03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3782 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

178. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal ruglaðist nokkuð í ríminu þegar hann vitnaði til orða minna áðan. Hann hafði það eftir mér, að fjárveitingar til menntamála væru á þessu ári óvenjulega rýrar, en það var þó alls ekki það sem ég sagði. Ég var fyrst og fremst að ræða um meðferð á fjárlagatill. menntmrn. og það hefði tíðkast á undanförnum árum að skera þær niður í sömu fjárlagatölu og hafði verið árið áður, áður en fjárlög væru lögð fram í frv.-formi í þingi. En síðan hafa tölurnar auðvitað verið hækkaðar verulega við sjálfa fjárlagameðferðina í þinginu, og það hefur fallið í skaut Alþ. að ákveða þessar upphæðir án þess að einn eða neinn aðili gerði þar till. um. Það var þessi meðferð málsins sem ég var að gagnrýna. Ég held að fjárveitingar til menntamála á þessu ári séu alls ekkert rýrari en verið hefur, og ég gæti vissulega nefnt dæmi þess, að um verulega aukningu er að ræða á fjárveitingum til menntamála. T. d. er það staðreynd, að flárveitingar til leiklistarstarfsemi áhugamanna eru hlutfallslega hærri nú á þessu ári en verið hefur um nokkurra ára skeið, þó að þær séu hins vegar allt of lágar og hafi verið hlutfallslega hærri ef farið er talsvert mörg ár aftur í tímann.

Ég held satt best að segja að róðurinn hvað snertir fjárveitingar til menntamála hafi stundum verið talsvert þyngri en hann var við seinustu fjárlagaafgreiðslu. Það held ég að þeir þekki sem með þau mál hafa haft að gera, enda kom það ljóslega fram í máli fyrrv. menntmrh., hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar, að stundum hefði verið harðsótt að ná fram eðlilegum fjárveitingum þegar flokkur hans átti samstarf við flokk hv. þm. Halldórs Blöndals.

Í öðru lagi spurðist hann fyrir um það, hvort það væri rétt skilið að menntmrn. ætlaði að fela hópi manna að undirbúa tillögur um fjárveitingar til menntamála. Það var kannske ekki alveg rétt skilið. Ég sagði áðan að ég teldi rétt að skipa starfshóp til að gera úttekt á opinberum stuðningi til menningarmála og á grundvelli slíkrar skýrslu mundi síðan menntmrn. að sjálfsögðu undirbúa fjárlagatill. sínar. Hér væri einungis um að að ræða, að slíkur hópur gæfi rn. góð ráð. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir skaut því að áðan, að eðlilegra væri að gefa menntmn. Alþ. kost á að gegna þessu hlutverki. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að ég hafði einmitt hugsað mér, að einhverjir úr menntmn. Alþ. ættu sæti í þessum starfshóp, og tel raunar sjálfsagt og eðlilegt að fulltrúar úr þeim n. séu hafðir með í ráðum. Ég get hins vegar ekki fallist á að það sé skynsamlegt að engir aðrir fjalli um þessi mál en þm. Ég held að brýn þörf sé á því, að utanþingsmenn, sem æðimargir hafa mikinn áhuga á menningarmálum, séu kvaddir til og beðnir að gefa góð ráð, og að eðlilegt sé að reynt sé að mynda starfshóp á sem breiðustum grundvelli.

Loks var hér spurt um fullorðinsfræðslu í útvarpi og sjónvarpi. Það var hv. 5. landsk. þm., Friðrik Sophusson, sem óskaði eftir hugrenningum mínum um það efni. Þessi mál hafa verið til umr. í heilan áratug, og vissulega hefur lítið gerst sem flokkast getur undir framfarir varðandi aukna fræðslustarfsemi útvarps og sjónvarps. Á sínum tíma skipaði þáv. menntmrh. sérstaka n., sem átti að gera till. um aukna fræðslustarfsemi í útvarpi og sjónvarpi, en þessi n. mun hafa lognast út af og sofnað svefninum langa þegar fyrir nokkru og skilaði engri endanlegri niðurstöðu. Fyrrv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, skipaði n. í ágústmánuði s. l. sem átti að gera till. um aukna fullorðinsfræðslu almennt, þ. á m. í útvarpi og sjónvarpi, en þessi n. hefur enn ekki skilað störfum. Ég á von á, að þessi n. sendi frá sér nál. innan skamms, og vænti þess, að einhver hreyfing komist á þessi mál í kjölfar þess. Sjálfur hef ég mikinn áhuga á að útvarp og sjónvarp verði notað í stórauknum mæli til fræðslustarfsemi, en ég tel eðlilegt að bíða eftir niðurstöðum þessarar n. áður en frekari ákvarðanir eru teknar.