06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4005 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til þess að svara fsp. sem til mín var beint við 1. umr. þessa máls. Þar var í fyrsta lagi um að ræða fsp. frá hv. 4. þm. Reykv.

Hann spurði í fyrsta lagi: Ef félagsmenn BSRB fella samkomulagið og 3% grunnkaupshækkun til þeirra og BHM gengur í gildi, hvað verður þá um meðlimi Sambands ísl. bankamanna? Er grunnkaupshækkunin til þeirra undir öllum kringumstæðum tekin af, án tillits til þess? — Við þessari fsp. er þetta svar: Undantekningarákvæðið í I. lið bráðabirgðaákvæðisins tekur aðeins til þeirra sem þar eru sérstaklega nefndir. Um alla aðra launþega, þ. á m. þá sem hv. 4. þm. Reykv. sérstaklega nefndi, gildir hin almenna regla samkv. lagaákvæðinu.

Önnur fsp. hans var sú: Hvernig fer ef úrslit atkvgr. verða á þá lund að starfsmenn ríkisins samþykkja, en starfsmenn einstakra sveitarfélaga fella samkomulagið? Fá þeir þá 3% grunnkaupshækkun? Ég svara þessu svo: Ég lít svo á að ríkisstarfsmenn og bæjarstarfsmenn verði í þessu sambandi að skoða sem eina heild. Enginn fyrirvari í aðra átt er gerður í samkomulagi BSRB og fjmrn., en þar segir svo í niðurlagi, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt því sem ríkisstj. beitir sér fyrir ofangreindum breytingum á samningsréttarlögum BSRB, nr. 29/ 1976, samþykkir samninganefnd BSRB fyrir sitt leyti að falla frá þeirri 3% grunnkaupshækkun, er taka átti gildi 1. apríl n. k.“

Samkomulag þetta er af báðum aðilum undirritað með þeim fyrirvara, að það verði samþykkt í allsherjaratkvgr. félagsmanna BSRB. Á undan þessu fara þær hreytingar á samningsréttarlögunum sem um er að tefla. En í þessu niðurlagsákvæði er ekki að neinu leyti greint á milli starfsmanna ríkisins og starfsmanna bæjarfélaga.

Þá beindi hv. þm. Kjartan Ólafsson til mín nokkrum fsp. varðandi bráðabirgðaákvæði verðbótakaflans og hann var a. m. k. hálfur, að mér fannst, í fylgi sínu við frv. Hann spurði hvernig færi með það sem hann kallaði láglaunabætur, hvenær þær ættu að hverfa. Það kom fram í máli hv. þm., að hann var ekki svo fáfróður um það efni sem hann vildi vera láta, enda eru ákvæðin í frv. um þetta allskýr. Samt sem áður vil ég reyna að veita hv. þm. þá úrlausn sem ég má.

Ég sneri mér til þess manns sem ég veit fróðastan um vísitölumál og einna nákvæmastan embættismanna, þ. e. a. s. hagstofustjóra, og hann lét mér í té svo hljóðandi álitsgerð, sem ég vil leyfa mér að lesa upp orðrétta, með leyfi hæstv. forseta:

„Um verðbótaákvæði í frv. til l. um stjórn efnahagsmála o. fl.

Samkv. ákvæðum VIII. kafla frv. til l. um stjórn efnahagsmála o. fl. og brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. Alþ. við hann er fyrirhugað að ákvæði um greiðslu verðbóta á laun verði sem hér segir frá og með þeim greiðslutímabilum er hefjast 1. júlí, 1. sept. og 1. des. 1979:

1. Frá 1. júní 1979 greiðast verðbætur á grunnlaun eftir verðbótavísitölu reiknaðri samkv. ákvæðum VIII. kafla frv., en þó skal frádráttur frá verðbótavísitölu vegna rýrnandi víðskiptakjara hæst nema 2% af verðbótavísitölu og auk þess skal þessi frádráttur að svo stöddu ekki hafa áhrif til lækkunar verðbóta á mánaðarlaun lægri en 210 þús. kr. Miðað við lauslega áætlun Þjóðhagsstofnunar um verðbótavísitölu frá 1. júní 1979 hækka láglaun í þeim skilningi, er hér um ræðir, um 9% frá 1. júní n. k., en önnur laun um 7%. Hækkun láglauna frá 1. júní 1979 er þannig áætluð 2 prósentustigum meiri en hækkun hærri launa.

