04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3846 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. hefur nú hjálpað mér og fjallað um það atriði sem ég ætlaði einmitt að minnast á. En mig langaði til að vekja athygli hv. 5. þm. Norðurl. v. á því, að það er alveg rökrétt að tekin sé hluti af áfengisgróðanum til þess að sinna þroskaheftum. Það er af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi minnkar neyslan þegar áfengi hækkar. Þetta er viðurkennd staðreynd úti um öll lönd. En við það að neyslan minnkar fækkar þroskaheftum. Þar að auki eru þessir peningar notaðir til þess að lækna þá, sem þrátt fyrir allt eru þroskaheftir, eða aðra öryrkja. Þannig er sannarlega ekki ástæðulaust að þessi tekjustofn er notaður.

Varðandi þau ummætt, að það sé kannske ekki þörf fyrir þessa fjármuni vegna nýrra laga sem kunna að koma, þá held ég að það sé ekki rétt. Á undanförnum árum höfum við haft í lögum ákvæði sem tryggja þroskaheftum jafnan rétt í skólakerfi okkar. En það er bara gamla sagan, að ekki eru til peningar til allra hluta og það hefur valdið örðugleikum. Lögin hafa því í raun og veru aldrei komist alveg í framkvæmd. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa eitthvert varafjármagn til þess að grípa til þegar þörf er á.

Ég vil enn fremur benda á að það hefur sýnt sig á undanförnum árum að ríkisvaldinu hættir til að grípa til þess að skerða fjármagn sem ætlað er til sérþarfa, ef vandræði ber upp á. Ég vil í því sambandi minna á að fatlaðir höfðu t. d. lengi sína sérstöku tekjuöflun, sem var hluti af svonefndum súkkulaðisjóði. Þetta var á sínum tíma afnumið og ákveðin sérstök fjárhæð í sama skyni. Sú fjárhæð fylgdist aldrei með verðbólgunni. Þannig hefur minna orðið um fjárveitingar til þeirra hluta en áður var.

Ég vil enn fremur benda á það, að ég held að við eigum væntanlegt hingað til Ed. frv. sem varðar Erfðafjársjóðinn, sem er raunverulega eini tekjustofninn sem verið hefur um lengri tíma til uppbyggingar stofnana fyrir öryrkja. Nú er ætlunin að sneiða af þessum sjóði. Ég vona að þm. standi vörð um þennan litla sjóð og vilji ekki láta skerða þann hlut sem á undanförnum áratugum hefur runnið óskiptur til aðstoðar við öryrkja.