26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3593 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka þetta tækifæri til þess að fá að vekja athygli utan dagskrár á málefni, sem ég tel okkur varða miklu og snertir að nokkru leyti þá fsp., sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, en einnig snertir hún nokkuð samgöngur.

Hafís er nú landfastur fyrir nær öllu Norðausturlandi og minnir okkur Íslendinga óþyrmilega á þær hættur og erfiðleika sem honum geta fylgt. Hafísinn hefur lokað höfnum á Norðausturlandi, stöðvað fiskveiðar og flutninga á sjó. Áður en langt um líður getur hann valdið mjög alvarlegum samdrætti í öllu atvinnulífi á þessu landssvæði. Löng vera hans við landið getur einnig haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í sjávarútvegi og fyrir atvinnulíf landsmanna almennt.

Áður en ísinn lagðist að Norðausturlandi hafði fiskafli glæðst mjög og var rígaþorskur algengur í afla togara og báta og eins og oft áður fiskaðist drjúgt við ísröndina. En nú hafa bátarnir orðið að hætta veiðum og svo snögglega lagðist ísinn að, að margir töpuðu netum og hafa þannig einstaklingar orðið fyrir talsverðu tjóni.

Nú er þegar farið að bera á verulegum hráefnisskorti í fiskvinnslustöðvum norðaustanlands og svo getur farið að vinna leggist þar alveg niður, a. m. k. um stundarsakir. Það er þó mun alvarlegra að margir bátar hafa flúið hafíssvæðið og haldið til veiða sunnan við land og vestan við land. Það er hætt við að þessir bátar snúi ekki til heimahafna á þessari vertíð.

Á Norðausturlandi er mikill uggur í mönnum vegna þessarar þróunar og ekki að ástæðulausu. Auk þessara frátafa eru fram undan margvíslegar veiðitakmarkanir, t. d. stöðvun þorskveiða um páskana. Af þessum sökum verða stjórnvöld nú að taka í taumana. Að vísu geta þau ekki ýtt eða rutt ísnum á brott, en þau geta veitt bátum á þessu landssvæði undanþágu til veiða, svo bæta megi það tjón sem hafísinn hefur þegar valdið og á eftir að valda.

Þeirri ósk er hér úr ræðustól komið á framfæri við stjórnvöld, að þau kanni þetta mál þegar í stað og kanni það vandlega. Það er nauðsynlegt að sjómenn og landverkafólk fái að vita sem fyrst til hvaða ráðstafana verður gripið. Fáist ekki vilyrði fyrir einhverjum undanþágum er hætt við að fleiri bátar fari frá heimahöfnum á Norðausturlandi og suður fyrir land. Þar með er mjög verulegu atvinnuleysi boðið heim á allra næstu dögum og vikum.

Það er þegar ljóst, að bæði Vestfirðingar og Norðlendingar verða að taka á sig talsverðar byrðar vegna fyrirhugaðra takmarkana á þorskveiðum. Slíkt jafngildir auðvitað tekjurýrnun, ekki aðeins sjómanna, heldur einnig landverkafólks sem byggir afkomu sína á fiskveiðum. Ef það bætist svo ofan á þetta að hafísinn dragi verulega úr afla báta á Norðurlandi eystra kemur ekki til greina að það tjón verði óbætt. Í þessu tilviki verður að líta á hafísinn sem hverjar aðrar náttúruhamfarir og það tjón, sem hann veldur, verður þjóðin öll að bera. Verði tilfinnanleg aflaminnkun umfram það sem eðlilegt getur talist er það einfalt réttlætismál að veita undanþágu til veiða frá þeim reglum sem nú hafa verið ákveðnar.

Það er von mín að stjórnvöld sjái sér fært að kanna þessi mál vandlega á næstu dögum og taka ákvarðanir er komið geta í veg fyrir alvarlegri samdrátt í atvinnulífi í þessum landshluta en þegar er orðinn og verður á næstu vikum ef ísinn lónar ekki frá landi. Mér þætti mjög vænt um ef hæstv. sjútvrh. gæti gefið upplýsingar um afstöðu sína og hugsanlega afstöðu ríkisstj. til þessa máls. Þá tel ég að stjórnvöld þurfi þegar í stað að kanna hvort ekki gæti verið hagkvæmt að greiða fyrir flutningum á fiski á landi frá íslausum höfnum til staða sem nú eru algjörlega lokaðir inni. Það hlýtur að vera tiltölulega einfalt reikningsdæmi, hvort hagkvæmara er að greiða fyrir slíkum flutningum eða borga mjög verulegar atvinnuleysisbætur.

Sem dæmi vil ég að lokum, herra forseti, nefna það, að á Þórshöfn á Langanesi er frystihúsið hráefnislaust og svo er að verða um fleiri frystihús á Norðurlandi eystra. Í morgun voru 70 manns á atvinnuleysisskrá á Þórshöfn. Það væri unnt að fá fisk af togurum og bátum, sem lönduðu t. d. á Vopnafirði, og flytja hann 80 km veg yfir til Þórshafnar. Þannig mætti koma í veg fyrir atvinnuleysi og þannig mætti koma í veg fyrir veruleg útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs og það kvalræði sem atvinnuleysinu fylgir.

Ég vil því í þessu sambandi beina þeirri spurningu til hæstv. samgrh., hvort hann hafi nokkuð íhugað þessi mál og hvort þessi möguleiki er yfirleitt fyrir hendi.