2. Frá 1. sept. 1979 greiðast verðbætur á grunnlaun eftir verðbótavísitölu þess greiðslutímabils er þá hefst, en við ákvörðun hennar skal m. a. taka tillit til viðskiptakjarabreytinga frá síðasta útreikningi og auk þess skal reikna inn i hana þá viðskiptakjararýrnun umfram 2% sem kann að hafa orðið miðað við 1. júní, en varð ekki virk þá. Að því er varðar mánaðarlaun lægri en 210 þús. kr. skal breyting verðbóta frá því sem var 1. júní vegna viðskiptakjarabreytinga vera hin sama og hún er fyrir aðra launataxta. Samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar um verðbótavísitölu frá 1. sept. verða láglaun þá orðin 16.9% hærri en grunnlaun, en önnur laun 14.8% hærri en grunnlaun. Hér er því enn um að ræða tveggja prósentustiga mun á verðbótum á láglaun og önnur laun.

3. Frá 1. des. 1979 skal greiða jafnháa prósentu verðbóta á öll laun, og fellur þar með niður greiðsla 2% hærri verðbótaprósenta á láglaun en á laun 210 þús. kr. og hærri. Samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar verða verðbætur frá 1. des. 1979 22.3% á grunnlaun há og lág. Þar eð verðbætur á láglaun voru á greiðslutímabilinu sept.-nóv., og raunar einnig í júní-ágúst, hlutfallslega meiri en þær voru á mánaðarlaun 210 þús. kr. og hærri, hlýtur prósentuhækkun láglauna frá sept.-des. að verða minni en prósentuhækkun hærri launa. Er hækkun láglauna þá áætluð 4.5%, en annarra launa 6.5%. Þessi munur á prósentuhækkun launa frá 1. des. 1979 er sjálfgefin afleiðing þess, að sérstaða láglauna að því er varðar áhrif viðskiptakjararýrnunar á greiðslu verðbóta fellur niður frá og með þessum tíma“.

Ég ætla að vona að þetta gefi glögga mynd af því, hver ferillinn er og verður í þessu efni.

Ég undirstrika rækilega það höfuðatriði sem um var spurt, að mér skildist, að frá 1. des. verða verðbætur á öll laun þær sömu. Ég hygg að á fund hv. fjh.- og viðskn. hafi komið fulltrúi frá Þjóðhagsstofnun og hafi líka gefið yfirlit með sömu niðurstöðu í þessu efni. Ég held að öllum megi því vera ljóst hvað í ákvæðum þessum felst.

Mér skildist að jafnvel einn eða kannske tveir hv. þm. létu að því liggja, að þeir gætu ekki fylgt frv. vegna þess að svona væri í pottinn búið. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég skil ekki þessa röksemdafærslu. Hver er afleiðingin af því, ef svona hugsun er hugsuð til enda? Hún er sú, að það er aldrei hægt að hækka eða leiðrétta hlut láglauna nema það sé tryggt að sú leiðrétting gildi að eilífu. Þar er óumdeilanlegt að með þessu frv. og með ákvæðum, sem í því eru, er láglaunatekjum, ef menn vilja kalla þær það innan við þetta mark, 210 þús. kr., veitt ívilnun — fríðindi, ef menn vilja kalla það því nafni. Þau fríðindi falla niður 1. des. Eftir það sitja allir við sama borð að óbreyttum samningum.

Ég vænti þess, að hv. þm. muni skoða hug sinn betur og standa ekki gegn réttlætismáli, þó að það sé ekki tryggt að leiðréttingin standi lengur en þetta. Þetta er réttlætismál að þeirra dómi og margra annarra, af því að mér er ómögulegt að sjá annað, ef maður hugsar svona, en að það væri aldrei hægt að fallast á neinar tímabundnar umbætur til handa láglaunamönnum ef það ætti að standa á móti því að þær féllu niður eftir einhvern tíma.

