02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

32. mál, lífríki Breiðafjarðar

Jónas Árnason:

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að lýsa yfir stuðningi við þá till. sem hér er til umr. Flm. hennar hefur bæði í grg. og framsöguræðu sýnt að það mál, sem till. fjallar um, er honum mikið hjartans mál. Það hefur komið fram áður hér á þingi að mál af þessu tagi eiga mikla og einlæga samúð þessa þm. Þegar hann fjallar um þau héðan úr ræðustól kemur upp í honum hinn lýríski Dalamaður, sbr. það sem hann vitnaði í hér áðan úr einni bók Halldórs Laxness, ummæli Arnas Arnæusar — eða Arnae Arnaei, svo að maður tali rétta latínu — varðandi fegurð Breiðafjarðar og búsæld þar.

Með tilliti til þýðingar þessa máls og hins líka, að nú ekki alls fyrir löngu var haldinn fundur í Búðardal með þátttöku fólks af Breiðafjarðarsvæðinu, en þar koma við sögu tvö kjördæmi, fjölmennur og ágætur fundur, að mér skilst, ég gat því miður ekki verið á þeim fundi, — en með tilliti til þessa hefði verið réttara, sýnist mér, að flm, hefði leitað eftir meiri samstöðu um flutning tillögunnar. Eðlilegt hefði verið að mínum dómi að flm, að þessari till. hefðu verið allir þm. Vestfjarða og allir þm. Vesturlands. En við skulum vona, þó að flm. sé aðeins einn, að till. fái skjótan framgang og farsælan.

Mér er það þeim mun ljúfara að lýsa yfir stuðningi við þetta mál sem heldur hefur gengið illa hjá okkur Vesturlandsþm. að ná samstöðu um annað náttúruverndarmál, en það snertir verksmiðju þá sem nú er að risa á Grundartanga í Hvalfirði. Það er ekkert vafamál, að þaðan vofir mikil hætta yfir lífríki þess fjarðar, og hefðum við betur borið gæfu til að standa saman um þær náttúruverndaraðgerðir að koma í veg fyrir þá verksmiðju. Ég er hræddur um að einhvern tíma verði af þeirri verksmiðju hið ægilegasta slys fyrir lífríki Hvalfjarðar. Og það mun reyndar bitna líka á lífríki annarra fjarða og þ. á m. þess breiða fjarðar sem hér er til umr.

Hv. þm. er e.t.v. ekki kunnugt um það, að Hvalfjörður er mjög þýðingarmikill staður varðandi líf æðarfuglsins, ekki aðeins nærsveitis Hvalfirði, heldur á öllu vestanverðu Norðurlandi, Vestfjörðum og Austurlandi og hluta Suðurlands. Fuglafræðingar hafa komist að því, að þessi fugl, æðarfuglinn, sækir í Hvalfjörðinn á vissum tímum ársins sér til viðhalds. Þeir, sem aka oft um Hvalfjörðinn í skammdeginu, undrast áreiðanlega eins og ég það mikla lífríki sem við blasir þar einmitt í skammdeginu. Það er vegna þess að þá er æðarfuglinn kominn þangað hvaðanæva að til þess að sækja sér næringu.

Þetta er nokkurs konar Mallorca-staður fyrir æðarfuglinn í skammdeginu. En ef alvarlegt slys verður í þeim firði af völdum umræddrar verksmiðju, þá mun það segja til sín líka á hinum góðu eyjum í Breiðafirði.

Ég lýsi sem sé yfir eindregnum stuðningi við þessa till. og efast ekki um að um hana næst breið samstaða, þeim mun kannske breiðari samstaða sem hér er um að ræða breiðari fjörð heldur en Hvalfjörðinn.