01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það hefur sjálfsagt engum komið á óvart hve miklar umr. hafa orðið um þetta mál hér í hv. Nd. Alþingis. Það hefur komið berlega í ljós, eins og reyndar var vitað fyrir fram, að í stjórnarherbúðunum væri ekki samkomulag um þessi mál fremur en mörg önnur mikilvæg mál. En ég vil segja það út af því, að þetta frv, er komið fram, að ég fagna því og ég styð meginstefnuna sem kemur fram í frv. og byggir á raunvaxtasjónarmiðinu.

Við verðum að hafa það í huga, að raunvaxtasjónarmiðið er sett fram til þess að ná jafnvægi á fjármagnsmarkaðnum og hjálpa til að ná verðbólgunni niður þegar til lengri tíma er lítið. Það, sem hins vegar kemur í ljós tiltölulega fljótlega, þegar til slíkra ráðstafana er gripið, er að fjármagnið leitar í arðsamari farvegi heldur en það gerir í núverandi kerfi. Til viðbótar má gera ráð fyrir því, að almennur frjáls sparnaður landsmanna aukist að ráði.

Talsvert hefur verið rætt hér um svokallaðan verðbólgugróða og trúna á hann. Mín skoðun er sú, að ástæðan fyrir því, að fólk telur sig græða á verðbólgunni, sé að verðbólgugróðinn, ef nota má það orð, birtist yfirleitt nálægt þeim sem græða. Hann birtist þeim sem eru að byggja sér hús. En aftur á móti er tapið ákaflega fjarlægt. Menn taka ekki eftir því, hverju er brennt, vegna þess að verið er að brenna skattfé almennings, vegna þess að verið er að brenna upp sjóði og vegna þess að verið er að brenna upp sparifé sparifjáreigenda, sem eru orðnir svo vanir því að það sé gert.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði réttilega, og það er ánægjulegt að hann hefur skilning á því máli, að allt væri orðið sjálfvirkt í okkar efnahagskerfi, allt væri orðið fast. Það er einnig alveg rétt, að þetta mál, sem við höfum hér til umr. nú, er ákaflega flókið og ekki er hægt að skoða það eitt sér. Það krefst að sjálfsögðu uppskurðar í efnahagskerfinu ef þetta mál á fram að ganga. Það er kominn tími til þess, að við reynum að leiðrétta þá skekkju, sem er í efnahagskerfinu, eða það misræmi, sem komið hefur fram í því og hv. þm. Lúðvík Jósepsson benti á. En til þess að þetta frv. nái tilgangi sínum þarf að gera ýmislegt fleira. Hér þurfa að vera starfandi verðjöfnunarsjóðir. Nota þarf útgjöld ríkissjóðs sem hagstjórnartæki. Gengið verður ávallt að vera rétt skráð. Á hverjum tíma þarf tekjumyndun atvinnuveganna að vera tryggð með eðlilegum hætti. Kaupmáttarstigið verður að vera samstíga þjóðartekjunum eða bundið þjóðhagsvísitölu í einhverri mynd, ef um vísitölubindingu á að vera að ræða. Samþykkt frv. krefst sem sagt þess, að uppskurður verði gerður í efnahagskerfinu og horfið verði til frjálslyndari hátta í þessum málum. Það, sem skiptir máli, er að í stað þess að við veltumst áfram í vítahring þarf einhvers staðar að byrja á því að höggva á hnútinn.

Þetta frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir breytingu á 13. gr. laga um Seðlabankann, en sú grein snertir ekki beinlínis sjóðina, hvorki rekstrarlánasjóðina né heldur fjárfestingarsjóðina sem hér var minnst á, þótt auðvitað megi gera ráð fyrir því, að vaxtastefna þeirra, þ.e. sjóðsstjórnanna og ríkisstj., muni breytast og taka á sig sömu mynd.

Varðandi fjárfestingarlánasjóðina 1974–1976 brann á verðbólgubálinu allt fjárframlag til sjóðanna. Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lesa hér örstutt úr Hagtölum mánaðarins, október 1977. Þar segir svo:

„Hin öra verðbólguþróun undanfarandi ára hefur rýrt mjög eigin fé fjárfestingarlánasjóða, enda fylgdu kjör á útlánum þeirra ekki stöðugt hækkandi kostnaði fjármagns. Sem dæmi má nefna, að í árslok 1973 var eigið fé sjóðanna 10 milljarðar og 360 millj. kr., sem svarar til 26 milljarða og 575 millj. kr. í árslok 1976, ef það hefði fylgt hækkun þeirri er varð á vísitölu byggingarkostnaðar á þessum þremur árum. Í árslok 1976 var eigið fé sjóðanna 26 milljarðar 540 millj., þrátt fyrir að framlag til sjóðanna þessi þrjú ár hafi numið samtals 13 milljörðum 237 millj. kr., sem svarar til um 18 milljarða 458 millj. kr. á verðlagi í árslok 1976. Af framansögðu má sjá að eigið fé er um 1976. Af framansögðu má sjá að eigið fé er um 18.5 milljörðum kr. lægra að verðgildi í árslok 1976 en framreiknað eigið fé í árslok 1973 að viðbættum framlögum árið 1974–1976. Þetta svarar til þess, að eigið fé og árleg framlög hafi rýrnað um 20.6% að meðaltali á ári þessi 3 ár.“