Þá spurði hv. þm. að því, hvernig á það yrði litið ef frv. væri breytt í þá veru að láglaunabætur, ef maður notar það orð, sem er þó kannske ekki alveg nákvæmt, stæðu lengur en til þess tíma sem ákveðinn er í frv., og hvort það væri möguleiki. Svarið við þessari spurningu er einfaldlega nei. Það er af því, eins og hv. þm. veit, að þegar fjallað var um þessi mál í hv. fjh.- og viðskn., reyndar beggja þd., settu stjórnarliðar undirnefnd til að fjalla um þessi mál og í þessari n. voru hv. þm. Jón Helgason formaður í fjh.- og viðskn. Ed., hv. þm. Ágúst Einarsson í fjh.- og viðskn. Ed og hv. þm. Lúðvík Jósepsson formaður hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. Og einmitt þar bar hv. þm. Lúðvík Jósepsson fram þá ósk, að þetta fyrirkomulag gæti orðið lengt fram á næsta ár. Því var hafnað. Þá féllst hann á þetta eins og það er úr garði gert og um það varð samkomulag. Ég veit ekki betur en allir þeir fulltrúar, sem þarna áttu hlut að máli, hafi farið í þingflokka sína og borið málið undir þá og eftir það var — hvað eigum við að segja? — gefið grænt ljós á að þetta mætti fram ganga. Þar með er ég ekki að segja að það hafi verið nein trygging fyrir því, að allir þm. í hverjum flokki hafi verið sammála. En þannig er þetta í pottinn búið. Ég vænti þess, að engir hv. Alþb.-menn a. m. k. vilji minnka hlut formanns síns að honum fjarverandi. Á þetta féllst hann, og að öllum öðrum Alþb.-mönnum ólöstuðum met ég orð hans mest.

Þá spurði hv. þm. enn að því, hvort það kæmi til greina að breyta þessu e. t. v. 1. des. eða síðar. Hann spurði um persónulega skoðun mína á því. Nú má segja að persónuleg skoðun mín á því sé ekki mikils virði, en ég skal gjarnan láta hana í té. Ég er að meginstefnu til fylgjandi meiri launajöfnuði en nú á sér stað. Ég tel láglaun of lág. Það hefur aldrei tekist í samningum af einhverjum ástæðum að lyfta þeim upp eins og skyldi. Þess vegna mundi ég persónulega vera til viðræðu um að taka upp sérstakar láglaunabætur, ef um viðskiptakjararýrnun væri að ræða og nýir kjarasamningar hefðu verið gerðir. En eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson veit eru yfirlýsingar einstakra þm. og jafnvel ráðh. ekki einhlítar, ef þeir hafa ekki á bak við sig samþykki þingflokka, og ég hef ekki samþykki míns þingflokks á bak við það sem ég sagði nú um þetta efni. Það var aðeins mín persónulega skoðun.

Þá hef ég svarað þeim fsp. sem til mín var beint við 1. umr. málsins. En það voru nokkrar hugleiðingar hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni sem ég vildi víkja að. Kannske væri reyndar rétt að skjóta því inn í áður, að mér fannst gæta nokkurs misskilnings í máli hæstv. viðskrh. þar sem hann talaði um að fulltrúar Alþýðusambandsins í vísitölunefnd hefðu hætt störfum þar. Það er ekki rétt. Þeir sátu eins og allir aðrir meðlimir vísitölunefndar til síðustu stundar og sátu út allan síðasta fund vísitölunefndar. Vísitölunefnd hafði verið lengi að starfi. Hún var skipuð í sept., ef ég man rétt. Henni var sett fyrir. Hún átti að skila af sér 20. nóv. Það gat hún ekki gert. Þá féllst ég á að framlengja frestinn til 15. febr. Þá voru öll sjónarmið komin fram í vísitölunefnd. Menn gengu því ekkert að því gruflandi, hver væri afstaða fulltrúa þeirra sem þá nefnd skipuðu.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson vék að því, að það væri athugavert við verðbótakaflann að viðskiptakjaravísitalan eða rýrnunin væri miðuð við of langan tíma, viðmiðunartíminn væri of langur, allt árið 1978. Ég veit ekki betur en það hafi einmitt verið sjónarmið launþega í þeim viðræðum, sem fram fóru um þetta mál, að æskilegt væri að viðmiðunartíminn væri nokkuð langur.

