04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

247. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir hv. þm. sem hér hafa talað um þetta fram komna stj. frv. um Rafmagnseftirlit ríkisins.

Ég ætla að bæta örfáum orðum við það, sem ég hef áður sagt í umr., og þá varðandi tekjustofna, sem fyrirhugaðir eru fyrir Rafmagnseftirlitið, og ástæðurnar fyrir því að iðnrn. taldi rétt að rýmka nokkuð um heimildir þar að lútandi.

Samkv. lögum þessum er að vísu ekki gert ráð fyrir að umsvif Rafmagnseftirlitsins aukist stórlega frá því sem nú er, en þó eru þar nokkrir þættir sem koma til viðbótar og ég gerði grein fyrir í ræðu minni áðan. Ég tel mig einnig hafa vitneskju um að það sé veruleg þörf á því að efla starfsemi stofnunarinnar jafnhliða því sem þar sé að sjálfsögðu gætt fyllsta sparnaðar og aðhalds í sambandi við rekstur. Því komumst við í iðnrn. að þeirri niðurstöðu, að það væri eðlilegt að rýmka nokkuð heimild til gjaldtöku, sem gerð var grein fyrir áðan, úr 1% í 1.5%. Þetta þýðir ekki að hækka beri þetta gjald sem þessu nemur og beita beri þessari heimild. Það tel ég að þurfi að ráðast af því, hver þörf verður metin á auknum umsvifum þessarar stofnunar, og hér sé því aðeins um heimildarákvæði að ræða sem geti komið til góða ef ástæður bjóða.

Varðandi 3. lið 9. gr., hvað snertir tekjuöflun af eftirlitsskyldum rafföngum, vil ég láta það koma fram, að ég hef hlutast til um að þessi heimild verði nýtt. Ég vænti þess að innheimta hefjist samkv. því á þessu ári, e. t. v. með vordögum, þannig að Rafmagnseftirlitinu bætist þarna tekjustofn sem nema má allt að 3/4% af innkaups- eða söluverði viðkomandi tækja.

Ég sé það af reikningum Rafmagnseftirlitsins, að það er síður en svo ofhaldið af þeim tekjustofnum sem því hafa verið ætlaðir á undanförnum árum. Það varð nokkur halli á rekstri þess á s. l. ári. Ég hygg að hann hafi numið röskum 36 millj. kr. En mikil nauðsyn er að mínu mati á að starfsemi sem þessi hafi tekjustofna sem tryggi hallalausan rekstur þannig að ríkið þurfi ekki að leggja þarna beinlínis til fjárveitingar samkv. fjárlögum.

Ég vil svo vænta þess að frv. þetta, ef að lögum verður, sem ég vænti að gerist á þessu þingi, verði til þess að efla starfsemi þessarar stofnunar. En bókstafurinn nægir auðvitað ekki einn, heldur þarf þarna til að koma stuðningur við starfsemi Rafmagnseftirlitsins að öðru leyti þannig að það geti rækt skyldur sínar. Eitt brýnt verkefni verður að setja reglugerð á grundvelli hinna væntanlegu laga, þar sem kveðið verði nánar á um einstök atriði sem frv. gerir ráð fyrir að reglugerð fjalli um.