27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3608 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla af fremsta megni að verða við fram kominni ósk um að halda mig við þær tvær spurningar sem bornar voru fram utan dagskrár, enda hef ég ekki verið sjútvrh.

Ég er þeirrar skoðunar, að ýmsir menn, við nefnum engin nöfn til þess að valda ekki misskilningi, sem hrökkva upp núna og barma sér yfir því að gerðar verði ráðstafanir til þess að draga úr þorskveiðum á landi hér í vetur, hefðu gjarnan mátt hugsa dálítið út í þetta sem fyrirsjáanlegt var, þegar þeir greiddu atkv. gegn till. á þingi fyrir tiltölulega fáum dögum um að segja upp gildandi samningum við útlendinga um heimildir til botnfiskveiða á Íslandsmiðum. Annaðhvort eru menn örlátir í hjarta sínu og væla þá ekki á eftir yfir því að hafa gefið ellegar að þeir sýna þá samhaldssemi sem hæfir góðum búmönnum, sem harka þá af sér og bera sitt barr þegar þar að kemur.

Ég er þeirrar skoðunar persónulega, að hæstv. sjútvrh. hafi gefið okkur ónýt svör áðan við báðum spurningunum sem fram voru bornar. Hæstv. sjútvrh. afsakar sig ekki með því að taka nú mið af því sem gert var 1978 í þorskveiðileyfum til loðnuveiðibáta við þær aðstæður þegar ekki voru settar takmarkanir við þorskveiðum í líkingu við það sem nú er. Það hefur þegar komið fram á þessari vertíð í góðri fiskgengd, að ef gæftir haldast — það er alltaf stór spurning — sæmilegar á þessari vetrarvertíð verður hægt með þeim skipaflota, sem nú er haldið úti, að taka mjög verulegan hluta af þessum 280–290 þús. tonnum, sem leyfa á veiðar á af þorski á þessu ári, hér sunnanlands fyrir lok vetrarvertíðar. Verður þá lítið til skipta það sem eftir er ársins.

Ég átta mig ekki almennilega á því af máli hæstv. sjútvrh., með hvaða hætti hann ætlast til þess að framfylgt verði þessu herta eftirliti með netaveiðum fyrir Suðurlandi. Ég vildi gjarnan að hann segði okkur frá því, með hvaða hætti á að tryggja að loðnuskipin komi ávallt með netin með sér að landi þegar landað verður. Hver verður það sem telur net um borð í þessi fiskiskip? Eiga þau að standa skil á netum við vertíðarlok því til sönnunar að ekki hafi verið fleiri net í notkun en heimildir eru fyrir um? Um þetta hefur verið rætt áður æ ofan í æ og mér er ekki kunnugt um að sú siðbylting hafi orðið í netaveiðunum fyrir Suðurlandi frá því ég þekkti þar dálítið til, að við getum reiknað með að útgerðarmenn og fiskiskipstjórar leggi hönd á helga bók og sverji, svo Tómasar hinir trúlausu geti trúað a. m. k., upp á netafjöldann sem þeir hafa verið með hverju sinni.

Eftirlit með því að dregið verði daglega, — það hefur verið talað um það árum saman á netavertíðinni hér syðra að tryggja að dregið sé daglega. Svörin við þeirri kröfu hafa verið ákaflega einföld og það hefur ekki verið hægt að mæta gegn þeim. Það er ekki hægt að tryggja, að dregið sé daglega, af þeirri einföldu ástæðu að veður leyfa það oft og tíðum ekki.

Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar áðan, er hann sagði okkur frá prýðilegri fyrirhyggju sinni í sambandi við þá vá sem norðlenskum fiskimönnum er nú búin af hafísnum, viðræðum sínum við hæstv. forsrh. um þau mál. Hann sagði okkur að hæstv. forsrh. hefði sagt honum það sem hann hygðist fyrir um úrlausn á vandamálum Norðlendinga ef svo skyldi nú fara að mjög verulegur hluti af þeim þorski, sem leyft verður að veiða í vetur, verði tekinn hér syðra á vetrarvertíð meðan þeir verða sjálfir ísbundnir í höfn og komast ekki til veiða. Í þeim fyrirætlunum, sem prentaðar hafa verið eftir hæstv. sjútvrh. um ráðstafanir til verndar þorskstofninum, er drepið á að takmarkaðar kunni að verða netaveiðar á næsta sumri annars staðar og þá m. a. fyrir Norðurlandi. Okkur, sem þekkjum til útgerðar frá Eyjafjarðarhöfnunum og vitum að verulegur hluti af þeim fiskafla, sem berst á land við Eyjafjörð, er tekinn í net á smáum bátum að sumrinu, liggur sú spurning mjög á tungu, með hvaða hætti því fólki, sem á afkomu sína undir útgerð þessara litlu báta, verði séð farborða á næsta sumri. Nú bætist það vandamál, sem stafar af hafísnum á miðunum fyrir norðan, ofan á. Vildi ég óska þess af hæstv. sjútvrh., að hann segði okkur þm. nú millimunnalaust það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði að hæstv. forsrh. hefði haft eftir hæstv. sjútvrh. í þá veru að við ættum nokkra vissu í því að hagsmunum þessa fólks þarna fyrir norðan yrði séð farborða á næsta sumri. Það er ákaflega þýðingarmikið að þetta komi fram ljósum orðum af munni hæstv. sjútvrh. sjálfs.