Víst er um það, að í þeirri skriflegu grg., sem mér barst frá Alþýðusambandinu um þetta atriði, sem var ekkert hraðsoðin, því að þeir fengu frumvarpsdrög í hendur 13. febr., en álitsgerðin er ítarleg og gefin 26. febr., þá segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um vísitölukaflann eða kaflann um verðbætur á laun:

„Miðstjórn ítrekar ákveðna andstöðu sína við efni þessa kafla og vísar til sérstakrar bókunar fulltrúa ASÍ, BSRB og FFSÍ í vísitölunefnd. Þar segir m. a.: Við erum algerlega á móti því að skattar og niðurgreiðslur verði tekin út úr vísitölu og verðbætur verði frystar til 9 mánaða, svo að nokkur atriði séu nefnd. Við höfum hins vegar lýst okkur reiðubúna að ræða þætti eins og hvernig beinir skattar séu teknir inn í vísitölugrundvöll og setja grunn verðhótavísitölu á 100 í tengslum við nýja samninga og hvort og hvernig taka mætti upp viðskiptakjaravísitölu í framtíðinni.“

Það er laukrétt að þeir lýsa sig í upphafi andvíga kaflanum yfirleitt, en þeir taka þá úr einstök atriði og benda á. Þar af verður að draga þá ályktun, að það séu þau atriði, sem þeim eru sérstaklega þyrnir i augum, og verður að telja að það hefði a. m. k. verið skýrara og ekki til of mikils ætlast, ef þeir vildu sérstaklega gera aths. við viðmiðunartímann, að það hefði verið sérstaklega tekið fram í álitsgerð og að slíkt hefði komið fram. Ég verð því að telja það síðari tíma fyrirbæri að áhersla var lögð á þetta atriði. En það er engin ástæða til að fjölyrða um þetta, af því að um þetta er orðið samkomulag og þarf ekki að ræða um það út af fyrir sig.

Það var annað atriði sem sami hv. þm. vék að og ég vil ekki láta ósvarað, en það var í sambandi við lyftingu þaks af hærri launum, sem gerð hefði verið með kjaradómi. Hann taldi það athugavert, að í till. mínum að frv. — skulum við segja — er gert ráð fyrir að greiddar verði hlutfallsegar bætur á öll laun, og taldi að þetta mundi hafa haft áhrif á niðurstöður Kjaradóms. Nú er það sannast mála, að ég tel persónulega að slíkt þak geti átt rétt á sér, en ekki nema takmarkaðan tíma. Það getur aldrei staðið til langframa. Það var ómótmælanlegt, að það bitnaði sérstaklega á félagsmönnum í Bandalagi háskólamanna. Það var á engan hátt eðlilegt að þeir tækju þegjandi þeirri mismunun sem að þeim var rétt með þessu. Þeir börðust fyrir því að fá breytingu á þessu. Ég var talsmaður þess, að það væri reynt að ná samningum við þá um þetta, m. a. um afléttingu þaksins í áföngum. Um það náðist ekki samkomulag. Menn vildu heldur láta málið fara til Kjaradóms. Ég lét þess þá getið, að ég teldi að allt eins gæti verið að Kjaradómur yrði á þá lund sem raun bar vitni um með atkv. meiri hl. Ég held að bað sé hins vegar alger firra, að nefnt ákvæði í till. mínum hafi nokkru ráðið um niðurstöður Kjaradóms eða meiri hl. — Kjaradómur skiptist í meiri hl. og minni hl.

