04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3842 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein viðbótarorð. — Enginn skyldi skilja orð mín svo, að ég álíti ekki að ýmislegt hafi verið gert nú á síðustu árum í þessu sambandi, síður en svo. Ég bendi á það, að síðustu tvö árin hafa verið veittir í sambandi við þroskahefta stórauknir fjármunir, bæði varðandi skólastofnanir þeirra og eins vistheimili. Það hafa verið gerð þar stórátök sem ekki er rétt að gleyma. Ég bendi á það t. d., að í meðferð fjvn. í haust var um umtalsverða hækkun að ræða einmitt til þessara þátta, þó hvergi nærri væri þar nóg að gert.

En erindi mitt aftur upp í sambandi við samtengingu frv. frá félmrh. og þessa frv. var í raun og veru aðeins sú ábending, að í frv., sem félmrh. mun leggja fram, væntanlega í þessari viku, eru lagðar ákveðnar skyldur á fjárveitingavaldið og ef við samþykkjum þær tel ég að fyrir þeim þætti mála, sem þessi lög lúta að, sé vel séð. Við eigum hins vegar eftir að gera það upp við okkur, hvort við göngum svo langt að fara eftir þeim frumvarpsákvæðum, sem verða lögð fyrir okkur nú næstu daga, og ákveðum að ganga jafnmyndarlega og þar er ráð fyrir gert til verks í þessum málum. Ég tel mjög miður að það hefur dregist um of, m. a. vegna tregðu vissra embættismanna, að þetta mál væri lagt fram, og ég teldi miklu miður ef við gætum ekki alveg eins og varðandi þetta frv. náð einingu um það hér í þinginu að frv. um heildarlöggjöf fyrir þroskahefta næði fram að ganga. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að það mál eigi ekki einmitt greiðan gang í gegnum þingið þegar embættismennirnir eru búnir að sleppa af því tökunum. Þarna er um að ræða hóp manna sem vann að samningu þess frv. frá Landssamtökunum Þroskahjálp, sem spanna yfir landið allt, og frá þeim þrem rn. sem fara með þessi mál á einhvern hatt. Það var þess vegna sem ég vildi tengja athugun á þessu nokkuð saman, án þess að ég væri nokkuð að draga úr því, að við gerðum það átak sem hér er lagt til.