01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

53. mál, verðjöfnunargjald af sauðfjárafurðum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki lagt í vana minn að eyða miklu af tíma hv. deilda eða Alþingis þegar landbúnaðarmál hefur borið á góma. En skýringin á því, að ég stend hér upp, er sú, að ég hef ekki tækifæri annars staðar á þingi en hér að leita mér upplýsinga um þau mál sem ég tel mig þurfa að fá til að gera upp hug minn þegar mál koma til lokaafgreiðslu í þessari hv. deild eða annars staðar.

Ég vil benda hv. alþm. á það, að Framleiðsluráð landbúnaðarins er nefnd framleiðendanna sjálfra. Það er ekki ríkisskipuð nefnd, það er nefnd framleiðendanna sjálfra. Síst ætla ég að lasta það, að álagningin sé frjáls og framleiðendur og atvinnurekendur segi til um hvað þeir þurfi að fá til þess að standa undir eðlilegum kostnaði við framleiðsluna að sjálfsögðu afskriftum og hagnaði. En ég vildi fá staðfestar upplýsingar, sem ég hef fengið, og því vil ég spyrja hæstv. landbrh.: Er það rétt, að álagning, þ.e.a.s. söluþóknun eða „kommission“, ef maður orðar það eins og það er þekktast, sé greidd af kostnaðarverði landbúnaðarafurða, en ekki af því verði sem fæst fyrir vöruna? Segjum sem svo, ef landbúnaðarafurðir kosta 100 kr. í framleiðslu, en seljast á 25 krónur, einn fjórða eða helming af kostnaðarverði, að útflutningsaðilinn, sem sagt umboðsmaður þeirra útlendinga sem kaupa af okkur niðurgreidda vöru og er þá íslenskur aðili, fái þá umboðslaun af 100% kostnaðarverði. Þetta hlýtur að þýða, ef rétt er, að umboðslaunagreiðsla á sér stað af því fé sem er niðurgreiðsla af vörunni. Því spyr ég: Er þetta rétt eða er þetta rangt? Ég óska eftir að fá svar við þessu að gefnu tilefni, því að í greinargerð með þessu frv. segir:

„Vegna vaxandi framleiðslu og sölu innanlands á sauðfjárafurðum hefur orðið að innheimta verðjöfnunargjald af framleiðslu sauðfjárafurða bænda fráhaustinu 1977 sem er áætlað að muni nema um 1300 millj. kr.

Verðábyrgð ríkissjóðs á útfluttum sauðfjárafurðum, sem fer eftir 12. gr. laga nr. 101/1966, um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., hefur reynst lægri en þurft hefur fyrir framleiðslu sauðfjárafurða haustið 1977 sem áðurnefndum mismun nemur, og hefur Framleiðsluráð landbúnaðarins orðið að grípa til töku verðjöfnunargjalds af grundvallarverði sauðfjárafurða til bænda til að greiða með útflutningnum.“

Ef það er rétt, að inn í þennan útflutningskostnað komi þessi umboðslaun til útflytjenda sem ég var að gera hér að umræðuefni, þá er þetta stóralvarlegt mál. Það getur vel verið að þetta sé allt löglegt. Það getur vel verið að það sé í lögum, að það eigi að greiða útflytjendum umboðslaun af hærri upphæð en þeir útvega fyrir vöruna erlendis frá. En ef svo er, þá þarf að leiðrétta þetta og þá gætu þessar álögur, jöfnunargjaldið, sem við erum að tala um, orðið lægri en ella.

Þetta er ákvæði í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., og miðað við það, sem við höfum lesið um landbúnaðarmál frá sumum samstarfsflokkanna innan ríkisstj., hefði ég gjarnan viljað heyra frá þeim aðilum innan ríkisstj., sem mest hafa skrifað á móti núverandi landbúnaðarstefnu, hvort þeir hafi gert sér ljósa grein fyrir því, hvað hér er um að vera, ef upplýsingar mínar eru á einhverjum rökum reistar. Ég endurtek: Ég spyr hér í ræðustól vegna þess að ég hef ekki tækifæri til þess að spyrja á hv. Alþ. sem alþm. á neinum öðrum vettvangi.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, að að sjálfsögðu á að tryggja það, að bændur eins og allir aðrir starfshópar í landinu njóti mannsæmandi lífsviðurværis, og það gæti verið liður í því að sjá um að bændur hafi mannsæmandi lífsviðurværi, að landbúnaðarafurðir séu ekki of dýrar í meðförum milliliða heima hjá okkur sjálfum, og á ég þá sérstaklega við það sem flutt er úr landi. Sé svo, að það séu einhverjir fleiri álíka kostnaðarliðir og þessi sem ég var að tala um sem eru faldir í vöruverðinu frá því að það myndast heima í héraði og þangað til það er komið til þeirra aðila erlendis sem neyta vörunnar, þá þarf að athuga það um leið. Er hægt að gera eitthvað annað en að halda áfram að bæta álögum, sköttum á okkar útflutningsafurðir?

Þetta er í aðalatriðum það sem ég vildi gjarnan varpa fram sem fsp. til hæstv, landbrh. núna. Ef hann er ekki tilbúinn að svara þessari spurningu nú þegar, þá skil ég það. Ég legg enga áherslu á að hann geri það á þessum fundi, en að hann svari því þá hér úr ræðustól við 2. umr. þessa frv.