Kjaradómurinn er fyrir hendi, og það er afskaplega auðvelt að lesa hann. Það liggur ákaflega ljóst fyrir, á hverju meiri hl. Kjaradóms byggir ákvörðun sína. Hún byggist á því, að Reykjavíkurborg aflétti þakinu um s. l. áramót og e. t. v. fleiri sveitarfélög. Það er alveg skýrt og ljóst og til þess vitnað í kjaradóminum. En hverjir voru það þá sem börðust fyrir því og vildu eigna sér að lyft var þakinu af launum hjá Reykjavíkurborg? Man þá enginn Snorra Sturluson? var einu sinni spurt. Það er ólíku saman að jafna, en ég segi: Man þá enginn Guðrúnu Helgadóttur? (Gripið fram í: En Kristján Benediktsson?) Já, Guðrúnu Helgadóttur, sem hafði uppi frýjunarorð í sumar um það, hvernig á því stæði að þessu þaki væri þá ekki lyft alveg strax, það væri honum Kristjáni Benediktssyni að kenna. Ef hæstv. viðskrh. vill efast um þetta er hægt að fletta upp í gömlum blöðum, t. d. Þjóðviljanum. Þetta er sannleikurinn, og sannleikanum eiga menn að bera vitni. Það er einkennilegt í sjálfu sér, að þegar menn eru í borgarstjórn Reykjavíkur fylgjandi mínum ágæta samstarfsflokki, Alþb., séu menn nokkuð á annarri skoðun um þetta atriði en þeir eru í ríkisstj. Ja, hver veit nema þeir hefðu getað leyft sér að vera á annarri skoðun í ríkisstj., ef Kristján Benediktsson hefði verið þar eitthvað að standa á móti. En svo var ekki.

Þetta sýnir að það er alveg ástæðulaust að deila um það atriði, hver muni bera höfuðábyrgð á því að þessu þaki var lyft af. Ég tel það í raun og veru að mörgu leyti réttlætismál. Og víst er um það, að Bandalag háskólamanna veit hvað að þeim snýr, ef menn telja að það sé ekki réttlætismál að þeir fái réttan sinn hlut, og vita þá hverjir hafa staðið þar í gegn og standa þar í gegn.

Hitt er aftur annað mál, að vísitölukerfið er gallað. Það þarf að gera á því breytingar. Ég nefndi það í frumræðu minni, að ég gæti t. d. hugsað mér að verðbætur væru ákveðnar með lögum sama upphæð á öll laun. En það er ekki þannig að farið. Við höldum því kerfi áfram í þessu frv., að það er gefið svigrúm til að semja um vísitölubætur. Menn eru fullkomlega frjálsir að því. Vísitölukerfið, sem við búum við, er stórskaðlegt. Á meðan við það er búið verður aldrei unninn sigur á verðbólgunni til fulls. Því hefur enginn betur lýst en sá ágæti maður hv. þm. Lúðvík Jósepsson, en hann gerði það í þingræðu 1974, sem ég væri tilbúinn til að lesa upp fyrir hv. þdm. ef þörf þætti á. Það er vissulega svo djúpur sannleikur í því sem hann segir þar, t. d. varðandi óbeina skatta, að það væri ekki ástæðulaust að endurtaka það. En kerfið er nú einu sinni eins og það er og við verðum að sætta okkur við það.

Í því frv., sem hér er um að ræða, eru þó nokkur spor stigin til lagfæringar í þessum efnum. Sérstaklega er að mínum dómi mikilvægt að viðurkennt er það höfuðatriði að taka megi tillit til viðskiptakjara, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson lagði einmitt alveg sérstaka áherslu á í ræðu sinni á þingi 1974.