Við skulum hafa það í huga; þegar talað er um þessa sjóði, að það er nokkurt framlag, sem yfirleitt kemur frá atvinnuvegunum sjálfum eða úr ríkissjóði, sem rennur til þeirra. Gera má ráð fyrir því, að ef um raunvaxtastefnu væri að ræða mundi það framlag geta minnkað og þar af leiðandi mundi rekstrarkostnaður fyrirtækjanna minnka að sama skapi. Ef það hins vegar dugir ekki til, þá skulum við bara viðurkenna það, að við viljum í þessu þjóðfélagi styrkja sumar atvinnugreinar, styrkja vissar fjárfestingar.

Sjóðirnir hafa reyndar á undanförnum árum tekið nokkurt tillit til þessa, og nú mun vera verðbætt fé það sem sjóðirnir fá t.d. að láni hjá lífeyrissjóðum landsmanna, og auðvitað er það spor í rétta átt. Við skulum líka hafa það hugfast, að það er ástæða til þess að styrkja með skattfé sérstaklega suma sjóði sem hafa félagslegu hlutverki að gegna. Ég vil nefna í þessu sambandi t.d. Byggingarsjóð ríkisins, og ég verð satt að segja að lýsa yfir dálitlum vonbrigðum mínum með það sem stendur í grg., hvernig hv. flm. sér lausn á því máli. Í dag munu vextir af þessum lánum vera á milli 8 og 9%, en um leið er borguð verðtrygging sem nemur um 2/5, þannig að ef vísitala byggingarkostnaðar hækkar um 50%, þá mundi það vera um 20% sem má í þessu tilviki líta á sem vexti, því að í raun og veru er erfitt að gera mikinn greinarmun á verðtryggingu annars vegar og vöxtum hins vegar, þótt auðvitað sé á því heilmikill munur í eðli sínu.

Mín till. væri sú í sambandi við húsbyggingarsjóðinn, að þar ætti að leggja fram.af sameiginlegu fé landsmanna í því skyni að styðja það fólk sem er að byggja í fyrsta skipti. Það finnst mér sjálfsagt og ég styð þá stefnu að allir landsmenn geti, ef þeir vilja, komið sér upp eigin húsnæði. Vel má hugsa sér það, að hver einstaklingur, sem í fyrsta skipti er að byggja, fái til þess ákveðið fjármagn og þurfi að borga til baka kannske aðeins hluta af þeim vöxtum, sem teljast mundu til raunvaxta miðað við verðbólgu. Það á auðvitað ekki að binda lán við stærð húsnæðis, því að húsnæðisþörf ungs fólks eða fólks, sem er að byggja í fyrsta skipti, er ákaflega misjöfn. Þar ætti sama yfir alla að ganga, því að allir vita að í þeim málum er fyrsti hjallinn erfiðastur.

