28.03.1979
Efri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

239. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta ágæta framsöguræðu hv. þm. Helga Seljans fyrra flm. frv., sem síðan var aukin með ágætri ræðu hv. þm. Alexanders Stefánssonar varðandi það mál sem hér liggur fyrir.

Það er auðvitað mála sannast, að hér er um að ræða eitt af mörgum þeim málum er varða nauðsynlega og sjálfsagða dreifingu framkvæmdavalds og þjónustu frá Reykjavík út til byggðanna. Við höfum vænst þess, að að lokinni mikilli vinnu, sem liggur að baki skýrslu sem skilað var um dreifingu stofnana frá Reykjavík út um landsbyggðina, yrði eitthvað gert raunhæft í því máli og mætti ætla að auðnist núv. ríkisstj. lífdagar fram yfir langaföstu, að maður tali nú ekki um upprisu, þá væri hér eitt af þeim verkefnum sem eðlilegt væri að taka inn í endurnýjaðan samstarfssamning þeirra stjórnmálaflokka sem standa að ríkisstj., ef til slíks kæmi.

Ég tek sérstaklega undir það sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði um nauðsyn þess að koma upp stofnunum, sem annast þjónustu á sviði byggingar- og skipulagsmálanna yfirleitt, og ekki þá síst að færa stjórn skipulagsmálanna út í byggðarlögin, út í kjördæmin, eða fjórðungana vildi ég nú heldur nefna í þessu sambandi.

Það hefur verið athyglisvert síðustu áratugina, þó eitthvað kunni að hafa slotað þar hin allra síðustu árin, með hvaða hætti byggðirnar okkar úti um land hafa verið skipulagðar héðan að sunnan, að því er maður gæti haldið með þeim hætti að arkitekt í Reykjavík hafi sest niður og teiknað nýja litla Reykjavík á byggingarflöt úti á landi án tillits til félagslegra aðstæðna, landslags eða annarra aðstæðna sem að byggð lúta.

Ég geri ráð fyrir því, að haldið verði áfram að vinna af einurð að framgangi þessara mála af hálfu landshlutasamtakanna, en tel nauðsynlegt að þeir hv. þm., sem eru þeirrar skoðunar að eðlileg dreifing valds út frá Reykjavík með þessum hætti nái fram að ganga, standi að þingmálum af þessu tagi, og hefur raunar stundum hvarflað að mér hvort nokkuð mælti gegn því að dreifbýlisþm. kæmu á með sér sérstöku samstarfi af þessu tagi, sem gæti þá kannske gengið og hlyti þá að vísu þess vegna að ganga þvert á stjórnmálaflokkana, — hvort það væri nokkuð athugavert við það að mynda þess konar samtök málum sem þessum til framgangs.

Enda þótt það mál, sem við fjöllum hér um, varði sérstaklega og nær eingöngu Húsnæðismálastofnun ríkisins og dreifingu á starfsemi hennar út um landið, liggur í augum uppi að við hljótum að miða að því að á sama hátt verði yfirstjórn menntamála og fræðslukerfið leyst upp í landshlutaeiningar langt umfram það sem nú er. Hið sama lýtur að heilbrigðismálunum.

Ég vil eins og hv. þm. Helgi Seljan vitna til umr. í gær varðandi samgöngumálin, vegamálin, og minna á skýrslu, sem skilað var til samgrn., að því er mig minnir 1965 — skýrslu danskra hagfræðinga sem höfðu sérhæft sig í samgöngumálum og voru fengnir til þess að gera hagkvæmnisúttekt á vegakerfi landsins, sem leggja skyldi síðan til grundvallar við vegagerðaráætlanir í framtíðinni. Þetta voru þrír danskir hagfræðingar, sem fengnir voru til verksins, sérfræðingar sem, ef mig minnir rétt, unnu verkið á tveimur mánuðum og tóku 90 þús. dollara fyrir verkið. Þetta þóttu ágætlega unnar skýrslur og var ekkert út á það að setja að þessir sérhæfðu menn væru fengnir til verksins. En það var niðurstaðan, hin „háteknokratíska“ niðurstaða sem þeir komust að, sem enn þá brennur mér í minni. Þeir komust nefnilega að þeirri niðurstöðu, að það mundi aldrei borga sig að leggja vandaða vegi eða vegi umfram þá sem þá voru fyrir á Austfjörðum eða Norðausturlandi, vegna þess, eins og komist var að orði í skýrslunni, að þar yrði aldrei lifað menningarlífi hvort sem væri. Þegar við fréttamenn spurðum þá hvað þeir ættu nánar tiltekið við með „menningarlíf“, þá svöruðu þeir að þeir ættu við hámenningu, svo sem „teater“ og „musik“, og miklu hagstæðara væri að flytja — þá veiddist enn þá síld fyrir austan og norðaustan — síldina og annan fisk til söltunar og vinnslu í Reykjavík en hafa fólkið þarna fyrir austan í svo menningarsnauðum verstöðvum.

Ég er alveg ugglaus um að Íslendingar mega vera þakklátir Reykjavík, þessu samfélagi við Faxaflóa, fyrir að hafa hýst svo lengi ýmsar þær stofnanir sem nú er aftur á móti orðið nauðsynlegt og fjárhagslega og félagslega hagkvæmt að reisa upp og dreifa út um landsbyggðina. Við höfum efnahagslega bolmagn til ýmissa hluta nú sem við fyrrum höfðum ekki bolmagn til, og það eru komin upp ný stjórnunarleg og pólitísk viðhorf sem lúta að því að treysta efnahagslegt, félagslegt og menningarlegt sjálfstæði landshlutanna umfram það sem áður var. Með þessari hugsun er ekki átt við það, að við eigum að þrengja að höfuðstað landsins á nokkurn handa máta, enda heyrist mér tíðum á forsvarsmönnum hans að mikill léttir væri þessu samfélagi að því, að það yrði losað við ýmsar af þeim þjónustu- og stjórnunarstofnunum sem hér eru nú fyrir landið allt eða a. m. k. létt á þessum stofnunum og þar með á Reykjavík.

Hér er um að ræða eitt hinna brýnu verkefna, þar sem er dreifing á starfsemi Húsnæðismálastofnunar ríkisins út til landshlutanna. Það eru fleiri brýn verkefni í þessa átt. Ég vænti þess, að frv. þetta til l. um breytingu á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins hljóti samþykkt á hv. Alþ. og megi verða eitt skrefið í þá átt sem við eigum að sækja í á þessu sviði.