Það er ekki ástæða til að ég sé að ræða frekar við stuðningsmenn mína. Það má segja að það hafi farið of langt mál í það hjá mér að tala við þá. Ég hef kannske þá afsökun, að það er svo lítið að segja — svo sáralítið að segja við stjórnarandstæðinga. Málflutningur þeirra var svo daufur að hann mátti eiginlega ekki daufari vera. (Gripið fram í. ) Jú, þeir þurfa að vera á móti þessu og þá verða þeir að segja eitthvað. Þá er handhægt að segja: 3–4 fyrstu kaflarnir eru eiginlega markleysa. Þetta eru verklagsreglur, sem farið hefur verið eftir. Það er engin ástæða til þess að vera að lögfesta það, hvorki um fjárlagagerð né fjárfestingar og því um líkt. — Verklagsreglur eru býsna oft lögfestar og það eru býsna margar verklagsreglur í lögum. Og ef það eru góðar verklagsreglur sem hafa myndast og verið farið eftir án þess að lagafyrirmæli væru fyrir hendi, er þá ekki betra og tryggara að setja þær beinlínis í lög og festa þær þannig? (Gripið fram í: Í stjfrv.?) Já, þó að maður fari nú ekki svo langt gæti verið framför í því að setja þær sem venjuleg lög. Þess vegna skil ég ekki í því að talað sé um þetta.

Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen talaði talsvert um að þetta væru verklagsreglur, það væri farið eftir þeim, og lét að því liggja að talsvert af þessu hefði komist á í sinni tíð, hann hefði verið farinn að vinna að þessu og verið að vinna að þessu. Sjálfsagt er þetta rétt hjá honum. Það hefur verið smám saman að myndast vísir að þessum reglum. En hvers vegna í ósköpunum tekur hann því þá ekki fagnandi að þetta skuli vera fest með því að setja það í lög, ef það er heppileg framkvæmd og hefur verið heppilegt að mynda þessar reglur og venjur? En ég tek þó ekki hart á þessu, þetta er aukaatriði.

Reyndar er svipað að segja um það sem kom fram áðan hjá frsm. minni hl. Það voru nokkur stóryrði. En ég held að þau hafi átt að þekja yfir heldur lítið innihald.

Menn eru að tala um að hér séu bara stefnuyfirlýsingar og áætlanir og því um líkt. Ég veit ekki annað en það þyki góð latína að tala um áætlanir, og ég veit ekki betur en sjálfstæðismenn flytji ýmsar till. á Alþ. um áætlanagerð til langs tíma og það góðar till. sumar hverjar. Og ég veit ekki til þess, að það sé talin nein goðgá þó menn vilji móta stefnu eða gefa stefnuyfirlýsingu. Stefnuyfirlýsingar í lögum geta haft sína þýðingu, a. m. k. fyrir framkvæmdavaldið, af því að það mundi að jafnaði vera bundið við að fara eftir þeim.

Það er ekki ástæða til að taka það nærri sér þó stjórnarandstæðingar reyni að gera sem minnst úr þessu frv. og finna því sitt hvað til foráttu. Reyndar er það svo lítið sem þeir finna frv. til foráttu, að þar verður eiginlega ekki hönd á fest.

Jú, það er farið að ræða um undirbúning þessa frv. Það hafa reyndar fleiri gert en stjórnarandstæðingar. Nú veit ég ekki heldur en það sé nokkuð venjulegur háttur í undirbúningi löggjafar, að löggjöf sé undirbúin utan þings, það séu t. d. settar nefndir til að semja frv. eða einstakir menn fengnir til þess að semja frv. Það er vinna sem fer fram utan þingsins. Það er ekki þar með sagt að þær till. eða þau drög, sem koma frá nefndum eða einstökum mönnum, finni náð í óbreyttri mynd fyrir augum hlutaðeigandi ráðh. eða ríkisstj. í heild. Þeim getur verið breytt svo og svo mikið. En það er yfirleitt ekki venja að vera að eyða löngum tíma á hv. Alþ. í að ræða það sem hefur staðið einhvern tíma þá og þá í einhverjum frv. drögum sem aldrei hafa komið til kasta Alþingis. Það eru bara í raun og veru till., bara hugmyndir, það er ekki hægt og rétt að tala um frv. fyrr en það er lagt fram á Alþ. Þess vegna eiga auðvitað umr. að snúast um það frv. sem hér var lagt fram, en ekki þær hugmyndir sem hafa verið í gangi þá og þá og tekið breytingum.