Í sambandi við það frv., sem hér er til umræðu, er annars að gæta enn fremur, og það kom reyndar fram í ræðu hv. þm. Einars Ágústssonar, að í frv. er nánast gert ráð fyrir sömu vöxtum á lán, nema þá að í reglugerð ætti að koma fram einhver munur á þessu. Þetta vekur þá spurningu, hvort ákvörðunarvaldið í þessum málum eigi yfir höfuð að vera hjá Seðlabanka Íslands. Mér er að sjálfsögðu ljóst, að það gerist víðast hvar að slíkt ákvörðunarvald sé hjá seðlabönkum ríkja. En það kemur fyllilega til greina að mínu viti að taka þetta ákvörðunarvald af Seðlabankanum, sem þýðir það að bankar og sparisjóðir, en 13. gr. seðlabankalaganna virðist vísa fyrst og fremst til vaxtakjara þeirra, mundu sjálfir hafa tækifæri til þess að mynda sér sína vaxtastefnu. Það þýðir að vextirnir yrðu markaðsvextir á hverjum tíma. Þessa skoðun mína byggi ég reyndar á sömu rökum og fram komu hjá hv. 1. flm. frv., en þau eru að seðlabankastjórnin og ríkisstj., þ.e.a.s. hið pólitíska vald, hafi ekki reynst vandanum vaxnar í þessum efnum. Markaðsvextir þurfa ekki alltaf að fylgja verðbólgunni. Þeir geta verið lægri og þeir geta verið hærri, allt eftir því hvernig jafnvægið er á lánamarkaðinum hverju sinni. Og í sambandi við þetta er það líka íhugunarefni, hvort ekki er kominn tími til þess að ógilda verðtryggingarlögin frá 1966 að meira eða minna leyti. Þá á ég sérstaklega við það, að hægt sé að verðtryggja lán samkv. samningi á milli einstaklinga, ekki síst þegar þau lán eru tryggð t.d. með fasteignum. Og þá kemur enn fremur til greina, og það er nánast formlegt atriði, að fella úr gildi okurlögin nema þann þátt þeirra sem lýsir sér í 7. gr. og er nánast samningaréttarlegs eðlis. Það er misneytingargrein okurlaganna. Þetta mundi hafa það í för með sér, að húsnæði á húsnæðismarkaðinum mundi að mínu viti nýtast miklu betur en nú er. Þetta hefur sem sagt það í för með sér, að fullorðinn maður eða fullorðin kona eða fullorðin hjón, sem búa í stóru húsnæði, geta losað sig við það húsnæði og farið í annað minna, fengið tiltölulega litla úfborgun, en fengið síðan verðtryggingu fyrir því fé sem þau lána nýjum kaupanda, sem væntanlega verður þá yngri, hugsanlega barnafólk. Slíkir kaupendur gætu þess vegna í framtíðinni skipulagt hvernig þeir haga sínum húsnæðismálum. Þetta gæti að mínu viti lagað ýmislegt og jafnvel lækkað húsnæðisverð, a.m.k. að nafnverði, og ég get ekki ímyndað mér annað en hv. 1. þm. Austurl. standi með mér í því, því að það mundi að sjálfsögðu þýða það, að fasteignasalarnir, sem eru allra milliliða verstir að áliti Alþb., mundu fá minna í sína hönd.

Það er líka spurning um það, hvort ríkið eigi nánast eitt að hafa þá heimild að geta boðið út verðtryggð spariskírteini, Það getur verið að kominn sé tími til þess að treysta jafnvel einstaklingum til slíkra samninga. En mér er ljóst að til þess að svo geti orðið þarf að sjálfsögðu að setja einhver lög eða reglur um útreikning á vöxtum. Slík lög eru til í ýmsum nágrannalöndum okkar. Það þarf eflaust að festa slíkar reglur jafnvel í lögum, þannig að, menn verði ekki hlunnfarnir í viðskiptum. Hvernig á t.d. að reikna vexti? Á að reikna þá á ári, á mánuði o.s.frv. Þannig er enn fremur um vaxtavexti og dráttarvexti, en það er að sjálfsögðu ekki heimilt að reikna vexti á dráttarvexti.

Það kemur enn fremur til greina, og það er tæknilegt atriði sem þarf að athuga í n. þegar þessu máli verður vísað þangað, hvort ekki eigi fremur í vissum tilvikum að beita verðtryggingu en vöxtum, annaðhvort miðað við einhverja vísitölu eða miðað við erlendan gjaldeyri, þ.e.a.s. gengi. Þetta á a.m.k. við þegar tekið er lán til langs tíma.

Hv. 1. þm. Austurl. flutti hér í kvöld ákaflega skemmtilega og greinargóða ræðu um þessi mál. Hann sagði, að nú hefðu menn séð einhverja hókus-pókus leið til þess að lækna og leysa verðbólguvandann og kom með það dæmi, að menn hlypu ofan í vélarrúm í báti og ýttu þar á einn takka án þess að hafa hugmynd um hvað það hefði í för með sér. Ég verð að segja það, að það er a.m.k. jákvætt, þegar menn hlaupa ofan í vélarrúm og byrja að fikta við vélina. Þó að mér sé fullljóst að það nægi ekki að ýta á einn takka, þá verður vélin ekki tekin upp nema einhver fari ofan í vélarrúmið. Það er þetta, sem skiptir máli, og það er þetta, sem ég hef verið að fjalla um í ræðu minni í kvöld. En hv. þm. Lúðvík Jósepsson hugsar ekki svona. Hann hugsar nefnilega þannig, að raunvöxtum verði komið á án þess að annað gerist í þjóðfélaginu. Hann gerir sem sagt ráð fyrir því, að verðbólgan „grasseri“ áfram, og þetta er ljótur dómur um núverandi stjórnvöld.

