28.03.1979
Efri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3674 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

239. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft athyglisverðu og merkilegu máli.

Ég vil taka það fram, að ég er samþykkur þeim meginsjónarmiðum, sem fram hafa komið í máli frsm. og þeirra hv. þm. annarra, sem hafa talað í þessu máli. Það er rétt, sem fram hefur komið, að það, sem þetta frv. fjallar um, er hluti af stærra máli. Það má segja að það sé á tvennan hátt hluti af stærra máli.

Í fyrsta lagi er það hluti af húsnæðismálunum og starfsemi húsnæðismálastjórnar. Þar eru margir aðrir veigamiklir þættir og þar með talið, sem eru veigamestu þættir húsnæðismálanna, hið almenna skipulag þessara mála og er fjáröflunin til húsnæðismála. Ég ætla ekki að fara að ræða það sérstaklega hér, en það hefur líka komið fram í máli annarra ræðumanna að þetta er hluti af því heildarvandamáli sem húsnæðismálin eru.

En þetta er einnig hluti af öðru máli, sem er að efla þátttöku fólksins úti á landsbyggðinni í meðferð og stjórn eigin mála. Og á vissan hátt er það ekki þýðingarminna en húsnæðismálin í sjálfu sér, þó að þau verði aldrei ofmetin. Það er út frá þessu sjónarmiði sem ég vil leggja áherslu á að þetta mál er bæði athyglisvert og þýðingarmikið.

Hv. frsm. vék að meðferð þessa máls áður í hv. d. Þetta er, eins og hann tók fram, í fjórða sinn sem frv. þetta er flutt. Félmn. þessarar hv. d., eins og hv. fyrri flm. tók fram, lagði til að mál þetta yrði tekið til meðferðar við almenna endurskoðun á húsnæðislöggjöfinni. Hann lýsti vonbrigðum sínum um það, að minna hefði orðið úr því en efni stóðu til. En ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að þegar hv. félmn. þessarar d. vísaði máli þessu til endurskoðunarnefndarinnar, sem þá var að störfum, endurskoðunarnefndar um húsnæðismálalöggjöfina, var gert ráð fyrir að sú nefndin lyki störfum og lagt mundi verða fram frv. á Alþ. um þetta mál, sem fjallaði um heildarendurskoðun húsnæðislöggjafarinnar. Það var ekki gert. Þessi nefnd hafði ekki lokið störfum. Ég vil þó leyfa mér að vona að þar hafi ekki verið nein sérstök andstaða eða óvilji í garð þess málefnis, sem þetta frv. fjallar um, þó að þessi hafi reyndin orðið. Og ég vil taka það fram, að með þessum orðum er ég ekki að kasta rýrð á eða ásaka einn eða neinn fyrir það, að heildarendurskoðun húsnæðislöggjafarinnar hafi ekki verið lokið eða framkvæmd á síðustu árum. Ég minni á að slík endurskoðun og grundvallarbreytingar á húsnæðislöggjöfinni höfðu verið gerðar fyrr á þeim áratug sem er að líða. Það er skoðun mín að einmitt vegna þess að svo var ástatt hafi dregið úr því verki að fara að framkvæma aðra heildarendurskoðun á þessari löggjöf eftir svo tiltölulega skamman tíma. En tíminn líður og að því kemur að það er eðlilegt og nauðsynlegt að ljúka þessari endurskoðun.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. og hæstv. félmrh. lýst yfir að lögð verði áhersla á þessa endurskoðun, og gera má ráð fyrir að frv. um þetta efni muni sjá dagsins ljós á Alþingi. Ég vil leyfa mér að vona að áður en því verki er lokið að endurskoða húsnæðislöggjöfina verði þetta mál tekið til ítarlegrar meðferðar. Mér sýnist að það væru ekki óeðlileg vinnubrögð að málinu yrði þá enn á ný vísað til þessarar endurskoðunarnefndar. A. m. k. ætti það ekki að tefja málið mikið, ef má gera ráð fyrir að þeir menn, sem nú fjalla um þessa endurskoðun, ljúki verki sínu innan skamms, eins og mér skilst að verði.

Í þessu sambandi kom hv. 4. þm. Norðurl. e. inn á ýmis alvörumál. Hann lét orð falla um að það mætti kannske gera ráð fyrir því eða ekki útiloka þann möguleika, að hæstv. núv. ríkisstj. gæfi upp öndina, en þó mundi geta orðið um upprisu að ræða. Ég vil aðeins benda á að ekki er alveg víst, þó að það séu dæmi til þess að upprisa hafi fylgt dauða, að slíkt kraftaverk gerist alltaf. — En við skulum samt ekki örvænta um framgang þessa máls, vegna þess að þetta er gott mál og þetta er í anda þeirrar stefnu, sem minn flokkur ber sérstaklega fyrir brjósti, þ. e. dreifingu valdsins. Þetta mál horfir því að því leyti einnig í rétta átt.