27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3664 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

222. mál, heilbrigðis- og félagsleg þjónusta fyrir aldraða

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Þótt nokkuð sé liðið á kvöld get ég ekki stillt mig um að bæta nokkrum orðum við þá ágætu ræðu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti áðan.

Málefni aldraðra hafa verið töluvert til umr. í þjóðfélaginu á síðustu mánuðum og m. a. verið haldnar ráðstefnur í því sambandi. Má þar síðast og best minnast ráðstefnu sem haldin var á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir skömmu. En svo að ég snúi mér einkum að heilbrigðissviðinu í þessu máli er það aldeilis rétt, sem 1. flm. þáltill. hélt fram, að heilbrigðismál aldraðra eru mjög svo illa skipulögð og raunar öll í molum. Það er sama hvar á er litið. Öldrunarfræði sem fræðigrein í læknisfræði er ekki viðurkennd sem sérgrein við læknadeild Háskóla Íslands, þrátt fyrir að hún sé orðin viðurkennd sérgrein í fjöldamörgum háskólum í nágrannalöndum okkar, eins og t. d. á Norðurlöndum, í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar. Sem sérgrein í læknisfræði hefur öldrunarfræði ekki átt upp á pallborðið, og um leið drögumst við aftur úr nágrönnum okkar í þeirri fræðigrein, jafnvel þó að nokkrir læknar hafi stundað þessa grein meira og minna á undanförnum árum — ég býst við að tveir læknar íslenskir séu nú með sérfræðiréttindi í þessari grein.

Eftir að hafa hlýtt á mjög fróðleg erindi slíkra manna og af þeirri reynslu, sem ég hef haft af þessari fræðigrein allt frá því að ég fór fyrst á öldrunarspítala fyrir tæpum 20 árum, er mér ósköp vel ljóst hversu vanbúnir við erum á þessu sviði. Ég kynntist strax í upphafi, í Danmörku fyrir 19 árum, hvernig þar var málum háttað, þar sem flokkaðar voru þarfir sjúkra gamalmenna í ákveðnar deildir. Ég vissi vel af kerfi því sem bráðaspítalar höfðu í Kaupmannahöfn og um heimahjúkrun, um öldrunarspítala og hjúkrunardeildir, endurhæfingardeildir og elliheimili. En hér hefur orðið mikill misbrestur á. Elliheimili hafa að vísu verið til hér á landi, en langt fyrir neðan það sem þörf hefur verið fyrir slíkt, og rými það, sem elliheimili hafa haft til ráðstöfunar, hefur verið það lítið að dvalarheimili eða elliheimili hafa fengið mikið óorð á sig fyrir það, hvernig aðbúnaður að gamalmennum hefur verið, einkum og sérstaklega vegna þrengsla. Þess vegna hafa elliheimili á Íslandi fengið mjög slæmt orð á sig. Ber þó ekki að skoða það þannig að þeir, sem hafa staðið að þeim málum, hafi illa unnið, heldur hefur þjóðfélagið illa að unnið og skorturinn magnast því hið opinbera hefur lítið komið til aðstoðar.

Heimahjúkrun er eiginlega fyrsti þátturinn varðandi hjúkrun á gömlu fólki, þegar fráskilinn er bráðaspítalinn. Heimahjúkrun er varla til á Íslandi annars staðar en í Reykjavík og Hafnarfirði. Mér skilst að í Hafnarfirði sé það kerfi þó komið í nokkuð fastar skorður, og það er unnið að þessu í Reykjavík að ég held nokkuð vel. Hins vegar komum við næst að langlegudeildum og hjúkrunardeildum fyrir gamalt fólk, og þar kemur allt annað upp á teningnum. Mér segja menn að það gangi afskaplega illa að koma gömlu fólki inn á bráðaspítalana hér í Reykjavík og það sé vegna þess að þeir spítalar sjái oft og tíðum ekki möguleika á því að losna við fólkið, sem þarf á áframhaldandi hjúkrun að halda, því að heimilin geti ekki tekið fólkið aftur, þegar bráðasjúkrahúsdvöl lýkur, og ekki sé í nein hús að venda. Stærstu spítalarnir á Reykjavíkursvæðinu, Landsspítalinn og Borgarspítalinn, hafa að vísu nokkra þjónustu í þessu sambandi, þar sem Borgarspítalinn er með slíka deild í Heilsuverndarstöðinni og Hafnarbúðir hafa nú nýlega tekið til starfa, en hvorugur þessara staða kemur nokkurs staðar nálægt því að fullnægja þeirri þörf sem er á þessu sviði. Grensásdeild var einu sinni hugsuð sem slík deild, en þegar til átti að taka fór hún til annarra þarfa. En ég vil engan veginn halda því fram, að sú deild sé ekki vel notuð eins og hún er notuð núna.

Landsspítalinn hefur enga langlegudeild haft. Það hefur þýtt það, að mörg af „akút — plássum“ hafa beinlínis fyllst af hjúkrunarsjúklingum og gert þar af leiðandi falskan skort á „akút — plássum“ á Landsspítalanum. Nú hefur nokkur lausn orðið á málefnum Landsspítalans, því að öldrunardeild Landsspítalans er komin í Hátún 10B, en þar kemur annað til mála, að hús þetta var aldrei reist í þeim tilgangi að verða eiginleg hjúkrunardeild, heldur endurhæfingardeild á allt annan hátt. Það bætir þó úr brýnni þörf og vekur menn nokkuð til umhugsunar um það, hvað við eigum mikið eftir ógert fyrir gamalt sjúkt fólk. Á elliheimilunum Grund og Hrafnistu hafa hjúkrunardeildir verið, og ber að þakka það framtak einstaklinga og þau störf öll sem þar hafa verið unnin, en þau hafa verið unnin við mjög slæman kost. Og þar kem ég aftur að þessu sama: þrengslin og starfsaðstaðan hafa verið fyrir neðan alla virðingu okkar.

Ég er mjög ánægður með það, að ég skuli hafa fengið að vera með í flutningi þessarar þáltill. Mér eru ljós þau vandamál Sem þarna er við að etja. Þessi vandamál eru misslæm frá einum stað til annars í landinu. Það er mjög mikil hreyfing í landinu, mjög vaxandi áhugi manna á að leysa þessi mál. Í mínu bæjarfélagi erum við að komast á nokkuð bærilegt stig í þessu efni. Það er aðeins eitt lítið bæjarfélag, en sýnir þó hvernig við getum stefnt í rétta átt í þessum málum.

Ég er sannfærður um að það er fullur vilji hjá núverandi hæstv. heilbr.- og trmrh. til þess að gera stórt átak í þessa átt, og ég trúi því að hann og ríkisstj. öll muni sjá til þess, að í nánustu framtíð sjáum við betri tíma í þessum málum.