27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

132. mál, varanleg vegagerð

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þeim hv. þm. sem hafa talað hér og tekið undir tillögugerð okkar, og mér kemur það síður en svo á óvart, því að tillöguflutningur framsóknarmanna t. a. m. á haustþinginu bendir til þess, að hér eigi menn að geta sameinast um framkvæmd í þessum nauðsynjamálum.

Ég játa það, að ein meginástæðan fyrir því, að ég fór síðari hluta síðasta kjörtímabils mjög að beita mér í þessum málum, var sú, að mér þótti ganga afar hægt með allar framkvæmdir og fjárútvegunin vera stirð, — ég ætla ekkert að afsaka þá stjórn í því efni, — og það var ein frumástæðan fyrir því að menn fóru að eflast í þeim áhuga sinum að við svo búið mætti ekki lengur sitja.

Hv. 1. þm. Vesturl. minntist á það, að ekki hefði honum tekist að beita girnilega á krókinn í sambandi við happdrættisvegaféð í fyrra, og svo var um fleiri nauðsynjamál sem ég vissi að hann beitti sér fyrir, það gekk afar erfiðlega og kennt um fjármagnsskorti, enda þótt hægt sé að sýna fram á að fá eða engin verkefni eru þjóðhagslega ábatasamari heldur en gerð varanlegra vega.

Hann minntist á það, að þau viðhorf hefðu ekki verið uppi á síðasta kjörtímabili að veita fé úr Byggðasjóði til vegaframkvæmda. Þetta er ekki að öllu leyti rétt, vegna þess að árið 1975 hóf Byggðasjóður einmitt fjárveitingar að kalla má eða fyrirgreiðslu í sambandi við gatnagerð í þéttbýli að verulegu marki. Undanfarin ár hefur þetta numið 200 millj. kr. og verið til mikils stuðnings við þetta verkefni sem hv. þm. Halldór E. Sigurðsson minntist á sem eitt af þeim verkefnum sem vissulega náðist árangur í undanfarin ár.

Ég minni á það, hvernig til tókst hjá tveimur fyrrv. ríkisstj. í sambandi við bensingjaldið í Vegasjóð. Ég man þá tölu áreiðanlega rétt, að árið 1971 gengu 8.87 kr. af 16 kr., sem bensinlítrinn kostaði, í Vegasjóð. Það voru rúm 50%. En ég held að ég fari rétt með það, að nú þegar lítrinn kostaði 181 kr. hafi verið 46 eða 47 kr. sem gengu í Vegasjóð. Það var líka rétt eins og hann sagði, það voru eitthvað rúm 25%. Þannig gekk þetta til og var illt við að búa, og þess vegna er mál til komið núna og ég held að augu allra manna hafi opnast fyrir því og eftir því sem ég best fæ séð þingheims, að nú þurfi að taka höndum saman um stórátak í þessum efnum.

Við höfum deilt um einstaka verkefni. Ég legg þó áherslu á það, því að margur hefur misfarið með gamalt orðfæri mitt í sambandi við ýmsar framkvæmdir, eins og t. a. m. Borgarfjarðarbrú. Ég hef aldrei deilt um nauðsyn þeirrar framkvæmdar. Hins vegar var ég á sínum tíma þeirrar skoðunar að hún væri ekki rétt tímasett. Það var einvörðungu aths. mín í sambandi við niðurskurð sem mönnum þótti nauðsyn til bera. Í þeirri miklu verðbólgu var ég smeykur við þá framkvæmd, ég er það ekkert lengur, og nú leggjum við til í till. okkar að tekið verði fé að láni hið fyrsta til þess að ljúka þessu verkefni, sem auðvitað sýnir sig undireins að skilar góðum arði. Þetta var deila um tímasetningu, en ekki nauðsynina sem á þessu var.

Það er líka eins og hv. þm. Halldór E. Sigurðsson nefndi, sem ég hef reynt að því að hafa einhvern mestan áhuga þeirra manna, sem ég hef kynnst, á framkvæmdum og framförum í vegamálum, það kemur líka fram í till. okkar að við viljum nota mörkuðu tekjustofnana, sem renna nú í Vegasjóð, til þess að byggja upp vegina innan héraðanna. Ég skal játa að nú eru breytt viðhorf í Byggðasjóði til þess arna, líka með tilliti til þess að nú léttir mjög á Byggðasjóði. Honum hefur tekist vel upp í sambandi við uppbyggingu aðalatvinnuveganna víða um landsbyggðina, og meginástæðan fyrir því, að ég hef beitt mér fyrir breytingu og beitti mér t. a. m. fyrir breytingu varðandi lán til fiskiðnaðar og fiskiskipa á Suðurnesjum og fyrir þessari nýbreytni sem ég legg nú til í sambandi við fé úr Byggðasjóði í vegalagningu, er að ná sáttum um þennan sjóð. Ég tel hann það mikilvægan að við þurfum að ná sáttum um hann. Og það er ekkert einkennilegt við það að byggðastefnumaður úr Sjálfstfl. geri tilraun til að ná sáttum um þennan sjóð, því að að honum hefur verið sótt af ýmsum flokksfélögum hans, á það þarf ég ekki að draga dul. Og þetta verkefni er mesta byggðaverkefnið. En það er líka byggðaverkefni sem þéttbýlisfólkið getur sameinast okkur um, og þetta er aðalástæðan fyrir tillögugerð minni í þessu sambandi. Hún er ekki vegna þess að ég sjái ekki að sínu leyti eftir þessu fé, því að enn eru næg verkefni. En ég tel brýna nauðsyn að ná sáttum milli þéttbýlis og strjálbýlis um þennan sjóð, þó að hann verði við það að sjá af allverulegu af fé sínu til þessara gagnlegu framkvæmda. En ég legg áherslu á og tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að hér er verkefni sem við getum sameinast um. Við getum deilt um einstök verkefni, það skiptir engu máli. Aðalatriðið er að við náum höndum saman um höfuðstefnuna að útvega stóraukið fé til þessara nauðsynlegu framkvæmda, því að það eru framkvæmdir sem í framtíðinni koma í hag.