Ég segi: Ef hv. 1. þm. Austurl. vill koma í veg fyrir óhemjulega mikla vaxtabyrði, þá er besta ráðið að leysa verðbólguvandann með hans ráðum eða annarra. En ég er hræddur um að það verði ekki gert fyrr en einhver tekur á sig rögg og byrjar einhvers staðar á því að reyna að leysa hnútinn. Það getur vel verið að lausnin, sem verður ofan á að lokum verði raunverulega að höggva á hnútinn, og þá gerum við það, við sem höfum vilja og erum það ungir og vitlausir að hafa kjarkinn til að bera.

Þá kom hv. 1. þm. Austurl. inn á það, sem hann kallaði hávaxtaleiðina, og sagði, að hún hefði farið illa með sparifjáreigendur, og hann kom með dæmi því til sönnunar. Það sem gerðist eftir 1. maí 1976 var auðvitað afleiðing af þeirri óstjórn sem átti sér stað til ársins 1974, þegar vinstri stjórnin sat að völdum og verðbólgan komst á það stig sem hún er á nú og virðist ekki hægt að koma henni niður af. Seðlabankinn varð þá að grípa til þessa ráðs til þess að koma til móts við sparifjáreigendur, því að allir voru hættir að spara í þessu þjóðfélagi. Hann færði fram einhverjar tölur. En ég spyr: Hvað hefði gerst ef Seðlabankinn hefði ekki gert það sem hann gerði? Hefði sparifjárrýrnunin hætt eins og hún gerði eftir vaxtahækkanirnar? Ég er ansi hræddur um annað. Ég er hræddur um það, að enginn hefði lagt fé í banka ef ekkert hefði verið aðhafst, vegna þess að það er ekki rétt, sem hefur verið sagt hér í kvöld, að vextirnir séu eina orsökin fyrir verðbólgunni. Ég viðurkenni hins vegar að þeir eru hluti og um leið afleiðing af verðbólgunni. En ég tala um þetta í heild sinni og við verðum að gera það, en kenna ekki vöxtunum alfarið um þetta, því að það er alrangt og það veit hv. 1. þm. Austurl.

Þá sagði hv. þm. Einar Ágústsson, að það væri auðvelt að ná til verðbólgubraskaranna með því að leggja t.d. á eignarskatt. Það getur vel verið. En hvers eiga þeir að gjalda sem hafa byggt fyrir eigið fé? Ekki eru þeir verðbólgubraskarar. Á ekki að leggja á þá líka eignarskatt? Eða hvernig á að fara að þessu? Þetta er bara ein leiðin til þess að reyna að réttlæta það kerfi sem er farið að misbjóða öllum hugsandi Íslendingum. Það er réttara að mínu viti að ráðast að rótum vandans, en vera ekki alltaf að krukka í afleiðingarnar og reyna að laga þær. Það þarf að komast fyrir orsökina.

Þá vil ég aðeins víkja að máli hv. þm. Páls Péturssonar, og ég verð að viðurkenna að þeim er sjálfsagt mest vorkunn sem starfa í landbúnaði. Ég er sannfærður um það, að ef þessir vextir ættu að gilda fyrir lán til landbúnaðarins í dag, þá færi hann kannske verst út úr þessu, það er alveg rétt. En þá verðum við bara að hafa kjark til að viðurkenna það, að landbúnaður getur ekki þrifist á Íslandi nema með einhverjum styrkjum eða breyttri tekjumyndun. Og ef við ætlum að halda úti landbúnaði, sem ég vil láta gera, þá verðum við að taka tillit til þeirra sjónarmiða og annarra sjónarmiða, t.d. félagslegra. Okkur ber skylda til þess. Það er engin lausn að halda áfram að ljúga að sjálfum sér.

Þá sagði hv. þm. Páll Pétursson einnig eða það mátti skilja hann þannig a.m.k., að það væri allt í lagi, að pólitíkusar skömmtuðu fjármagnið, þeir væru ekki verri en hverjir aðrir til að skammta fjármagnið. Ég er honum fyllilega sammála. En ég vil bara ekki þurfa að una því, að það þurfi að skammta fjármagn. Það á að koma endurgjald fyrir fjármagnið og það á að koma fjármagnsmarkaðinum í jafnvægi til þess að til sé nægilegt fjármagn fyrir alla þá, sem hafa eitthvað við það að gera og þurfa að nýta það til arðsamrar uppbyggingar landi og lýð til heilla. Af hverju á t.d. ekki að skammta laun? Af hverju eiga þm. ekki bara að skammta laun eða skammta mat, fara að gefa á garðann, eins og þeir gera norður í Húnavatnssýslu? Ég treysti pólitíkusum fyrir því eins vel og hverjum öðrum og sumum jafnvel betur. Við þurfum fyrst og fremst að átta okkur á því, að þm. þjóðarinnar eiga að setja fólkinu í landinu meginreglur, eiga að setja þann ramma, sem við viljum starfa í. En að öðru leyti eigum við að kappkosta að leyfa fólkinu í landinu að lifa í friði.