Ég veit ekki hvort ég ætti að fara ítarlega út í það mál hér úr ræðustól, með hvaða hætti væri hægt að leysa úr hinni brýnustu þörf fiskiðjuveranna á Norðausturlandi, þ. e. a. s. á Þórshöfn og á Raufarhöfn, fyrir hráefni á næstu dögum. Það er ljóst mál að á báðum þessum stöðum blasir við atvinnuleysi og blasa við stórkostleg fjárútlát hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og einnig Aflatryggingasjóði. Með hvaða hætti verður hægt að tryggja hag þessara fiskiðjuvera og sneiða hjá stórfelldu tjóni, sem annars blasir við, af hálfu hins opinbera? Ég er ekki nógu fróður um þau mál, en mig minnir að viðlagatryggingu sé þannig háttað að hún bæti ekki annað en það sem brunatryggt er. Þetta mundi því tæplega ná til íss og mjallar á vegum eða jafnvel tjóns af völdum fiskflutninga. Á því kynni að verða nokkur hængur að viðlagatryggingar mundu bæta tjón af þessu tagi, en ég geri ráð fyrir að aðrir sjóðir kynnu þá að vera tiltækir. Ég trúi því ekki að meginvandamálið yrði kostnaður af flutningum með bílum á fiski, t. d. frá Vopnafirði til Þórshafnar á Langanesi eða til Raufarhafnar. Vandamálið yrði að halda þessum vegum opnum til þessara flutninga. Jafndýrt hráefni og þorskurinn er kynni við svo hagstæða vinnslu að standa undir þess háttar flutningum. Ef það er hægt að afhenda hráefni frá Vopnafirði til flutnings með bíl til Þórshafnar á Langanesi hygg ég að þetta væri hægt.

Og svo vil ég aðeins í lokin víkja að nokkru sem hv. þm., sem hér töluðu á undan mér, drápu á. Það var meðferðin á því hráefni sem aflast hefur í hinni snemmbornu páskahrotu, ef svo má segja um þá geysilegu fiskgengd, sem nú er á miðunum hér sunnanlands og var raunar norðanlands og austan líka, — af þessum fiski sem átti samkv. hinum fyrri fræðum að vera uppurinn úr sjónum. Mér segja fróðir menn um fiskverkun núna, að ef litið er til þjóðarhags af þessum verðmætum megi segja sem svo, að mismunurinn á verkun í neytendapakkningar á frosnum fiski nú og verkun í salt samsvari því að þriðja hverjum fiski sé kastað í sjóinn, og ef miðað er við þjóðarhag líka láti nærri, ef við reiknum allan hag af þeim fiski sem unninn er í landinu, og reiknum þá með kaup fólksins, sem við hann vinnur, og opinber gjöld þess, að þá samsvari tjónið af því að sigla með fiskinn og selja hann erlendis að þarflausu því, að öðrum hvorum fiski sé hent.

Við vitum að undanfarna daga, undanfarnar vikur hefur verið að berast á land afli hérna syðra, sem hefur verið sendur óunninn til útlanda til sölu þar vegna þess að ekki var möguleiki á því að vinna hann í fiskiðjuverunum, og við vitum að miklu meiri fiskur er frystur á þessum slóðum en eðlilegt væri ef fiskveiðunum væri í raun og veru stjórnað í þeim tilgangi að nýta þessi 280–290 þús. tonn handa fólkinu okkar á þessu ári til þess að bæta í verðmæti og til þess að hafa vinnu við. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að á þessum málum sé hæfileg stjórn. Ég fæ ekki betur séð en sá fiskur, sem berst að landi um þessar mundir, á þessum vetri, sé meira og minna hafður í sukki og mikið bresti á að hér hafi verið þannig um hnútana búið að við megum sæmilega við una.

En aðeins í lokin vil ég ítreka þá ósk til hæstv. sjútvrh., að hann segi okkur þm. sjálfur það sem hefur farið af svo mikilli skyndingu og þó með kurteislegri leynd á milli hans, hæstv. forsrh. og Stefáns Valgeirssonar.