21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3442 í B-deild Alþingistíðinda. (2690)

200. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 385 flyt ég fyrir hönd ríkisstj. frv. til l. um breyt. á lögum nr. 94 29. des. 1962, um almannavarnir, sbr. lög nr. 30/1967, um breyt. á þeim lögum.

Í raun og veru er hér um að ræða að lögfesta framkvæmd sem verið hefur hjá almannavörnum undanfarin ár.

Lög um almannavarnir voru fyrst sett 1962, en þeim síðan breytt 1967. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að í almannavarnaráði sitji landlæknir, lögreglustjórinn í Reykjavík, póst- og símamálastjóri og vegamálastjóri. Jafnframt er gert ráð fyrir að forstöðumaður stofnunarinnar sitji í almannavarnaráði og sé hann formaður þess.

Fljótlega kom í ljós, að mjög er nauðsynlegt að forstjóri Landhelgisgæslunnar eigi sæti í almannavarnaráði. Þarf ekki að benda hv. þm. á þá nauðsyn t. d. í sambandi við hafís og hvers konar aðgerðir á sjó sem nauðsynlegar kunna að vera í slíku sambandi. Því var horfið að því ráði 1968 að skipa forstjóra Landhelgisgæslunnar sem forstöðumann atmannavarna og hlaut hann þannig sæti í almannavarnaráði. Hitt er svo jafnljóst, að allir þeir fimm menn, sem þarna eiga sæti, stjórna stórum og miklum stofnunum og fá að sjálfsögðu ekki sinnt hinum daglegu störfum á vegum almannavarnaráðs. Því var ráðinn fulltrúi til þeirra hluta og má segja að hann hafi í raun gegnt forstjórastarfinu.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir að í almannavarnaráði sitji fimm menn, þ. e. a. s. til viðbótar þeim fjórum, sem ég taldi áðan, komi forstjóri Landhelgisgæslunnar, en jafnframt að sérstakur forstöðumaður almannavarna verði ráðinn og eigi hann ekki sæti í almannavarnaráði, þó að sjálfsögðu undirbúi hann mál og leggi fyrir ráðið. Um þetta fjallar 1. gr. frv. og síðari málsgr. 2. gr.

2. gr. frv. flytur einnig það verkefni, sem í gildandi lögum er falið forstjóra almannavarna, yfir til almannavarnaráðs. Það má segja að þarna sé verið að staðfesta þá framkvæmd sem verið hefur. Forstjóri almannavarna hefur og verið formaður almannavarnaráðs, og hefur almannavarnaráð fjallað um allar aðgerðir almannavarna, ekki eingöngu í neyðartilfellum sem hafa komið, heldur einnig í sambandi við undirbúning, skipulag o. s. frv.

Þetta eru þær breyt., sem hér er um að ræða, og ég tek það fram, að þær eru að sjálfsögðu fluttar í fullu samráði við og reyndar samkv. ósk almannavarnaráðs.

Langt mál mætti flytja um starfsemi almannavarna. Ég hygg þó að flestum sé kunnugt að þar er gott starf unnið. Það hefur komið í ljós í þeim náttúruhamförum sem hér hafa orðið síðustu árin, t. d. í Vestmannaeyjum og við Kröflu, þar sem almannavarnaráð hefur skipulagt varnaraðgerðir.

Almannavarnaráð er til húsa í kjallara lögreglustöðvarinnar nýju og hefur komið sér þar upp vel úfbúinni miðstöð með fjarskiptum og annarri aðstöðu til þess að hafa stöðugt samband við alla hluta landsins, jafnvel þótt hið almenna fjarskiptakerfi bili. Engu að síður er það vaxandi áhyggjuefni að til almannavarna verjum við Íslendingar litlu fé og þar eru ákaflega stór verkefni enn óunnin, þótt góður grundvöllur hafi verið lagður með því skipulagi sem á er komið með almannavarnanefndum um land allt og stöðugu sambandi við heimamenn um þau málefni.

Ég get getið þess til fróðleiks, að Svisslendingar, sem verja nú mestu til almannavarna, verja til þeirra tæplega 11 þús. kr. á hvern mann, en við Íslendingar um 165 kr. Þar er náttúrlega ekki jöfnu saman að líkja. Þeir eru þarna langsamlega hæstir, en við hins vegar með þeim lægri.

Vafalaust þarf að auka fjárframlög og vinna ýmis verkefni sem óleyst eru. T. d. liggja nú fyrir ítarlegar till. frá almannavarnaráði um rannsóknir og skipulagsmál vegna þeirrar hættu sem að steðjar af Suðurlandsjarðskjálfta. Þar er um víðtækar jarðfræðilegar rannsóknir að ræða og byggingafræðilegar rannsóknir, sem eru — ef ekki nauðsynleg, þá a. m. k. mjög æskileg undirstaða þess að setja reglur um byggingar á þessu svæði, þess að skipta þessu svæði í mismunandi mikil hættusvæði og gera, eins og ég sagði áðan, kröfur um byggingarstaðla.

Einnig er gert ráð fyrir með þessum rannsóknum að afla upplýsinga um það, hvernig spá megi betur en nú hefur verið talið unnt fyrir um jarðskjálfta og um eldgos. Hér á landi hefur ákaflega mikill fróðleikur safnast saman um þessi efni á undanförnum árum og við Íslendingar erum að öllum líkindum í forustu í jarðfræðilegum spám um slíkar náttúruhamfarir. Ég efast ekki um að þarna getum við miðlað öðrum þjóðum. Engu að síður er þarna mikið verk enn þá óunnið og ætti að vera okkur til sóma að vinna það vel og miðla því, auk þess sem það er nauðsynlegt til frekari og ítarlegri ráðstafana gegn þeim hættum sem þarna blasa við.

Þetta nefni ég sem dæmi um starf almannavarnaráðs utan hættutíma. Þar fer sem sagt stöðugt fram mjög mikilvægt starf að skipulagningu aðgerða og að söfnun frekari vitneskju og upplýsinga um þessi miklu og stóru mál.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt, þó þar mætti, eins og ég sagði áðan, margt um segja, en vildi þó hafa þessar stuttu skýringar með þessu frv. sem eru fyrst og fremst staðfesting á því sem verið hefur í framkvæmd undanfarin 10 ár.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr og hv. allshn.