er einmitt núverandi forstöðumaður byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, Bjarni Einarsson, en flm. telja mjög eðlilegt að fela byggðadeildinni að vinna að þessu verkefni ásamt auðvitað viðkomandi rn. og stofnuninni sjálfri.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að óska þess, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.