Menn gera lítið úr því samráði sem haft hafi verið við samráðsaðila. Ég held að það sé nokkuð lítið gert úr því, vegna þess að þessir samráðsaðilar fengu góðan umhugsunartíma. Þeir skiluðu allir álitsgerðum meira eða minna ítarlegum, og þær álitsgerðir eru hver með sínum hætti. Þær eru í ýmsum efnum jákvæðar, öðrum tilfellum neikvæðar. Ég hygg því að það hafi aldrei verið haft jafnmikið samráð við aðila áður en frá frv. væri gengið og í þessu tilfelli.

Ég skal ekki orðlengja það, en vil bara undirstrika það, að auðvitað eiga ræður manna fyrst og fremst að snúast um það frv. sem lagt var fram á Alþ., og þær breytingar, sem það hefur tekið í meðförum Alþ., en ekki um einhver drög, tillögur eða hugmyndir sem hafa verið undanfari þess frv. sem var lagt fram. Ég er ekki með þessum orðum að biðjast undan því að rætt sé um þau drög sem ég lagði fram í sínum tíma. Ég tel að í sumum efnum hafi þeim verið breytt til hins lakara. En það hefur yfirleitt verið gert til þess að mæta óskum eða ábendingum sem hagsmunaaðilar settu fram. T. d. var strax breytt ákvæðum í verðbótakaflanum, sem manni skildist að launþegasamtökin hefðu helst við að athuga, og þó voru þau ekki öll á sama máli um þau atriði.

Það var eitt gullkorn, fannst mér, í nál. minni hl. Þar stendur, að þessi stjórn mundi ekki vera fær um að fylgja fram neinni heillegri stefnu í efnahagsmálum. Svo er bætt við: ef slík stefna fyrirfyndist. Þar með sýnist mér látið að því liggja að hún sé ekki sem heillegust, þessi stefna sem Sjálfstfl. hefur sett fram um efnahagsmál. (Gripið fram í.) Já, hann leiðréttist þá. Ég held því ekki fram að þetta frv., þó að lögum verði sem það sjálfsagt verðúr, geri nein undur. En ég held að þetta sé tilraun til þess að setja heilsteyptari og samræmdari reglur um þessi efni, um stjórn efnahagsmála og fleiri atriði í því sambandi, en áður hefur verið gert. Og ég held að í þessu frv. felist markverð viðleitni í þá átt að reyna að ráða við það stóra vandamál sem verðbólgan er.

Það er alveg rétt, sem hér hefur verið minnst á, að vandi atvinnuveganna er mikill. Af hverju er vandi atvinnuveganna mikill? Er það ekki einmitt af því að verðbólgan er of mikil og þess vegna eru atvinnuvegir okkar svo illa samkeppnisfærir á erlendum mörkuðum? Þess vegna ber allt að sama brunni, að það er nauðsyn að ná verðbólgunni niður. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það virðist í orði vaxandi áhugi á þessu. En er mönnum eins mikil alvara í þessum efnum og þeir vilja vera láta? Það reynir á það. Það reynir á það jafnvel í þessu tilfelli, þótt aðeins eigi að stíga stutt skref til lagfæringar. Þá reynir á það, hvað menn hafa meint með öllum stóru orðunum. Vilja þeir koma verðbólgunni niður eða vilja þeir það ekki? Við viljum með þessu reyna að gera tilraun í þá átt, án þess þó að ganga svo langt að stofna atvinnuöryggi í nokkra hættu. Það er höfuðmarkmið okkar að halda atvinnu uppi. En hvert er meginskilyrðið fyrir því, að það verði næg atvinna í þessu landi? Það er að atvinnuvegirnir verði reknir og geti gengið sæmilega. Ef hjól atvinnulífsins hætta að snúast heldur atvinnuleysið innreið sína. Þetta mættu menn hugleiða áður en þeir taka á sig þá ábyrgð að vera andvígir þessu frv.